Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 01:19:58 (7170)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þessi till. til þál. um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs var vísað til sjútvn. sem fékk umsagnir frá allmörgum aðilum. Tillagan gerir ráð fyrir að komið verði á fót miðstöð rannsókna og fræðslu á sviði sjávarútvegs á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu.
    Nefndin fór dagsferð til Akureyrar sl. haust, heimsótti sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, niðursuðuverksmiðju K.J., Útgerðarfélag Akureyringa, Slippstöðina, fiskeldið á Hjalteyri og hélt fund með bæjarstjórn Akureyrar. Upp úr þeirri ferð spannst umræða sem reyndist gott innlegg í umfjöllun um tillöguna.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem lögð er til á sérstöku þingskjali því að nefndin lítur svo á að tillagan svo breytt nái jafnframt markmiði till. til þál. um sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri, sem er 159. mál á þskj. 171, sem vísað var til nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að tillagan orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu svo þar verði öflug miðstöð rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs.``
    Undir þetta álit skrifar öll sjávarútvegsnefndin. En það eru auk mín Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Vilhjálmur Egilsson, Jóhann Ársælsson, Halldór Ásgrímsson, Stefán Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson og Árni R. Árnason.