Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 00:46:34 (7162)

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kemur auðvitað glöggt fram að hæstv. forsrh. er ungur í starfi löggjafarsamkomunnar. Þeir sem hafa starfað hér um langt skeið vita að löggjafarvaldið fer með fjárveitingavaldið. Og það sem ég tel að fyrrv. fjmrh. hafi ekki gætt að þegar hann gerði samninginn var mjög mikilvægt ákvæði í heimild 6. gr. sem hljóðar svo: ,, . . .   að tilskildu samþykki fjvn.`` Þetta þýðir að það bar að leggja samninginn, áður en hann var undirritaður, undir fjárveitinganefnd sem fer með þetta starf í umboði löggjafarvaldsins. Það bar að fá, áður en samningurinn var formlega frá genginn, samþykki fjárveitinganefndar. Og 3. apríl 1991 var starfandi fjárveitinganefnd á Alþingi Íslendinga með fullu umboði fram að kosningum. Hún var ekki spurð og ekki undir hana borið og heldur ekki borið síðar undir nýja fjárln. Og það þykir mér einkennilegt ef það er álitið já frá fjárln. þegar hún segir ekki neitt. Þess vegna er það þetta atriði sem ég hef gagnrýnt í gjörðum fyrrv. fjmrh. Honum bar að bera þetta undir þá fjárveitinganefnd sem var starfandi.
    Ég hef ekki efast um að ríkinu bar að standa við þann samning sem hann gerði. En ég hef gagnrýnt stjórnarliðana fyrir að láta það gerast með þeim hætti að skerða vegafé um allt land í stað þess að taka það af öðru fjármagni ríkissjóðs.