Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 01:01:26 (7165)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að auka miklu við þessa ræðu sem hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt, nema að ég vil ítreka það að þegar ég vakti athygli á þessu máli þá dró ég hvorki í efa lögmæti þessa samnings í sjálfu sér né að það stæði til að efna hann. Mér fannst það náttúrlega alveg sjálfsagt mál og undir það tekur Ríkisendurskoðun. Það sem ég vil hins vegar vekja athygli á er að ég tel, og ég er sammála hv. 8. þm. Reykn. um það, að með því að taka afstöðu til vegáætlunar, þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum greiðslum til að standa skil á þeim skuldbindingum sem menn takast á hendur með þessu samkomulagi, sé þingið í raun og veru að taka afstöðu til þessa samkomulags. Ég tel að með þeim hætti sé það alveg rétt sem hv. 8. þm. Reykn. sagði að þingið er að segja álit sitt á þessum greiðsluskuldbindingum sem samkomulagið fól í sér.
    Hitt er alveg ljóst að á meðan hv. þm. var fjmrh. þá sinnti hann ekki því ákvæði heimildargreinarinnar sem fól í sér að bera þetta mál undir fjárveitinganefndina og það hefur ekki verið hrakið, það stendur áfram. Í ljósi þess að þetta mál hafði verulega mikinn aðdraganda, stóð allt frá árinu 1989 voru auðvitað full efni til að gera það. Það stendur eftir, það var ekki gert. Við stöndum frammi fyrir þessu samkomulagi. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt eins og Ríkisendurskoðun bendir á að það þjóni hagsmunum ríkissjóðs að efna þetta samkomulag. Þannig eigum við að gera það og þannig eigum við að segja okkar álit í afgreiðslunni á þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir.