Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 21:28:00 (135)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Hinum megin á hnettinum situr hin unga og vaska landsliðssveit Íslendinga í brids og spilar stíft upp á vinning. Mitt í bölmóði dægurþrassins yljar það okkur um hjartaræturnar vegna þess að það sýnir okkur að Íslendingar geta þrátt fyrir allt haldið til jafns við þá sem eru bestir ef rétt er á spilunum haldið.
    Frumkvæði Alþingis Íslendinga og íslensku þjóðarinnar að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna er annað dæmi um það að fámenn þjóð getur látið að sér kveða góðum málstað til þurftar á alþjóðavettvangi ef rétt er á spilunum haldið. Málflutningur okkar Íslendinga um það að höfin verði ekki undanskilin í afvopnunarkapphlaupinu í kjölfar fjörbrots kommúnismans er annað dæmi um málflutning með réttum rökum sem skilað hefur árangri og tekið hefur verið eftir.
    En lítum okkur ögn nær. Sumum þykir þegar við svipumst um í íslensku þjóðfélagi að íslenska þjóðin hafi ekki mjög góð spil á hendi eins og stendur. Það er athyglisvert að við erum eina þjóðin í Evrópu sem fimmta árið í röð horfist í augu við ekki aðeins stöðnun heldur samdrátt í sinni þjóðarframleiðslu. Við sjáum það fyrir að útflutningstekjur okkar munu minnka á bilinu 7--10 milljarðar kr., um 150 þús. á hverja fjögurra manna fjölskyldu á næsta ári, bara vegna aflaskerðingar.
    Við slíkar kringumstæður er nauðsynlegt að halda vel á spilunum. Við slíkar kringumstæður er alveg augljóst mál að kjarasamningar hljóta fyrst og fremst að snúast um það að tryggja atvinnuöryggi fólks og að freista þess eftir megni að leiðrétta þann kjaramun sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum. Hæstv. fyrrv. forsrh. spurði: Er ekkert sagt um þjóðarsátt? Jú, það er einmitt komið á daginn samkvæmt skoðanakönnun að þrír til fjórir af hverjum fimm launþegum í þessu landi vilja halda áfram á þeirri braut. Með öðrum orðum, lýsa þeirri skoðun sinni að meginmálið sé að varðveita hér stöðugleika meðan við erum að vinna okkur út úr þessum vanda. En á meðan held ég að það sé mikilvægast að halda á spilunum eins og bjartsýnismennirnir í Yokohama.
    Virðulegi forseti. Í morgun kynntum við forsrh. og ég þessa bók: ,,Velferð á varanlegum grunni, stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl.`` Ég vil skora á þau ykkar sem mál mitt heyrið að kynna ykkur þessa bók vel og vandlega og fordómalaust vegna þess að þar leggjum við spilin á borðið og í þessu kveri er að finna svörin við því hvernig við viljum halda á spilum þessarar þjóðar út þetta kjörtímabil.
    Lítum aðeins í kringum okkur: Ef við lítum til grannþjóða okkar í Evrópu og víða annars staðar í heiminum, þá eru þar augljós teikn um vaxta- og breytingaskeið. Það sem er að gerast er að menn eru að fella niður forna múra, viðskiptahömlur, einokun, opna landamæri, byggja upp öflugri markaði. Þetta einkennist af samruna fyrirtækja, þetta einkennist af örum tækninýjungum, þetta einkennist af því að það er verið að nýta ný tækifæri, það er verið að lækka verð, það er verið að bæta kjör.
    Ef við lítum til Íslands sjáum við að hér blasir við önnur mynd. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé bara vegna þess að við eigum svona vonda stjórnmálamenn. Að hluta til er þetta vegna þess að okkar atvinnulíf er einhæft og sveiflukennt og hvílir á veikum grunni. En að öðru leyti er það vegna þess að úrelt viðhorf og úrelt kerfi einokunar, forréttinda og pólitískrar fyrirgreiðslu eru of víða ráðandi í íslensku þjóðfélagi. Við þekkjum dæmi þess í landbúnaðinum og við vitum að það hefur ekki skilað okkur árangri þrátt fyrir að við höfum árum saman varið sem svarar öllum tekjuskatti einstaklinga til stuðnings þessari atvinnugrein, búum við samt sem áður við hæsta matvælaverð í heimi og bændur kvarta sáran undan sínum hlut. Við vitum að þetta einkenni er einnig víða að finna í sjávarútveginum. Það er hætta á því ef ekki verður gripið í taumana að hér myndist hópur manna sem telur sig sjálfborinn til eignarréttar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn býr við mismunun og hann fær ekki að njóta þeirra tækifæra sem honum þurfa nú að bjóðast, ekki hvað síst ef okkur tekst að ná árangursríkri samningsniðurstöðu um tollfrjálsan aðgang að aðalmörkuðum okkar.
    Lítið á bankakerfið íslenska sem einkennist af samráði þar sem bankastjórar halda uppi óeðlilega háu vaxtastigi til þess að bæta upp mistök þeirra sjálfra í eigin rekstri. Lítið á sérfræðingaveldið í íslenska opinbera geiranum, sjálftökuliðið. Lítið þið á þá sem eiga

allt sitt á þurru samkvæmt sínum eigin gjaldskrám eins og þeir gefa þær út. Ég segi, þegar við lítum í kringum okkur og berum saman samfélagsgerð okkar Íslendinga, þá eru það þeir sem hafa haslað sér völl sem einokunaraðilar í íslensku þjóðfélagi, sem ætla að einoka meginauðlindir þjóðarinnar, sem hafa félagsbundin samráð um verðlagningu, sem bindast samtökum um að útiloka samkeppni, sem bindast samtökum um það að koma í veg fyrir að við getum nýtt okkur ný tækifæri, það eru þessir aðilar sem halda niðri lífskjörum á Íslandi. Það eru þessar einokunartilhneigingar og það eru þessar valdastofnanir sem eru fallhamarinn sem lemur niður lífskjörin. Og það er það sem hér stendur, í þessari bók er í einni setningu sagt: Það er viðleitnin til þess að snúa þessu tafli við, að breyta þessu, að breyta þessum úreltu viðhorfum, að breyta þessum valdstjórnaraðferðum.
    Hæstv. fyrrv. forsrh. lýsti eftir því hvernig ætti að leysa vanda atvinnuveganna. Við skulum byrja á sjávarútveginum. Ef við náum því markmiði, sem er eitt helsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar, að tryggja íslenskum sjávarútvegi annaðhvort að fullu og öllu eða langmestu leyti tollfrjálsan aðgang að okkar helstu mörkuðum, þá þýðir það ný tækifæri í sjávarútvegi. Þá þýðir það tækifæri til þess að flytja fullvinnslu sjávarafurða inn í landið í staðinn fyrir að flytja hráefnið og vinnuna út úr landinu. Í framhaldi af því er hægt að upphefja þá mismunun sem einkennir þessa grein með því að efla fiskmarkaði. Þeir gefa kost á því að efla fyrirtæki í úrvinnslu, í matvælaiðnaði, með aukinni sérhæfingu, aukinni framleiðni og bættum lífskjörum.
    Lítum á annað mál sem heitir landbúnaðurinn. Lítum nú á þann kafla í þessari ágætu bók þar sem fjallað er um landbúnaðinn. Þar er tíundað að í framhaldi af þeim breytingum, sem tókust þrátt fyrir allt í tíð fyrri ríkisstjórnar, er að því stefnt að hverfa frá greiðslum útflutningsbóta, að hætta afskiptum ríkisins af sauðfjárræktinni, að taka upp beinar greiðslur til bænda í staðinn fyrir niðurgreiðslur, að draga stórlega úr útgjöldum ríkissjóðs, að hverfa frá opinberri verðlagningu, að gefa heildsöluverð frjálst haustið 1992, að tryggja það að bændur eigi val um aðgerðir til þess að lækka sláturkostnað sem er óhóflega hár. Að því er varðar mjólkurframleiðsluna segir hér: ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á meira frelsi í greininni, endurskoðun verðmiðlunar, afnám sérstakra sölusvæða, frjálsa verðlagningu``, o.s.frv. Það er talað um að undirbúa landbúnaðinn undir aukið frjálsræði í framhaldi af samningum um Evrópskt efnahagssvæði og GATT. Það er talað um að endurskoða búvörulögin með það í huga að draga úr sjálfvirkni í útgjöldum. Það er talað um það að endurskoða stofnanakerfi landbúnaðarins út frá kostunarprinsippi um það að þessi atvinnugrein kosti þær stofnanir í auknum mæli sjálf og það er talað um endurskoðun á lögum og bent á Framleiðnisjóð landbúnaðarins sem þegar hefur verið byrjað á.
    Ég þarf ekki að nefna hvílík framsýni er í því fólgin af hálfu hæstv. iðnrh. og viðskrh. að hafa strax í byrjun sl. kjörtímabils lagt að því grundvöll að hér mætti byrja nýtt átak eftir 16 ára kyrrstöðu við að nytja orkulindir í þágu okkar þjóðar. Svörin eru af þessu tagi og ég endurtek það að ég skora á áhugamenn um þjóðmál og stjórnmál á Íslandi að kynna sér þessi svör.
    Virðulegi forseti. Þeim áróðri er nú stíft haldið fram að þessi ríkisstjórn stefni að því að rústa sjálft velferðarkerfið á Íslandi. Ég spyr: Halda menn að við lifum á velferðarláni? Halda menn að velferðarkerfið á Íslandi verði til frambúðar rekið á erlendum lánum? Eða eru þeir menn hér uppi sem telja við þau skilyrði í íslenskum þjóðarbúskap að það hefði átt að hækka skatta? Áttu það að vera skilaboðin um að draga frekar úr kaupmætti launþega á Íslandi? Nei. Áttum við að taka erlend lán? Nei. Það var ekki annarra kosta völ en einbeita sér að því að lækka ríkisútgjöld. Hefur það tekist? Já, það hefur tekist. Það hefur tekist að lækka ríkisútgjöld að raungildi um 4,5% milli ára. Það markar tímamót. Og það er fitjað upp á öðrum breytingum í grundvallaratriðum í ríkisrekstri, að því

er varðar að breyta fyrirtækjum í ríkiseign í hlutafélög, bæði að því er varðar einkavæðingu og einnig að því er varðar að breyta stofnunum hvort heldur er rannsókna- og þjónustustofnunum eða menningarstofnunum í sjálfstæðar stofnanir og taka þær út úr ríkisrekstrinum. Ef við lítum á þann þátt sem varðar kostnaðarhlutdeild almennings samkvæmt fjárlagafrv., þá eru staðreyndirnar þær að nettóhækkun vegna þeirrar gjaldtöku, miðað við útgjöld fjögurra manna fjölskyldu í landinu, er 10.360 kr. á ári en það eru 863 kr. á mánuði.
    Fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson sagði: Aldrei mun Framsfl. standa að því að hækka skólagjöld. Skólagjöld hafa verið innheimt á Íslandi á undanförnum árum sem nemur um 300 millj. kr. Ég spyr forsrh. og bið framsóknarmenn að svara því á eftir: Hvað ætli skólagjöldin í Samvinnuskólanum séu há núna? Eru þau 45 þús. eða eru þau tvisvar sinnum 45 þús.?
    Virðulegi forseti. Var hægt að fara aðrar leiðir að því er varðar það að leggja meiri byrðar á breiðu bökin? Ég bið menn um að kynna sér yfirlýsingar um frv. sem lagt verður fram á þessu þingi um skattlagningu fjármagns- og eignatekna. Ég bið menn að kynna sér hugmyndir um skorður við þeim ósið að hafa millifæranleg töp milli ára frádráttarbær frá skatti.
    Til eru þeir sem segja: Aðgerðir af þessu tagi samræmast ekki jafnaðarstefnunni. Ég veit að formaður Alþb. mun fara með þá messu hér á eftir. En ég segi: Það er ekki jafnaðarstefna að ríkið skaffi öllum allt ókeypis. Sú stefna heitir kommúnismi og hún hefur verið reynd til þrautar á sl. 70 árum og hún er hrunin og það hafa engir frekar en íslenskir jafnaðarmenn sem aðrir barist gegn þeirri stefnu í 70 ár. Afleiðingarnar eru einfaldlega þær að flestir fá því sem næst ekki neitt eftir þeim leiðum.
    Jafnaðarstefnan hefur það að markmiði að tryggja öllum tækifæri til þroska til þess að bjarga sér sjálfir en jafnframt að búið verði þannig um hnútana að enginn þurfi að óttast um afkomu sína vegna veikinda, slysa eða elli. Ég spyr: Haldið þið að velferðarkerfi á Íslandi á svo feisknum stoðum sem þar hefur verið, byggt á erlendum lánum, haldið þið að það hefði tryggt þessa velferð á varanlegum grunni? Nei. Það voru íslenskir jafnaðarmenn sem byggðu þetta kerfi upp og við lítum á það sem skyldu okkar að tryggja af raunsæi og án skrums fjárhagslegan grundvöll þessa kerfis. Þess vegna leggjum við hiklaust fyrir ykkur þá stefnu sem hefur einkunnarorðin: Velferð á varanlegum grunni.
    Það er orðið langt síðan Roosevelt Bandaríkjaforseti bauð upp á ,,new deal``, bauð að gefa upp á nýtt. Ég vék að spilamennsku í upphafi ræðu minnar. Það þarf að halda vel á spilunum þegar á móti blæs, en það er fyrst og fremst traustið á sjálfum okkur sem skiptir máli, að láta ekki úrtöluliðið hræða úr sér líftóruna, það er ástæðulaust, það er ekkert að óttast. --- Þakka ykkur fyrir.