Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 00:40:27 (7158)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Út af þessu máli vil ég aðeins segja örfá orð. Ég tel að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. hæstv. fjmrh., hafi setið ómaklega undir árásum út af þessu máli.
    Ég tel að hann hafi unnið þetta mál fullkomlega í samræmi við þær heimildir sem til þess lágu.

Ég átti sem borgarstjóri hér í Reykjavík langar viðræður við hann um þessa samninga. Ég var ekki alltaf ánægður með það því hann vildi auðvitað halda fast fram hlut síns umbjóðanda, ríkisins. Reykjavík fékk ekki endurgreiddar allar sínar skuldir. Verulegur hluti skuldanna var endurgreiddur óverðtryggður þannig að framreiknað þá sparaði þáv. fjmrh. ríkinu verulegar fjárhæðir. Ég taldi mikilvægast --- rétt eins og þingið taldi, þess vegna veitti þingið þessa heimild --- að þetta mál yrði gert upp. Það gerði hæstv. þáv. fjmrh. sautján dögum fyrir kosningar, ekki eftir kosningar, og tók alla þá pólitísku áhættu af því sem hans flokkur gat orðið fyrir úti á landi ef málið var viðkvæmt. Og ég tel að í hvívetna hafi hann gætt hagsmuna ríkisins og um leið farið eftir þeim heimildum sem hann hafði.
    Það var mikið í húfi fyrir viðsemjandann sem ég var fyrir þá, borgina. Ég vissi að það voru kosningar fram undan og ég vissi að það kæmi ný fjárveitinganefnd. Þess vegna lét ég gefa mér lögfræðilegt álit á því hvort nauðsynlegt væri að þáv. fjárveitinganefnd mundi staðfesta þann samning sem þáv. fjmrh. gerði. Það var alveg tvímælalaust í þeim álitum að það var ekki bundið við þáv. fjárveitinganefnd. Hún átti eftir að eiga einn fund, ef ég man rétt, á þeim tíma sem leið frá samningnum til kosninga. Það náðist ekki að leggja samninginn fyrir þann nefndarfund. En ég sem borgarstjóri í Reykjavík var alveg rór yfir því vegna þess að það kom fram í þessum álitsgerðum sem ég fékk að það var fjárveitinganefnd sem slík, sem fyrirbæri, ekki sem menn, sem gat staðfest þennan gjörning. Og ég tel að það gæti fjárveitinganefnd eða fjárln. hafa gert núna á þessu ári og á hinu fyrra ári því það væri nefndin sem slík sem gæti staðfest þetta samkomulag. Ég tel reyndar að samgn., sem hefur tekið yfir hluta af verkefni fjárln., hafi sennilega staðfest málið þegar. Ef það hefur ekki verið gert þá er nauðsynlegt að fjárln. geri það.
    Ég tel að fyrrv. hæstv. fjmrh. hafi setið ómaklega undir árásum vegna þessa máls.