Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Það er í raun annað tilefni en hér varð upphaf umræðunnar sem gerir það að verkum að ég sé mig knúinn til að gera hér athugasemd. Það er að vísu skaði að það er enginn hæstv. ráðherra í salnum. En ég vil vekja athygli á þeirri slæmu byrjun sem hér er augljóslega að verða á fyrstu dögum þinghaldsins í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér komu ekki færri en þrír hæstv. ráðherrar upp í þessum umræðum um þingsköp og í máli þeirra allra fólust beinar ögranir í garð stjórnarandstöðunnar. Beinar ögranir. Þær voru að vísu sverastar í máli hæstv. umhvrh., sem hér er okkur til mikillar ánægju genginn í salinn, en þær voru engu að síður alvarlegar í máli hæstv. heilbrrh. og fjmrh. Þar var gerð tilraun til þess að kenna stjórnarandstöðunni einni um, og einhliða, það slys sem varð hér þegar meiri hlutinn kaus að beita valdi við kosningu forsætisnefndar. Þar er verið að snúa hlutunum við. Ég held að þessi viðbrögð hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliða beri vott um þá slæmu samvisku sem þeir nú hafa eftir að hafa áttað sig á þessum miklu mistökum sem augljóslega hafa spillt hér mjög andrúmsloftinu í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu þegar í byrjun þingsins.
    Ég held að hæstv. ráðherrar ættu að hugsa sinn gang, ég tala nú ekki um áður en þeir vaða upp í þennan virðulega ræðustól með þeim hætti sem hæstv. umhvrh. gerði hér áðan. Er hann að undirbúa gott samstarf um þingstörfin með sínum málflutningi og sínum ögrunum í garð stjórnarandstöðunnar? Er hann að greiða götu sinna mála hér á þingi eða hvað? Og er stjórnarliðið með virðingu sinni hér trekk í trekk við lýðræðislegar hefðir í þinginu að leggja inn gott orð fyrir sig í vetur? Það er von að maður spyrji.
    Hæstv. heilbrrh. --- ég vil skjóta því að af því að hann er í hliðardyrunum --- taldi það vera meiri hlutanum eða stjórninni mjög til hagsbóta að stjórnarandstaðan héldi áfram málflutningi eins og hér hefur verið í þingsköpum. Það má hann halda. En ég fullyrði hitt að fátt er stjórnarandstöðunni meira til hagsbóta og ríkisstjórninni erfiðara en að hæstv. heilbrrh. haldi áfram því striki sem hann hefur siglt í sumar, og hefur það þegar mælst í skoðanakönnunum eins og kunnugt er.
    Virðulegur forseti. Ég vil tala út frá þeim mistökum sem hér urðu þegar forsætisnefndin var kjörin af því að ég óttast að hér séum við að upplifa ákveðnar afleiðingar af því í því andrúmslofti sem augljóslega endurspeglast í þessari umræðu. Hér var borin fram ósk eins og mjög venjulegt er í þingstörfum að einstakir þingmenn, þingflokkar, ég tala nú ekki um þegar stjórnarandstaðan gerir það, bera fram einhverja ósk sem þá eru yfirleitt hefðir fyrir að orðið er við, hér var borin fram ósk um frestun á máli sem er á dagskrá og ekki hafa verið færð fram nein rök fyrir að sé svo afgerandi og brýnt að ekki megi verða við þeirri frestun. Og það voru færð fram skýr rök hvers vegna var beðið um frestunina. Menn hafa áhuga á því að eiga orðastað við hæstv. menntmrh. áður en dagskrármálið verður afgreitt. Það er mjög slæmt að það skuli ekki vera hægt að verða við þessari ósk. Það er búið að bera hana fram, hún hefur verið studd rökum og það er mjög

slæmt, það er vond byrjun á þessum samskiptum að ekki skuli vera hægt að verða við henni. Og það versta sýnist mér vera að þetta er til marks um þau miklu mistök sem áttu sér stað hér í þinginu þegar stjórnarmeirihlutinn kaus að beita valdi með alkunnum afleiðingum við kjörið í forsætisnefnd. Þetta held ég að ætti að verða forseta, hæstv. ráðherrum og öllum öðrum auðvitað hér á hinu háa Alþingi umhugsunarefni þegar þessari umræðu lýkur og áður en menn þurfa að mæta nýjum, slíkum uppákomum.