Hvítbók ríkisstjórnarinnar

4. fundur
Miðvikudaginn 09. október 1991, kl. 15:49:00 (124)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram og jafnframt bæta því við að ég bar þær fram í morgun á fundi með formönnum þingflokka og forsetum að skjal þetta yrði lagt fram hið fyrsta. Ég fer hér úr þessum virðulega ræðustóli með formlegum hætti fram á það að þingflokkar stjórnarflokkanna taki það mál fyrir núna á eftir, hvort ekki megi dreifa gagni þessu til þingmanna þannig að þeir geti haft

það undir höndum og til athugunar þegar umræða fer fram á morgun. Það er auðvitað mjög bagalegt að hafa ekki skjalið við höndina þegar umræða fer fram um stefnuræðu forsrh. Það eru mjög mikilvæg atriði í þessu sem snerta þingmál sem þegar er búið að dreifa hér, eins og tillögur um sölu á ríkisfyrirtækjum og fleira. Ég vil því mjög eindregið ítreka héðan þá ósk sem ég bar fram í morgun um að formenn þingflokka stjórnarflokkanna fjalli um það á fundum sínum á eftir að skjali þessu verði komið í hendur stjórnarandstöðuþingmanna hið allra fyrsta.