Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Fulltrúar stjórnarflokkanna beggja hafa haldið sýnist mér einar 8--10 ræður í dag. Þeir hafa með öðrum orðum sett á mjög sérkennilegt málþóf og málalengingar í þessum virðulega sal undir forustu þriggja ráðherra sem hafa veist mjög harkalega að einstökum þingmönnum stjórnarandstöðunnar með undirleik hv. 3. þm. Reykv. Ég verð að segja það að ég hef verið hér í nokkuð langan tíma en ég man ekki eftir því að ráðherrar hafi beitt sér í þingskapaumræðum með þeim hætti sem hér hefur farið fram í dag. Það er mjög athyglisvert og mjög umhugsunarvert. Það er greinilega tekin upp sú nýja stefna að framkvæmdarvaldið og starfsmenn þess ætli að beita sér sérstaklega gagnvart þingræðinu og segja þingræðinu fyrir verkum eins og hæstv. umhvrh. áðan sem réðst af mikilli grimmd og ósvífni gegn einstökum þingmönnum fyrr í dag.

    Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að vekja athygli á þessu en líka öðru, virðulegi forseti, því samkvæmt þingskapalögum er það þannig að forsætisnefndin á að hafa samráð við formenn þingflokkanna. Og ég mætti á fund fyrir þingflokk Alþb. í dag að beiðni hæstv. forseta Alþingis. Þar voru einnig fulltrúar annarra þingflokka. Þar var rætt um þinghaldið og ég held að það sé ekki hægt að neita því að við gerðum eins og við gátum til þess að greiða götu þinghaldsins í þeim umræðum sem fram fóru og hirði ég ekki um að rekja það hér vegna þess að það tíðkast ekki í þinginu að rekja ummæli annarra manna af þeim fundum eins og t.d. hv. 3. þm. Reykv. gerði áðan. Ég hygg að allir viðstaddir menn á þeim fundi geti borið um það að við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar þar, gerðum það sem við gátum til þess að greiða fyrir eðlilegri meðferð mála. Þetta er eini samtalsvettvangurinn sem forsætisnefndin hefur við þingið í dag, við stjórnarandstöðuna. Og við leggjum á það áherslu að menn vandi sig og menn vinni þá hluti vel. Þess vegna er það auðvitað alveg ofboðslegur hlutur að ummæli manns á fundi af þessu tagi séu afflutt með þeim hætti sem hv. 3. þm. Reykv. gerði áðan. Ég frábið mér a.m.k. slíkar trakteringar af hálfu forsætisembættisins vegna þess að það sem liggur fyrir er það að þegar þessi dagskrárliður var sérstaklega kynntur á fundi forsætisnefndarinnar og formanna þingflokkanna í morgun, þá lét ég það koma fram að svo gæti farið að einhverjir þingmenn vildu gera athugasemdir við þennan lið. Ég sagði ekki að ég mundi óska eftir frestun á honum eða taka hann til umræðu. Ég vakti eingöngu athygli á því að málið væri sérkennilegt. Síðan á að knýja málið áfram til afgreiðslu í dag á þeim forsendum að við höfum ekki beðið um frestinn í morgun. Ég segi alveg eins og er að það er orðið nokkuð vandlifað fyrir stjórnarandstöðuna á þingi ef ummæli einstakra þingmanna sem geta þó oft tekið skýrt til máls eru afflutt með þeim hætti sem hér hefur verið gert og þetta eigi að nota til þess að neita þeirri einföldu og sanngjörnu ósk sem borin hefur verið fram. Sem er hver? Sem er þessi: Við förum fram á það að málinu verði frestað. Við erum ekki að biðja um neitt annað en að málinu verði frestað.
    Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að við þekkjum öll hvernig háttar til um meðferð mála, umræður og afgreiðslur í ýmsum stofnunum, ekki aðeins hér á þingi heldur t.d. einnig í sveitarstjórnum. Hér sitja í salnum mjög reyndir sveitarstjórnarmenn sem hafa jafnvel farið með meiri hluta í viðkomandi sveitarfélögum um árabil. Ég er sannfærður um það að þegar stjórnarandstaða þar eða minni hluti óskar eftir fresti á máli er orðið við því. Í borgarráði Reykjavíkur og borgarstjórn er hlutum þannig háttað að þegar mál kemur í fyrsta sinn á dagskrá er venjulega beðið um frestun á afgreiðslu þess og það er alltaf orðið við þeirri beiðni hvort sem stjórn eða stjórnarandstaða ber þá beiðni fram. En hér í þessari stofnun, allt í einu svo sem upp úr þurru og algerlega að ástæðulausu, nema þá kannski til að þjóna geðvonskunni í hæstv. umhvrh. sem eru engin rök að mínu mati, gersamlega í raun og veru að ástæðulausu, á að hella yfir þingið afgreiðslu af þessu tagi og ég spyr hæstv. forseta áður en ég fer hér úr ræðustólnum: Ætlar forsetinn að reyna að afgreiða þetta mál í dag? Hyggst hæstv. forseti Alþingis afgreiða málið með þessum hætti þrátt fyrir þær hógværu óskir stjórnarandstöðunnar sem fram hafa komið og snúast bara um eitt: Að þessu máli verði frestað. Það er svo nauða, nauða einfalt. Ég skora á forseta að taka tillit til þessarar óskar.