Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 21:49:00 (137)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær árnaðaróskir sem formenn hinna flokkanna þriggja hafa fært héðan úr þingsalnum til Japan þar sem Íslendingar eru vissulega að vinna til mikillar tignar í brids. En hér í þingsalnum hefur líka verið spilað í kvöld eins og fram kom greinilega í ræðu hæstv. utanrrh. Hér eru nefnilega ráðherrar og þingmenn Alþfl. og Sjálfstfl. að keppa til heimsmeistaratignar í öðru spili, spili sem er ekki eins göfugt og brids, spilinu póker þar sem aðalkúnstin er að blekkja hina, segja eitt og gera annað. Það eru þessir snillingar pókerspilsins sem hér koma með stefnuræðu sína í kvöld.
    Hver hefði trúað því, virðulegi forseti, í vor að Sjálfstfl. mundi í haust leggja fram þessi verk? Hver hefði trúað því í vor, viku fyrir kosningar, ef mér og þér og ykkur öllum, landsmenn góðir, hefði verið sagt það að á hausti mundi Sjálfstfl. leggja fram frumvörp sem mundu slá út hlutfall ríkisútgjalda í íslenskum þjóðarbúskap, sem mundu auka skattana, alla skattana og slá Íslandsmet í skattbyrði á árinu 1992? Hver hefði trúað því í vor að forsrh. væri svo rúinn öllu trausti að jafnvel Vinnuveitendasambandið væri komið í hlutverk barnsins í ævintýrum H.C. Andersens og segði þjóðinni að hann væri ekki í neinum stefnuklæðum?
    Þeim hefur verið tíðrætt um lýðræðið hér í kvöld, þessum pókerspilurum ríkisstjórnarinnar. En lýðræðið er ekki bara form. Það er ekki bara spurning um það að við komum öll á fjögurra ára fresti og setjum atkvæði í kjörkassa. Lýðræði er spurning um

heilindi, er spurning um trúnaðartraust, er spurning um orðheldni. Það er spurning um það að stefnan fyrir kosningar sé hin sama og eftir kosningar. Og það er einmitt þetta sem hefur brugðist. Ár eftir ár hafa forustumenn Sjálfstfl. staðið í þessum stól og boðað minni ríkisafskipti, minni skatta, flutt hér skammarræðu eftir skammarræðu eftir skammarræðu --- einn þeirra mun koma upp í kvöld, Pálmi Jónsson, sem ágætissýnishorn þessa málflutnings --- á síðustu árum yfir mér og fyrrv. ríkisstjórn fyrir þenslu ríkisútgjalda og skattana. Og jafnvel í prófkjörinu í Reykjavík þegar frambjóðendur Sjálfstfl. voru spurðir þessarar einföldu spurningar: Ætlið þið að afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar?, þá sagði forsrh. núv.: Já. Þá sagði fjmrh. núv.: Já. Hver er reynslan? Jú, reynslan birtist í fjárlagafrv. sem kom fram á öðrum degi þingsins. Sjálfstfl. mun á næsta ári standa fyrir hærra hlutfalli ríkisumsvifa í íslenskum þjóðarbúskap en nokkru sinni fyrr. Sjálfstfl. mun á næsta ári, já, með aðstoðarflokki sínum sem hér talaði áðan, standa fyrir því að tekjuskatturinn á næsta ári verður hærri --- já, verður hærri en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni. Sjálfstfl. mun standa fyrir því, já jafnvel fjmrh. sem ár eftir ár lofaði að lækka bifreiðagjöldin, að bifreiðagjöldin á næsta ári verða hærri en nokkru sinni fyrr. Og ekknaskatturinn, já Þuríður Pálsdóttir, ekknaskatturinn. Hún er mætt hér í þingsalnum, baráttukonan gegn ekknaskattinum sem lofaði fólkinu í prófkjöri Sjálfstfl. að hann yrði afnuminn. Og á borðinu fyrir framan hana liggur fjárlagafrv. þar sem Sjálfstfl. birtir hinn svokallaða ekknaskatt í öllu sínu veldi. Og Þuríður Pálsdóttir er komin hingað á þing brosandi til að greiða honum atkvæði. Hvað ætli gömlu konurnar segi um þau heilindi?
    Og skerðingin á tekjum kirkjunnar sem Þorsteinn Pálsson hamaðist gegn og fékk meira að segja biskupinn yfir Íslandi til að trúa því að Sjálfstfl. ætlaði ekki að stunda slíkt. Í kaflanum um kirkjumál í fjárlagafrv. er skerðingin á tekjum kirkjunnar í fullu gildi og biskupinn veit ekki sitt rjúkandi ráð.
    Þjóðin veit heldur ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að hún er búin að sjá í gegnum pókerspilarana. Hún er búin að sjá að þessir menn sögðu eitt fyrir kosningar og gera allt annað eftir kosningar. Svo kemur forsrh. blessaður hér í kvöld og flytur aftur ræðuna um að það sé stefnan að lækka ríkisútgjöldin, að lækka skattana. Útvarp Matthildur, gott kvöld. ,,Súperskattman Islandicus``, Davíð Oddsson, mætti hér til að gera grín að sjálfum sér í fyrstu alvörustefnuræðu sinni á Alþingi. Jafnvel Morgunblaðið getur ekki annað en sagt þjóðinni frá því að á næsta ári verði opinber gjöld verkamannafjölskyldunnar aukin sem nemur hálfum mánaðarlaunum.
    Svo er reynt að tala eitthvað um fortíðina. Blessaður forsrh. ætti nú að lesa sér betur til um fortíðina, alla vega fiskeldið, áður en hann fer að tala um það enn einu sinni hér í kvöld. Hverjir voru það sem vildu í mars auka ríkisútgjöldin til fiskeldis? Auka ríkisábyrgðirnar í fiskeldi? Hverjir aðrir en núv. fjmrh. Friðrik Sophusson og Matthías Bjarnason sem fluttu hér frv. sem ég varð að berjast gegn sem fjmrh. Sjálfstfl. sem vildi ausa meiru úr sjóðum ríkisins í fiskeldið og þingflokkur Sjálfstfl. neitaði að víkja af þingi í vor fyrr en búið væri að ganga frá því að meiru yrði eytt í fiskeldið. Fortíðarnefndin, sjálfsgagnrýnisnefnd Sjálfstfl., sett upp alveg sérstaklega til að skoða flugstöðina. Við hin þurfum ekki að skoða flugstöðina. Við vissum það að hún var montbygging sem við skuldum þrjá milljarða í en sem ráðherrar Sjálfstfl. tóku ákvörðun um að byggja. Það er þess vegna við hæfi að hún sé fyrsta verkefni þessarar sjálfsgagnrýnisnefndar Sjálfstfl. sem hann kýs að kalla fortíðarnefnd.
    Já, aðstoðarflokkur Sjálfstfl., kæri Össur. Þú ert mættur hér í salinn, liðsmaður Davíðs Oddssonar, og þér líður svo illa að þú notar meginhluta ræðu þinnar til að mótmæla þinni eigin ríkisstjórn. Hvílíkt upphaf, kæri fóstri. Hvílíkur ferill. Viltu ekki frekar koma aftur heim í raunverulega jafnaðarmannaflokkinn en vera í þessum aðstoðarflokki Davíðs

Oddssonar? Þú, sem í borgarstjórn sast í fjögur ár og barðist á móti honum, skrifaðir Þjóðviljann á móti fjölskyldunum fjórtán, ert nú að hefja þær til vegs. Heldurðu að Halldór Blöndal taki mark á þér? Heldurðu að Þorsteinn Pálsson taki mark á þér þó að þú flytjir ræðu hér um kvótaleigu og annað? Veistu ekki að þeir yppa bara öxlum og fjárlagafrv. er nákvæmlega eins og þeir gengu frá því. Það er ekki tekið tillit til eins eða neins sem þú segir. Komdu bara heim aftur.
    Og Jón Baldvin kominn til landsins loksins með fleiri flugtíma á þremur árum en Gylfi Þ. á fimmtán og byrjaður að lesa bókina sem gefin var út í dag. Kannski hefur hann aldrei lesið hana fyrr. Ég las hana í dag og það má segja að fjallið tók jóðsótt og það fæddist hvít mús. Kannski var Jón Baldvin að lesa hana í fyrsta sinn hérna í ræðustólnum og hann kaus að lesa kaflann um landbúnaðarmál. En kæri Jón, hvað er í kaflanum um landbúnaðarmálin? Ekkert annað en búvörusamningurinn sem við skrifuðum undir, Steingrímur J. Sigfússon og ég. Þú sagðir á blaðamannafundinum í dag að það væri merkur árangur hjá þessari ríkisstjórn að á næsta ári yrðu ekki útflutningsuppbætur á kindakjöti og það yrðu beinar greiðslur til bænda. Þetta var einmitt kjarninn í búvörusamningnum sem Steingrímur J. Sigfússon undirritaði og þú hamaðist á móti í vor og sagðir þegar þú myndaðir ríkisstjórnina að hún væri mynduð til þess að eyða þessum samningi. Í dag lastu þessi ákvæði upp úr ,,þinni hvítu mús`` og hældir þér sérstaklega af að þetta væri hinn mikli árangur. Búvörusamningurinn sjálfur birtur á heilli blaðsíðu í þessari bók. Til hamingju, Halldór Blöndal.
    En, kæri Össur, er það þetta sem barist var fyrir? Að þeir spili bara með ykkur í Sjálfstfl.? Hafi ykkur sem aðstoðarflokk og geri ekkert með það sem þið segið?
    Nei, eigum við ekki að mynda hérna alvöruríkisstjórn? Er ekki kominn tími til þess að fara að haga sér þannig að stefnan sé í samræmi við verkin? Er ekki kominn tími til að fara að gera það sem við lofuðum í vor? Alþb. er reiðubúið til þess. Alþb. sagði fyrir kosningarnar: Við viljum jafna lífskjörin. Við viljum leggja hátekjuskatt á þá sem eru með mörg hundruð þús. kr. á mánuði. Við viljum leggja skatt á fjármagnstekjur og afnema afsláttinn vegna hlutafjárkaupanna. En við ætlum ekki að nota þetta til að auka tekjur ríkisins. Við ætlum að nota þetta til að jafna kjörin sem innlegg í kjarasamninga sem við ætluðum að ganga frá sl. sumar þannig að við værum nú mætt hér til þings með nýja kjarasamninga, áframhaldandi stöðugleika og öryggi fyrir landsmenn alla.
    Það eru vissulega erfiðleikar fram undan en það þarf ríkisstjórn með kjark, ríkisstjórn með heilindi, ríkisstjórn sem leiðir fólkið í landinu saman, launafólkið, fólkið á landsbyggðinni og þéttbýlinu, fólkið í atvinnulífinu, leiðir þjóðina saman en skiptir henni ekki í andstæðar fylkingar. Það er þannig ríkisstjórn sem við þurfum. Ríkisstjórn sem er ekki að keppa um heimsmeistaratign í póker, ríkisstjórn sem hugsar um að vinna Íslandi allt. --- Góða nótt.