Kosning í menntamálaráð

154. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 02:25:09 (7182)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það eru kosningarnar sem hér eru komnar á dagskrá sem ég vil gera að umtalsefni undir liðnum um þingsköp. Nú er það verkefni Alþfl. og innanflokksmál þar að tilnefna fulltrúa í

menntamálaráð. Ég viðurkenni það. En þetta mál snertir mjög þann atburð sem átti sér stað í lok síðasta mánaðar þegar þáv. formaður menntamálaráðs ætlaði að leggja niður bókaútgáfu Menningarjóðs fyrir augunum á stjórnarmönnum án þess að hafa til þess nokkrar lagalegar heimildir. Það er úrskurður umboðsmanns Alþingis og lagaprófessors við Háskóla Íslands að þessar heimildir hafi ekki verið til staðar.
    Ég lít svo á að starfandi stjórnarmaður í menntamálaráði, fulltrúi Alþfl., hafi fyrst og fremst verið að fara að lögum þegar hún vildi ekki taka þátt í þessu verki. Nú er staðan sú að þessi fulltrúi Alþfl., sem kom þarna í veg fyrir lagabrot, nýtur ekki trausts flokksins, eftir því sem þessi dagskrá gefur til kynna, til að sitja þar áfram.
    Það kom fram hjá hæstv. menntmrh. í tengslum við þennan atburð að hann gerði þá kröfu að Alþfl. skipti um fulltrúa í menntamálaráði. Sennilega er málið þannig vaxið, þegar allt kemur til alls, að Alþfl. er fyrst og fremst að þóknast Sjálfstfl. og að framfylgja kröfum hæstv. menntmrh. þar sem hann mótmælir því að viðkomandi fulltrúi eigi sæti í ráðinu. Það er þá ekki að ástæðulausu að ég spyr hv. formann þingflokks Alþfl. hvort Sjálfstfl. sé virkilega þess virði.