Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:00:00 (138)

     Svavar Gestsson :
     Góðir tilheyrendur. Í stefnuræðu forsrh. áðan kom oft fyrir að beita eigi aðhaldi, aga og ráðdeild í meðferð ríkisfjármála. Þetta segir sá maður sem er nýlega kominn frá því að byggja ráðhús og perlu sem hafa farið milljarði króna fram úr áætlun. Davíð Oddsson er því því miður sístur manna á Íslandi til þess að veita ráð í þessu efnum þó Össur Skarphéðinsson hafi kosið hann sér til fylgilags.
    Rök Davíðs Oddssonar eru þau að húsin séu fögur og flókin. Það sama verður hins vegar ekki sagt um lífskjör þess fólks sem ríkisstjórnin hefur lagt í einelti í sumar með aðgerðum sínum og skipulegu svartagallsrausi. A.m.k. eru launaumslögin ekki fögur og það er vissulega flókið að lifa af því sem kemur upp úr þeim þessa dagana. Ríkisstjórnin hefur ekki beitt sjálfa sig aðhaldi né aga. Rekstrarkostnaður ráðuneytanna vex og aukafjárveitingarnar eru byrjaðar aftur. Aðhaldið hefur ekki beinst að prjálinu heldur að lífskjörum heimilanna og fremstur fer heilbrrh. Alþfl. sem byrjaði á því að hækka lyfjareikning heimilanna í landinu um mörg hundruð millj. kr. Og svo þegar hann var búinn að því, þá lagði hann til að það yrði lagður á allsherjar sjúklingaskattur á alla þá sem yrðu lagðir inn á spítala. Þetta var tillaga með þeim hætti að jafnvel hluta af Alþfl. varð bumbult og er þá langt til jafnað. Og heilbrrh. greip til þess að ákveða að leggja skatt á alla þá sem þurfa að leita á náðir heilsugæslustöðva. Þegar það dagsverk var búið var ákveðið að leggja niður nokkrar stofnanir, nokkrar heilbrigðisstofnanir í tilskipanastílnum.
    Núna einmitt í dag er verið að stofna sérstakt varnarlið til að verja St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði. Ég geri ráð fyrir því að bæjarstjórinn í Hafnarfirði, sem situr nú á Alþingi, sé einn af liðsmönnum í því varnarliði.
    Næsti hópur sem ríkisstjórnin sýndi sérstakt aðhald og aga var skólafólk þegar búið var að afgreiða sjúklingana og spítalana. Það var ákveðið að leggja sérstakan skatt á nemendur framhaldsskóla og háskóla. Þar með er í rauninni gerð atlaga að framtíðarlífskjörum þjóðarinnar því að vísindi, þróun og rannsóknir eru undirstaða góðra lífskjara. Það á einnig að skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna og skólar eru lagðir niður með tilskipunum.
    Þegar ríkisstjórnin er búin að sýna fólki sérstakt aðhald og aga með þessum hætti í allt heila sumar, þá birtist fjárlagafrv. og þar er auðvitað stefnan staðfest. Það á að leggja skatta á sjúklinga en ekki á hátekjumenn. Það á ekki að leggja skatta á stóreignamenn. Það á að leggja skatta á skólafólk en ekki á stóreignamenn. Það á að skerða kaupmátt launa á næsta ári. Það á að skera niður framlög til heilbrigðismála og menningarmála. Og í stefnukveri sínu, sem ríkisstjórnin birti í dag og Jón Baldvin veifaði hér áðan, er gerð grein fyrir því að það sé ætlunin að leggja á altækan virðisaukaskatt sem þýðir hærri matarskattur og skattur á menningarstarfsemi.
    Með öðrum orðum, það á að ráðast gegn velferðarkerfi almennings en það er hvergi tekið á velferðarkerfi forréttindastéttanna, velferðarkerfi fjölskyldnanna fjórtán, velferðarkerfi kolkrabbans, sem hefur rakað saman gróða upp á hundruði milljóna eða milljarða kr. Þvert á móti er ríkisstjórnin markvisst með stefnu sinni að byggja upp velferðarkerfi gróðastéttanna til að koma því á varanlegan grunn. Þetta er þjóðfélagið sem blasir við.
    Þetta er það sem hefur gerst. Það hefur átt sér stað í sumar grundvallarbreytingar í íslenskum stjórnmálum. Alþfl. er kominn úr felum og gengur fram undir hinni hörðu hægri stefnu sem Þorsteinn Pálsson lýsti sl. vor. Jafnaðarstefnuna er hvergi að finna nema í Alþb. Þegar þrengir að lífskjörum þjóðarinnar í heild er meiri og brýnni þörf á því að beita úrræðum jafnaðarstefnu en nokkru sinni ella. Það er ekki jafnaðarstefna að leggja skatt á sjúklinga en sleppa hátekjumönnum. Það er ekki jafnaðarstefna að leggja skatt á skólanemendur en sleppa fjármagnseigendum. Það er ekki jafnaðarstefna að skera niður velferðarkerfið en hrófla hvergi við fjölskyldunum fjórtán.
    Fólkið í landinu er skelfingu lostið. Það heyrir eina frétt á dag um gjöld á sjálfsagða velferðarþjónustu. Það heyrist ein ný frétt á dag um tilskipanir um leggja niður skóla, skera niður námsframboð í skólum og breyta rekstri skóla í grundvallaratriðum. Það er ráðist að menningarstofnunum eins og Alþýðuleikhúsinu og safni Sigurjóns Ólafssonar.
    Og svo undirstaðan sjálf, atvinnulífið, hvað gerist þar? Er tekið á vandamálum þess? Það hefur ekki verið gert nema með því að margfalda vexti eins og gert var sl. vor. Það hefur ekkert verið gert til að taka á tekjuskiptingarvanda sjávarútvegsins. Það hefur ekkert verið gert til að treysta grundvöll íslensks iðnaðar, nema síður sé. Það hefur ekkert verið gert til að byggja upp nýja framtíð batnandi lífskjara í þessu landi sem á vissulega stórfelld verðmæti orku og eigin lands. En það gæti hvort tveggja verið í hættu nú í EES-viðræðunum. Forráðamenn atvinnufyrirtækjanna um allt land standa frammi fyrir vaxandi taprekstri og það orð sem lýsir best ástandinu á landsbyggðinni er ótti, ótti við skilningsleysi þessarar ríkisstjórnar og helstu talsmanna hennar sem vita ekkert um atvinnurekstur og reka stefnu sem Steingrímur J. Sigfússon kallaði ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnan.
    Í felukveri því sem ríkisstjórnin dreifði til þingmanna í dag er enn talað um aga, ráðdeild, aðhald. Og sá sem gengur fremst er forsrh. sem þó skilur eftir sig slóða af óráðsíu og eyðslu þannig að enginn samjöfnuður finnst í landinu um annað eins. Í blaði nokkru í dag er farið yfir framúrkeyrslu í nokkrum opinberum byggingum ríkis og borgar á undanförnum árum. Þar kemur fram að Davíð Oddsson skipar bæði fyrsta og annað sæti óráðsíunnar. Hann fær gullpening óráðsíunnar fyrir ráðhúsið og silfurpening óráðsíunnar fyrir Perluna. Hann hefur með öðrum orðum sannað það betur en nokkur annar maður að Sjálfstfl. er ekki nú frekar en fyrr treystandi fyrir almannafé.
    Þegar Þorsteinn Pálsson afhenti Davíð Oddssyni formannslyklana í Sjálfstfl. sl. vor talaði hann um hættuna á hinni hörðu hægri stefnu. Sú stefna hefur birst okkur í sumar og hún hefur birst okkur með undirleik þess Alþfl. sem hefur yfirgefið jafnaðarstefnuna. Í bæklingi ríkisstjórnarinnar sem dreift var í dag segir m.a.:
    ,,Leitað verður leiða til þess að gefa almenningi kost á að velja um mismikla sjálfsáhættu``, ég vek athygli hlustenda á því að hér er ekki verið að tala um bíla, hér er verið að tala um fólk, ,,mismikla sjálfsáhættu í þessum efnum``, þ.e. heilbrigðisþjónustunni, ,,gegn breytilegu tryggingariðgjaldi í einhverri mynd.``
    Því miður er ekki nánar útskýrt hvernig á að koma þessu við en þó sést það greinilega. Greinilega er ætlunin að láta fólk borga mismunandi tryggingariðgjald eftir því sem efni þess leyfa. Þeir sem eiga litla peninga borga þá lágt iðgjald. Þeir sem eiga mikla peninga borga þá hátt iðgjald. Gott og vel. En afleiðingin er sú að þeir sem eiga litla peninga taka mikla sjálfsáhættu eins og það er kallað, ríkisstjórnin talar um fólk eins og bíla, en þeir sem eiga mikla peninga taka enga sjálfsáhættu. Og menn borga þeim mun hærra tryggingariðgjald sem þeir eru veikari og sem þeir eru eldri.
    Segjum að tveir menn fótbrotni. Annar er efnaður og hraustur og hann þarf ekki að borga eyri fyrir að láta gera að meinum sínum á spítalanum. Hinn getur því aðeins látið gera að meinum sínum á spítalanum að hann borgi tafarlaust og þeim mun meira þarf hann að borga sem hann er veikari fyrir eða t.d. fatlaður.
    Góðir tilheyrendur. Er það þetta þjóðfélag sem við viljum? Er þetta þjóðfélag jafnaðarstefnunnar? Mitt svar er nei. Og meiri hluti þjóðarinnar segir nei eins og sést m.a. á því að hér situr nú eftir aðeins 4--5 mánuði óvinsælasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins og fylgið hrynur af stjórnarflokkunum. Og það er kannski einmitt það og það eitt sem stjórnarherrarnir geta skilið. Það er ekki heldur hægt að kaupa sér kaskótryggingu vegna ósigra í kosningum. Sem betur fer kannski, enda hætt við því að kostnaðurinn yrði Alþfl. a.m.k. ofviða.
    Góðir Íslendingar. Fram undan eru hörð átök við þá ríkisstjórn sem nú situr og stefnu hennar. Það þarf að fylkja liði stjórnarandstöðu utan þings og innan, stjórnarandstöðunnar í stjórnarflokkunum líka. Það þarf að verða til þverpólitísk hreyfing íslenskra jafnaðarmanna sem hafnar misréttinu, hreyfing sem hefur það hlutverk að verja velferðarkerfið. Sú hreyfing gæti einmitt hafa hafist í dag með stofnun varnarliðs um einn spítala í Hafnarfirði. Ég skora á landsmenn alla að fylkja liði í þeirri varnarbaráttu. Við skulum ekki láta eyðileggja Ísland jafnréttis og réttlætis. Við skulum ekki láta líðast að Ísland verði

gert að tilraunastofu þess thatcherisma sem nú er að deyja í Bretlandi. --- Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.