Þingfrestun

155. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 04:01:59 (7199)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Ég þakka hæstv. forseta góðar óskir í garð okkar þingmanna og fjölskyldna okkar. Ég þakka hæstv. forseta jafnframt störf hennar í vetur, svo og forsetum öllum þar sem oft hefur þurft að takast á við erfið matsatriði undir nýjum þingsköpum. Að loknum þessum vetri munu þingsköpin verða tekin til endurskoðunar í ljósi reynslunnar og munum við þingmenn þá m.a. taka mið af fundarstjórn hæstv. forseta.
    Við þingmenn höfum á stundum virst vanþakklátir en mig langar þó að rifja það upp er við lýstum ánægju okkar yfir snjallri lausn forseta í vandasömu máli. Var þá haft á orði að hér væri salómonsdómur orðinn að Salomedómi. Ég trúi því og treysti að við megum í samstarfi um endurskoðun þingskapa vænta slíkra réttlátra málamiðlana þar sem tekið er tillit til allra sjónarmiða.
    Þótt við gerum nú hlé á reglubundnum þingfundum til 17. ágúst nk. samkvæmt samkomulagi fer því fjarri að hlé verði á því erilsama starfi sem forseti og þingmenn gegna. Fram undan eru langir og strangir fundir utan þingsala og vandasöm skipulagsvinna forseta.
    Ég vil óska hæstv. forseta allra heilla í því mikilvæga hlutverki. Ég vil nú enn fremur við þinglok óska forseta og fjölskyldu hennar góðs sumars. Enn fremur færi ég skrifstofustjóra Alþingis og öllu öðru starfsfólki hér þakkir okkar þingmanna fyrir ómetanleg og vel unnin störf í þágu þingsins í þeim önnum sem ríkt hafa nú að undanförnu.
    Ég vil biðja hv. þm. að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]