Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 23:03:31 (7147)

     Frsm. meiri hluta samgn. (Árni M. Mathiesen) :
    Herra forseti. Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Þetta er í fyrsta sinn sem samgn. hefur vegáætlun til meðferðar. Fyrir breytingu þingskapa var málið lagt fram í sameinuðu Alþingi og vísað til fjárveitinganefndar. Þær venjur, sem skapast höfðu í fjárveitinganefnd um umfjöllun vegáætlunar, voru hafðar að leiðarljósi einnig að þessu sinni.
    Á fund nefndarinnar komu starfsmenn Vegagerðarinnar, fulltrúi fjmrn. og fulltrúar Verktakasambands Íslands ásamt fulltrúum frá Ríkisendurskoðun.
    Regluleg endurskoðun vegáætlunar fór fram á 113. löggjafarþingi, 1990--1991. Sú endurskoðun, sem nú er gerð, nær því aðeins til tekjuspár og framkvæmdaáforma fyrir yfirstandandi ár. Regluleg endurskoðun vegáætlunar, sem fram fer á tveggja ára fresti, fer hins vegar fram á næsta þingi, 1992--1993. Núgildandi vegáætlun fyrir árin 1991--1994 var samþykkt á Alþingi í mars 1991. Í henni var gert ráð fyrir að á þessu ári yrði 6.318 millj. kr. aflað með mörkuðum tekjustofnum og miðað var við að verðlagshækkun milli áranna 1991 og 1992 yrði 8%. Í fjárlagagerð fyrir 1992 var gert ráð fyrir 3,5--4% hækkun milli ára og samkvæmt þeim verðlagsforsendum hefði framkvæmdafé lækkað um tæpar 300 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 1992 er hins vegar gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar gefi af sér 5.830 millj. kr. og af þeim renni 265 millj. kr. í ríkissjóð. Af þessari ástæðu þurfti að endurskoða vegáætlunina.
    Einnig þurfti nú að endurskoða vegáætlunina vegna samkomulags fjmrh. við borgarstjóra Reykjavíkur frá 3. apríl 1991 um greiðslu á skuld ríkisins sem tilkomin er vegna framkvæmda við þjóðvegi í Reykjavík. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir greiðslum að upphæð 370 millj. kr. á tímabili núgildandi vegáætlunar en í henni er gert ráð fyrir greiðslum að upphæð 337 millj. kr. eða 33 millj. kr. lægri upphæð á tímabilinu 1991--1994. Einnig er í samkomulaginu gert ráð fyrir annarri greiðslutilhögun á tímabilinu en er í samþykktri vegáætlun 1991--1994. Eins og fram kom við fyrri umræðu um þessa tillögu er samkomulag fjmrh. og borgarstjóra umdeilt. Var þeirri ósk þá beint til samgn. að hún kannaði lögmæti þess. Hefur samgn. kannað málið ítarlega en óskað var jafnframt eftir áliti fjárln. á samkomulaginu. Svar fjárln. er birt sem fylgiskjal með þessu áliti en því fylgdi álit Ríkisendurskoðunar á tilteknum atriðum. Ekki verður frekar fjölyrt um samkomulag þetta en telja má þó að það sé bindandi fyrir ríkissjóð og því ekki efni til annars en að standa við það.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til breytingar á þeirri áætlun um fjáröflun sem gert er ráð fyrir í tillögunni. Við umfjöllun um áætlunina var haft samráð við fjárln. og er hún innan ramma gildandi fjárlaga.
    Varðandi skiptingu útgjalda er lögð til sú breyting að fluttar verði 120 millj. kr. af liðnum 2.2.2. Vetrarþjónusta á liðinn 2.3. Til nýrra þjóðvega. Af þessum fjármunum fara 60 millj. kr. til stórverkefna, 40 millj. kr. í Vestfjarðagöng en 20 millj. kr. í Strákagöng. Til almennra verkefna og bundins slitlags á stofnbrautir fara 45 millj. kr. og 10 millj. kr. til stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. Til þjóðbrauta fara 5 millj. kr.
    Við endanlega ákvörðun um framlög til einstakra verkefna hafa þingmenn kjördæma unnið í samráði við Vegagerð ríkisins og hefur nefndin fallist á tillögur þeirra enda hafa þær ekki breytt heildarframlögum til vegamála á árinu 1992.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Undir nál. rita Árni M. Mathiesen, Sigbjörn Gunnarsson, Pálmi Jónsson, Árni Johnsen og Sturla Böðvarsson.