Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Geðprýði hv. 1. þm. Vestf. í garð menntmrh. efa ég ekki. Hann mun sjálfsagt eiga við hann orðastað af prúðmennsku eins og við búumst allir við. Ég vænti þess að hann fari í utandagskrárumræðu og ræði við hæstv. menntmrh. á næstu dögum. Hæstv. umhvrh. aftur á móti lýsti því yfir að það yrði skaði ef fréttamenn mundu birta það sem hér hefur farið fram og auðvitað er það lágmarkskurteisi að bera þá hógværu ósk fram að þeir hlífi hæstv. umhvrh. við að geta um hans þátt í þessum umræðum.
    En ég vil undirstrika það að hér hefur ekki verið deilt um hin óskráðu lög, þau óskráðu lög í vinnubrögðum þingsins að stjórnarflokkar eða stjórnarandstæðingar sem tapa mönnum af ýmsum ástæðum úr stofnunum fái að setja aðra menn í staðinn. Það hefur ekki verið deilt um þetta, ekki minnst á þetta einu einasta orði. En það er fróðlegt að sá sem var talsmaður hins ýtrasta réttar, hv. 3. þm. Reykv., skuli ekki gera sér grein fyrir því að ef hinn ýtrasti réttur væri notaður, þá er það stjórnarandstaðan sem hirðir annan manninn af Sjálfstfl. og þar með meiri hlutann í útvarpsráði. Kannski yrði það bara leyst með nýrri lagasetningu, einn, tveir, þrír til að hægt væri að kjósa upp á nýtt. Slík hótun hefur ekki farið fram vegna þess að hér eru menn þeirrar skoðunar að óskráð lög geti átt rétt á sér. Og varðandi forsætisnefndina þá hef ég aldrei skilið þær talnakúnstir að komast að þeirri niðurstöðu að Sjálfstfl. eigi tvo í nefndinni eins og fréttamenn hafa haldið fram. Ég veit ekki hvor af forsetunum er genginn úr flokknum.
    Ég vil aftur á móti undirstrika það að okkur er ljóst að það er tekist á um stefnu í útvarpsráði. Það er tekist á innan Sjálfstfl. um stefnu í útvarpsráði. Við vitum ekki hver ágreiningurinn er. Við viljum gjarnan að menntmrh. láti svo lítið, gegni þingskyldu, sé hér við og svari örfáum spurningum áður en þessar kosningar fara fram. Er það til of mikils mælst? Eru það engin tíðindi þegar þrír menn hlaupa frá sínum trúnaðarstörfum sem enginn efar að þeir ætluðu að gegna af trúmennsku fyrir flokkinn. Það er eitthvað stórt og mikið sem hefur gerst. Ég ætla ekki að bera það á þessa menn að það séu átök vegna þess hver varð útvarpsstjóri sem valdi þessu. Ég ætla ekki að bera það á þessa menn. Ég tel að þarna sé tekist á um stefnu. Þess vegna er leitað eftir því að fá menntmrh. hér til að gera grein fyrir stöðunni, hvort þessi átök verða viðvarandi eða hvort hér sé þá saminn friður í þessum efnum.
    Mér eru það mikil vonbrigði að í þessari umræðu gerist það að menn hafa ekki heiðarleika til þess að tala um það eina atriði sem hér var beðið um, þ.e. frestunina. Menn

tala um allt aðra hluti, allt aðra hluti út og suður. Það er látið í það skína að stjórnarandstaðan ætli að fara að hrifsa til sín völd þó að það sé yfirlýst að hún ætlar ekki að bjóða fram á móti, þó að það sé yfirlýst að sá er munurinn á þessari kosningu og kosningunni í vor að þá gat Sjálfstfl. tekið þessa fulltrúa en núna fær hann þá vegna þess að hin óskráðu lög þingsins eru á þann veg og menn ætla að virða þau. Það má vel vera að það sé rétt að það komi fram að stjórnarandstaðan ætlar að virða hin óskráðu lög og þarf engar leiðbeiningar frá 1. þm. Vestf. í þeim efnum. Engar. Það kom fram áður en hann kom hér í ræðustól. (Forseti hringir.) Nú glymur bjallan. Ég ætla líka að virða það, herra forseti.