Matthías Bjarnason (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er allmerkileg lífsreynsla fyrir þann sem búinn er að sitja yfir 30 þing að hlusta á þessar umræður sem nú hafa staðið í næstum því klukkutíma. Ég á aðeins eitt orð til yfir þessar umræður: Skrípaleikur.
    Það er staðreynd að þrír menn hafa sagt sig úr útvarpsráði og þeir eru úr sama flokki. Það er staðreynd að flokkur sem á þrjá fulltrúa og þrjá varafulltrúa á nú samtals þrjá fulltrúa. Með öðrum orðum: Það á ekki að leyfa honum að eiga nema aðalmenn þannig að það er ekki upp á neitt að hlaupa ef einn maður forfallast, þá á að láta vanta.
    Umhyggja þeirra hv. ræðumanna stjórnarandstöðunnar fyrir menntmrh. er auðvitað sérkapítuli í þessari umræðu allri. Það er þingflokkur viðkomandi flokks sem tekur ákvörðun bæði um þessar nefndir sem aðrar. Það hefur aldrei skeð í Sjálfstfl. að ráðherrar flokksins hafi eitthvert neitunarvald eða alræðisvald um það hverjir eigi að vera í nefndum og stjórnum sem undir viðkomandi ráðherra heyra. Ég var ráðherra í átta ár. Ég gerði aldrei kröfu til þess varðandi þær nefndir, sem heyrðu undir þau ráðuneyti sem ég fór með, að ég ætti að segja hvaða þingmenn eða aðila flokkur veldi í slíkar nefndir. Þetta eru alveg ný vinnubrögð. Það er orðið meira ráðherradekrið í þessum hv. stjórnarandstæðingum. Það er eins og þeir hafi bara ekki áttað sig á því að þeir eru komnir úr ráðherrastólunum. Það gengur bara ekki að vera með svona gremju hjá fullorðnum mönnum. Menn koma og fara. Ég vil benda hv. stjórnarandstæðingum á það að lífið er ekki allt búið, það er ekki búið að slíta þingi þó að Alþingi kjósi núna í útvarpsráð. Þeir geta talað við menntamálaráðherra síðar. Það eru hér uppi möguleikar að bera fram fyrirspurnir, utandagskrárumræður. Ég hélt að menn vissu um þetta hvort tveggja. Það er ekkert verið að varpa frá sér neinum slíkum rétti.

    Ég vil nú í fullri vinsemd, þó að hv. 2. þm. Vestf. hafi hú hafið þennan söng með sínu lagi, segja að það er ekki ástæða fyrir aðra að taka undir með þessum hætti. Og ég er afar leiður yfir því hvernig hv. þm. Svavar Gestsson talaði hér áðan. Þetta var orðið miklu líkara leiksýningu heldur en alvöruumræðu og alvörutali. Í sannleika sagt þurfum við ekki eftir neinu að bíða. Þetta eru hlutir sem alltaf hafa viðgengist að þegar forföll hafa orðið í nefndir og stjórnir, þá hefur viðkomandi flokkur alltaf haft tækifæri til og samþykkt af öllum öðrum að tilnefna og láta kjósa nýja aðila. Ég mun ekki taka þetta sem fordæmi ef það kemur eitthvað slíkt fyrir hjá öðrum flokkum, heldur ganga til kosninga athugasemdalaust. Ég veit það að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er alltaf umhugað um friðinn en hann óskaði eftir því að það væri friður um Ríkisútvarpið. Það hefur ekki alltaf verið friður á því heimili frá því að það var stofnað eins og menn vita sem kynna sér söguna og alltaf geta einhverjir hnökrar orðið, en ég tel að hér sé ekki ástæða til frekari umræðna á þessu stigi. Það er sjálfsagður réttur og sjálfsögð kurteisi að þetta kjör fari hér fram og ég tel að þeir sem eiga vantalað við hæstv. menntmrh. glati ekkert tækifærinu þó að þessi kosning fari fram.