Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 21:23:00 (134)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það þarf að líta mjög langt aftur í tímann til þess að finna jafnskörp skil í íslenskum stjórnmálum og orðið hafa með tilkomu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Sjálfstfl., sem boðaði mannúð og mildi fyrir kosningar, taldi skatta vera spurningu um hugarfar, fiskveiðistefnu þyrfti að breyta strax og fordæmdi flatan niðurskurð í landbúnaði, hefur nú verið við völd í fimm mánuði. Það sem frá ríkisstjórninni hefur komið kristallast í stefnuræðu forsrh. Þar segir hann, sem svo oft áður og

er afar trúr þeirri skoðun sinni, að allur vandi sé vegna rangrar stefnu fyrrv. ríkisstjórnar.
    Við bíðum hins vegar eftir að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson komi með stefnu. Stefnu í atvinnumálum, stefnu til jöfnunar lífskjara, stefnu sem jafnar lífskjörin, en þá verður honum tregt tungu að hræra. Í stefnuræðu sinni boðar hæstv. forsrh. enga stefnu í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar aðra en að aðhafast ekkert. Hæstv. ríkisstjórn virðist vera stolt af þeirri stefnu, afar stolt. Samt erum við að ganga inn í mikið erfiðleikatímabil.
    Á síðustu 20 árum hefur þjóðin gengið í gegnum slíka erfiðleika af ýmsum toga og sigrast á þeim. Slíkar þrengingar sem við horfumst í augu við nú hafa komið á fjögurra til fimm ára fresti og eru séríslenskt fyrirbæri, m.a. vegna einhæfs atvinnulífs. Þrengingar kalla á aðgerðir. Háir vextir annars vegar og aðgerðaleysi hins vegar auka vandann. Það þarf þolinmæði og þrautseigju til að halda sjó í miklu brimi, háskalegast er að aðhafast ekki neitt. En aðalatriðið er að skapa hér rekstrargrundvöll. Það verður ekki gert með síbylju um óleysanlegan vanda. Eitt erfiðasta málið í dag er hugarfar ríkisstjórnarinnar sem er að draga máttinn og kjarkinn úr þjóðinni með úrræðaleysi sínu.
    Nú vildi ég með vinsemd og virðingu benda hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarflokkanna sem allir, eða alla vega flestir, eru af Reykjavíkursvæðinu, allir á glænýjum bílum, að taka sér nú ferð á hendur og heimsækja atvinnufyrirtæki vítt og breitt um landið og ræða við fólkið. Hæstv. forsrh. gæti farið þá leið að heimsækja aðeins sjálfstæðismenn í atvinnurekstri svo hann geti sneitt hjá framsóknarfátæktinni eins og hann komst svo smekklega að orði í sinni stefnuræðu. Hann ætti að hlusta á þetta fólk þó ekki væri nema augnablik. Síðan ætti hann að skoða það hvað það raunverulega þýðir fyrir byggðarlög að leggja niður skóla á landsbyggðinni og skoða þá staðreynd að börn sem fá nám sitt í heimabyggð búa síðan frekar úti á landsbyggðinni en þau sem þurfa ung að fara að heiman. Þá þurfa þessir ágætu menn að sjá hvað það kostar að lama sjúkrastofnanir þannig að þær verða ekki færar um að taka á móti einföldustu aðgerðum, fæðingum eða slysum. Hvað það kostar þjóðfélagið að taka ákvarðanir við skrifborðið í heilbrrn. án alls samráðs og samstarfs við fólki sem vinnur við þessar stofnanir og nýtur þjónustu þeirrar og án faglegs undirbúning.
    Hæstv. ríkisstjórn þarf að vinna með fólkinu í landinu ef menn vilja þjóðarsátt um sparnað. Þá verða þeir sem meira hafa að leggja meira af mörkum. Hæstv. ríkisstjórnarmenn segja að það sé eðlilegt að menn borgi fyrir þá þjónustu sem þeir fá, hvort sem er í skóla eða sjúkrastofnunum. Það fari sem sagt eftir efnahag hvers og eins hvað hann getur leyft sér af grundvallarmannréttindum. Ef þetta er sannfæring þeirra er þá ekki rétt að þeir greiði gjöld af ráðherrabílum sínum? Þjónustugjöld.
    Virðulegi forseti. Það verður aldrei svo að við engan vanda verði að etja í þjóðfélaginu. Til þess getum við ekki ætlast. En það þarf að jafna byrðina og það er hægt. Nú þarf vilja og þor til að viðurkenna að hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur skjátlast í mörgum atriðum. Það er mannlegt að skjátlast en að skjátlast og kenna öðrum um og klína öllu upp á fortíðina, það er léleg pólitík. En hæstv. ríkisstjórn á kost á að bæta sig og það er von landsmanna allra að ekki verði löng bið eftir því. --- Ég þakka.