Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 23:08:44 (7148)

     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta samgn. á þskj. 900.
    Minni hluti nefndarinnar mótmælir harðlega þeim niðurskurði til vegamála sem fram kemur í tillögum meiri hlutans. Skynsamlegt hefði verið að hamla á móti samdrættinum í þjóðfélaginu með því að auka verulega fjármagn til framkvæmda í vegagerð. Í stað þess er framkvæmdafé dregið saman um 765 millj. kr. frá fyrri áætlunum. Aðallega bitnar þessi samdráttur á almennri vegagerð.
    Rétt er að hafa í huga að fé til almennrar vegagerðar, ef frá eru dregin framlög til höfuðborgarsvæðisins og stórverkefna og 62,5% fjárveiting til Ó-vega, hefur minnkað ár frá ári sl. 10 ár, úr 2.415 millj. kr. árið 1982 í 1.662 millj. kr. árið 1992.
    Fjármunir til stórverkefna koma þyngra niður á þessu ári en áætlað var. Miðað hafði verið við að fjármögnunin dreifðist á fleiri ár en framkvæmdir stæðu. Stjórnvöld hafa horfið frá því og ákveðið að fjármagna verkin jafnóðum af vegafé. Þessi breyting hefur það í för með sér að meira fer af vegafé til Vestfjarðaganga í ár en ráð var fyrir gert. Þar er horfið frá 250 millj. kr. lántöku en 40 millj. kr. aukafjárveitingu bætt við til að semja við verktaka um seinkun verkefna.
    Samningur milli fjármálaráðherra og Reykjavíkurborgar um greiðslu á skuldum vegna fyrri framkvæmda eykur útgjöld þessa árs um 74 millj. kr. Ríkisstjórnin skar niður fé til vegamála um 350 millj. kr. á síðasta ári og af þeim sökum var ýmsum verkefnum frestað til þessa árs. Aðallega bitnar þessi þróun á almennum vegaframkvæmdum sem dragast saman um 20% milli ára.
    Almennar vegaframkvæmdir eru hvað mest atvinnuskapandi og sérlega mikilvægar nú þegar byggðir landsins þurfa að bregðast við atvinnumissi vegna minnkandi búvöruframleiðslu, rýrari aflaheimilda og samdráttaraðgerða ríkisstjórnarinnar. Vegagerð er fjárfesting til framtíðar og samkvæmt þjóðhagslegum útreikningum eru vegaframkvæmdir meðal arðbærustu framkvæmda sem kostur er á. Minni hluti nefndarinnar hefur ítrekað bent á að í því atvinnuástandi, sem nú ríkir, er niðurskurður á fé til vegamála óskynsamlegur. Þvert á móti ættu stjórnvöld að nýta sér það svigrúm sem nú er hjá verktökum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum sem bíða hvar sem farið er um landið. Það er mikið áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki hafa meiri skilning á þessum málum en raun ber vitni.
    Við umræðuna munu einstakir nefndarmenn gera nánari grein fyrir afstöðu sinni til tillögunnar og framkominna breytingartillagna við hana.
    Undir þetta nál. rita Jóhann Ársælsson, Guðni Ágústsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Stefán Guðmundsson.
    Ég vil nefna það til viðbótar að með tillögunni eru birtar upplýsingar frá Vegagerðinni um upplýsingar sem tengjast því sem ég var að tala um áðan, m.a. er tafla þar sem fram kemur þróun fjárveitingar til almennrar vegagerðar. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að þar kemur fram að almenn vegagerð hefur dregist mjög mikið saman á síðustu tíu árum. Það má segja að það hafi verið samfelldur samdráttur á árunum frá 1982 til 1992. Fjárveitingar eru núna í 1.662 millj. en voru á sama verðlagi 2.400 millj. árið 1982. Þetta er þróun sem menn hljóta að þurfa að velta alvarlega fyrir sér. Sérstaklega núna vegna þeirra áhrifa sem almenn vegagerð hefur á atvinnulífið í landinu og þá möguleika sem byggðirnar hafa til nýsköpunar í atvinnulífinu. Tekjur til vegaframkvæmda eru lægri en þær ættu að vera miðað við áætlanir fyrri ára. Á bls. 3 í nál. má sjá yfirlit yfir breytingar á vegáætlun frá í fyrra. Þar kemur fram að því var spáð að á árinu 1992 yrði vegafé 6.318 millj. kr. Niðurstöðutalan samkvæmt því sem nú er áætlað eftir að búið er að leiðrétta það verðlag sem miðað var við, þ.e. það hefur ekki hækkað eins mikið og reiknað var með, þá erum við þarna með rúma 6 milljarða eða 6.081 millj. kr. og niðurstöðutala tekna samkvæmt fjárlögum er 5.830 millj. kr. og niðurstöðutala útgjalda samkvæmt fjárlögum er 5.566 millj. kr. Mismunurinn er sem sagt 515 millj. kr., þar af er flatur niðurskurður á launum og rekstri 14 millj. kr. Við gerð vegáætlunarinnar var enn fremur miðað við aflað yrði lánsfjár til Vestfjarðaganga að upphæð 250 millj. Þetta lánsfé átti að koma til uppbótar fjárveitingu til verkefnis í vegáætluninni samkvæmt fjárlögum 1992. En þessa fjármagns verður ekki aflað. Til að menn átti sig á því hvað það er sem hefur verið að gerast má bæta því við að núna eru innheimtar tekjur af umferðinni sem svarar 8,7 milljörðum kr. En vegafé er 5,7 milljarðar eða nálægt því.
    Ástæða er til að staldra við það sem ég var hér að koma að áðan, þ.e. þær tekjur sem eru til vegagerðar og velta því fyrir sér hvernig þær tekjur, sem mögulegt er að hafa af umferðinni, eru nýttar. Þar hefur hlutur blýlausa bensínsins hækkað mjög mikið. Á minnisblaði frá fjmrn., sem ég hef hér í höndum, kemur fram að til þess að nýta það sem má samkvæmt lögum og reglum þyrfti að hækka blýlausa bensínið um 4,3%--4,6%. Sú aðgerð mundi hækka vísitölu framfærslukostnaðar um 1% en jafnframt mundi hún skila í ríkissjóð 256 millj. í viðbót af bensíngjaldinu. Það væri nálægt þeirri upphæð sem tekin var í ríkissjóð af peningum til vegagerðar fyrir þetta fjárlagaár. Eins er þungaskatturinn ekki heldur nýttur að fullu. Þar er ónýtt heimild til hækkunar upp á 10,2%. Þarna liggja verulegir peningar og full ástæða er til að velta því fyrir sér hvort það er skynsamlegt að nýta sér ekki möguleikana til tekjuöflunar í vegamálum.
    Minni hlutinn hefur gagnrýnt þetta í vetur og rætt ítrekað í nefndinni að ástæða væri til þess að auka vegaframkvæmdir miðað við það atvinnuástand sem nú ríkir. Meiri hlutinn hefur ekki verið til viðtals um að gera það en hann hefur aftur á móti fært lítils háttar til í áætlunum eins og formaður nefndarinnar lýsti hér áðan. Út af fyrir sig tel ég að það sé góðra gjalda vert sem þar var gert og ætla síst að vanþakka það. En í raun og veru er um að ræða mjög litlar tilfærslur þó að væri um að ræða 120 millj. sem voru færðar af vetrarþjónustu. Þar gerast meirihlutamenn spámenn um veðurfar og gera ráð fyrir því að ekki muni koma til þess að vetur byrji snemma eða verði harður. Vonandi verða þeir sannspáir með það.
    Ástæða er til að benda á mikilvægi framkvæmda í vegamálum. Þrjár mjög veigamiklar ástæður hafa aukið mikilvægi þess að vinna að betri samgöngum. Hin fyrsta er sú atvinnuháttabreyting sem nú er að verða vegna samdráttar í landbúnaðarframleiðslunni. Nýsköpun í atvinnulífi hinna dreifðu byggða stendur og fellur með betra samgöngukerfi. Íbúar sveita og kaupstaða, sem missa atvinnu vegna þessa samdráttar sem hefur orðið í búvöruframleiðslu, verða annaðhvort að bæta sér það upp með því að sækja hluta af sinni vinnu til annarra staða eða að koma sér upp nýrri atvinnustarfsemi sem í flestum tilvikum er ekki mögulegt nema greiðar samgöngur séu í byggðarlaginu og til annarra landshluta.
    Allir sem fjalla um þessi mál eru sammála um það að samgöngubætur séu eina byggðastefnan sem megi treysta að geti ekki brugðist. Önnur ástæða er sú að mörg byggðarlög þurfa nú sem aldrei fyrr á auknum samgöngubótum að halda. Sjávarútvegsbyggðirnar allt í kringum landið þurfa að treysta meira og meira á greiðar samgöngur. Fiskmarkaðir munu gefa nýja möguleika til að jafna atvinnu milli byggðarlaga þegar þeir hafa rutt sér til rúms nægilega víða. Þeir eru gjörsamlega háðir því að samgöngubætur verði á ýmsum stöðum landsins. Í þeirri þróun felast möguleikar fiskvinnslufyrirtækja til að bregðast við minnkun afla með auknum flutningi hráefnis milli byggðarlaga.
    Nú er uppi mjög mikil umræða um sameiningu og samstarf sveitarfélaga. Sú umræða hefur nú þegar breytt afstöðu margra íbúa ýmissa byggðarlaga sem áður voru andvígir sameiningu við önnur byggðarlög. Þó er augljóst að í mörgum tilvikum eru möguleikar á sameiningu algjörlega bundnir því að samgöngubætur fáist. Enda er skipting sveitarfélaganna engin tilviljun heldur afleiðing samgöngumöguleika og atvinnuhátta.
    Þriðja ástaðan, sem er þung á metunum, er sú að samdrátturinn í þjóðfélaginu hefur mikil áhrif á allt atvinnulíf um landið og möguleikar til að draga úr óheppilegum afleiðingum samdráttarins felast helst í því að halda áfram mjög þjóðhagslega hagkvæmum framkvæmdum og engar framkvæmdir gefa sömu

möguleika eða koma byggðarlögunum og landsmönnum öllum að gagni á sama hátt og aðgerðir í samgöngumálum. Það hafa orðið mér mikil vonbrigði að ekki skuli hafa verið tekist að ná samkomulagi á Alþingi um að halda eðlilegum krafti í vegaframkvæmdum. Mér er óskiljanlegt að stuðningsmenn stjórnarflokkanna skuli ekki viðurkenna þau þungu rök sem bæst hafa við hinar almennu forsendur fyrir bættu vegakerfi í landinu. Það tækifæri sem stjórnvöld höfðu til að halda uppi virkri byggðastefnu með framkvæmdum í samgöngumálum er ekki notað. Erfitt er að sjá hvað getur komið í stað þess.
    Í miklum umræðum, sem hafa farið fram um byggðamál í þinginu í vetur, hefur komið fram mikill áhugi bæði stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna á raunhæfum aðgerðum í byggðamálum. Þó að þingmenn séu sammála um þörfina á aðgerðum í byggðamálum eru mjög skiptar skoðanir um það hvaða aðgerðir séu vænlegastar til árangurs. Þó hafa framkvæmdir í vegamálum þá sérstöðu að um mikilvægi þeirra til árangurs í byggðamálum efast enginn. Til eru þeir menn sem halda því fram að aðgerðir í vegamálum séu nánast það eina sem hið opinbera eigi að beita sér fyrir. Byggðarlag sem hafi aðgang að góðu samgöngukerfi hafi það sem til þarf og íbúarnir muni þá spjara sig.
    Þó ég sé þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi að gera fleira til atvinnuuppbyggingar en að sjá íbúunum fyrir góðu samgöngukerfi þá tel ég að þeir sem halda þessari skoðun fram, sem ég lýsti hér, hafi mikið til síns máls. Ég er á þeirri skoðun að þau byggðarlög í landinu, sem hafa gott samgöngukerfi innan sveitarfélagsins og tengingu við hinn besta hluta samgöngukerfis landsins, séu byggðarlög sem séu ekki í hættu. Einnig hefur komið fram að allar líkur eru á því að framkvæmdir, sem verður ráðist í nú, muni fást á sérstaklega hagstæðu verði vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu. Mörg af stærstu verktakafyrirtækjum landsins hafa ekki næg verkefni. Þau fyrirtæki hafa hvatt stjórnvöld til dáða og lagt fram hugmyndir sínar um með hvaða hætti eigi að standa fyrir nýjum framkvæmdum.
    Ég ætla ekki að fjalla nánar um tillögur verktaka í þessu efni en við höfum hvatt mjög til þess að þessum málum verði gefinn gaumur. Árangurinn af hvatningu okkar í minni hlutanum hefur enginn orðið. Ég tel að mikil skammsýni sé fólgin í því að leggja ekki meiri áherslu á framkvæmdir í vegamálum en fram kemur í þeirri tillögu sem hér er til umræðu og ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það.
    Ég vil svo til viðbótar við þetta gera að umtalsefni mál sem hefur verið með mjög sérstæðum hætti til umfjöllunar í samgn. og var raunverulega aðallega vakið upp af sjálfstæðismönnum. Það er samningur ríkisins og Reykjavíkurborgar um skuldaskil vegna framkvæmda við þjóðvegi í þéttbýli. Bornar hafa verið brigður á að samningurinn væri löglegur og að fjmrh., sem var á þeim tíma, hafi ekki haft til þess heimildir. Ég ætla ekki að fara að lesa yfir þau plögg sem liggja fyrir. Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir málinu áðan. Niðurstaða málsins er skýr og augljós. Hún er sú að það sem fjmrh. gerði skuli standa. Ég hef ekki nokkurn áhuga á að halda uppi umræðum um það mál. Kannski verða aðrir til þess og ég mun þá blanda mér í þá umræðu ef ég tel einhverja sérstaka ástæðu til þess. En það kom mjög skýrt og greinilega fram á fundi nefndarinnar þar sem aðilar frá Ríkisendurskoðun voru mættir að niðurstaða þeirra er akkúrat þessi sem ég var að lýsa hér áðan. Þeir telja að ekki hefði átt að standa að málinu með þeim hætti sem gert var, en að það sé gerð sem ekki verði aftur tekin og muni þess vegna standa.
    Ég tel að það sé mjög miður að ekki skuli hafa fundist betri tími til að ræða samgöngumál í hv. Alþingi en sá tími sem við erum núna að velja til þess. Því miður hafa þingstörfin gengið þannig að þessi tillaga kemur ekki til umfjöllunar fyrr en nú þegar menn eru komnir fram á kvöld á síðasta degi þingsins og flestir argir yfir hverri ræðu sem haldin er. Ég hefði talið að við hefðum þurft að hafa góðan tíma og ekki vera undir þeirri pressu, sem nú ríkir, til að fara yfir þessi mál og ræða þau í þinginu. Mér finnst að samræður okkar í samgn. í vetur gefi ástæðu til þess að halda uppi meiri umræðu í þinginu en verður gert nú. Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira. Ég vonast til þess að næsta ályktun verði svolítið myndarlegri næst þegar við ræðum áætlun um vegamál.