Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég hef hlustað með athygli á ræðu forseta. Ég verð því miður að segja það að forseti vék ekki einu orði í ræðu sinni að þeirri staðreynd að forustumenn tveggja þingflokka hafa óskað eftir þessari frestun. Hvað sem líður vilja Sjálfstfl. þá er það staðreynd að tveir þingflokkar hafa óskað eftir þessari frestun. Það komu ekki fram nein rök hjá hæstv. forseta fyrir að skapa það fordæmi en ég hygg að væri í fyrsta sinn sem það væri gert að þegar tveir þingflokkar óska eftir frestun á máli neiti forsetinn þeirri ósk.
    Forsetinn spurði hvort við vildum verða við þessum tilmælum forsetans að ganga nú til kosninga. Svarið er skýrt. Við endurtökum ósk okkar um frestun, ekki vegna þess að við viljum leggja neinn stein í götu þess að Sjálfstfl. geti valið sína fulltrúa, það munum við aldrei gera. En við viljum nýta okkur þann þingræðislega rétt að heyra yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér í þingsalnum um Ríkisútvarpið og útvarpsráð áður en kosningin fer fram. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti. Við höfum óskað eftir því að fá að hlýða á menntmrh. í þingsalnum áður en kosningin fer fram. Þess vegna endurtek ég þá ósk að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað. --- [Fundarhlé.]