Kosning í menntamálaráð

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:20:50 (7181)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ætli hæstv. utanrrh. sé staddur í húsinu? Mætti gera honum viðvart vegna þeirrar umræðu sem ég ætla að hefja hér um þingsköp?
    Virðulegur forseti. Undanfarna sólarhringa hafa þingflokksformenn rætt saman um það hvernig þinghaldi yrði háttað síðustu daga þingsins. Nú bregður svo við þegar dagskrá er dreift að þar birtist allt í einu kosning aðalmanns í menntamálaráð og verður að segja að það kemur mjög á óvart að það mál skuli birtast hér á síðustu klukkustundum þingsins. Ég held að í því samhengi verði ekki hjá því komist að rifja aðeins upp hvað gerðist í því máli. Ég vil fá að lýsa því hér hvers vegna ég tel það furðu sæta að þetta mál skuli nú komið á dagskrá. ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að þetta mál er 9. mál dagskrárinnar og hv. þm. hefði e.t.v. frekar átt að ræða þetta undir þeim dagskrárlið.) Þetta er um þingsköp, virðulegi forseti og dagskrá þessa fundar, ég er hér að ræða dagskrána eins og hún lítur út, ef ég má halda áfram.
    Mig langar að rifja upp að þegar menntamálaráð var kosið sl. vor myndaðist þar þegar í stað meiri hluti sem fór að vinna gegn gildandi lögum um menntamálaráð og Menningarsjóð. Það leiddi til þess að þar komu upp miklar deilur um framtíð menntamálaráðs sem síðan leiddu það af sér að sitjandi formanni var vikið frá og nýr formaður kosinn í staðinn í kjölfar þess að borin var upp tillaga í menntamálaráði um að bókaútgáfa Menningarsjóðs yrði lögð niður. Samkvæmt grein Sigurðar Líndals í Morgunblaðinu og annarra þeirra sem hafa um þetta mál fjallað var formaður menntamálaráðs að leggja fram ólöglega tillögu. Stjórn menntamálaráðs hefur enga heimild til að leggja bókaútgáfuna niður heldur er það einungis á valdi Alþingis.
    Fulltrúi Alþfl. í menntamálaráði kaus að koma í veg fyrir að þessi ólögmæta tillaga yrði samþykkt en það þarf ekki að lýsa því fyrir þingheimi hvernig Alþfl. brást við og nú er ljóst að kjósa á nýjan aðalfulltrúa og koma í veg fyrir að sá fulltrúi, sem nú gegnir því starfi, sitji þar áfram.
    Ég hlýt að spyrja þá sem ætla að standa að þessari kosningu hvort þeir hafi kynnt sér stefnu núv. meiri hluta í menntamálaráði og hvort ekki væri nær að fresta þessari kosningu og fara lýðræðislega og löglega leið og leggja fyrir lagafrv. á Alþingi til að breyta gildandi lögum ef það er vilji meiri hluta Alþingis að breyta þeirri stefnu sem nú hefur verið upp tekin í menntamálaráði og gengur út á að efla bókaútgáfuna í stað þess að leggja hana niður. Við hljótum að spyrja hvað er þarna á ferð. Það er ljóst í mínum huga að verið er að beita bolabrögðum til að hnekkja núverandi meiri hluta. Þessu vil ég mótmæla, virðulegur forseti. Ég dreg ekki í efa að auðvitað hefur Alþfl. rétt til að kjósa fulltrúa en þetta mál er miklu flóknara en svo. Það verður ekki annað skilið en að það eigi að koma aftur til valda formanni sem hefur reynst algerlega óhæfur og leggur fram tillögur sem ganga þvert á gildandi lög. Ég vil leggja til, virðulegur forseti, að þessum kosningum verði frestað.