Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:12:00 (139)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Góðir áheyrendur. Minn gamli vin Össur Skarphéðinsson bar fram þá frómu ósk hér áðan að mæðrahyggjan fengi að svífa yfir vötnum hér í þessum þingsal. Ekki vil ég valda honum vonbrigðum og mun reyna að gera mitt til þess að svo megi verða. Ég mun ekki skorast undan því að siða til óknyttadrengi stjórnar eða stjórnarandstöðu þyki mér þess þörf. Ég mun heldur ekki skorast undan því að siða til afturbatadrengi sem einu sinni rufu ró þessa þings en eiga nú enga ósk heitari en að halda henni. Ég mun auðvitað leitast við að taka hann og aðra drengi móðurlega á kné mér, en hann verður svo að meta það hvort kné mitt er nógu virðulegt til þess að bera hann.
    Forsrh. hefur nú öðru sinni flutt þingi og þjóð stefnuræðu stjórnar sinnar á þeim tæpu sex mánuðum sem þessi stjórn hefur setið. Þetta er ekki langur tími. Því meira sem ég sé og heyri til stjórnarherranna, þeim mun oftar verður mér hugsað til ákveðins kollega þeirra sunnar af hnettinum. Hann hét Eiríkur langsokkur og vann sér það helst til frægðar að vera faðir Línu langsokks. Þar fyrir utan var hann negrakóngur á ótilgreindri eyju þó hann væri þar að vísu sjaldan, rétt eins og utanrrh. En þegar hann var þar þá stjórnaði hann mikið.
    Ráðherrarnir okkar ætla líka að stjórna mikið og þeir ætla að stjórna einir. Fátt er ógnvænlegra.
    Ef marka má stórkarlalegar yfirlýsingar ráðherranna um allar þær breytingar sem þeir ætla að gera á íslensku þjóðfélagi, þá virðast þeir ekkert hafa lært af þeim miklu hræringum sem verið hafa í heiminum á undanförnum missirum. Þeir virðast ekki ætla að tileinka sér ný viðhorf eða breyttan stjórnstíl. Í Austur-Evrópu krafðist fólkið kerfisbreytinga og hreif ráðamenn með sér. Hér eru það ráðherrarnir sem ætla að gera slíkar breytingar að fólki forspurðu.
    Í fyrirliggjandi fjárlagafrv. og stefnuræðu hæstv. forsrh. sjáum við reykinn af þeim réttum sem stjórnarherrarnir hyggjast bera á borð fyrir þjóðina á næstu árum. Þeir ætla að breyta sjúkratryggingunum, lífeyrisréttindunum, barnabótunum, réttindum opinberra starfsmanna, skólakerfinu, námslánunum --- svona mætti lengi telja.
    Með stefnuræðu hæstv. forsrh. fylgir langur listi yfir lagafrv. sem ríkisstjórnin ætlar að flytja og varða flest svið okkar daglega lífs. Samt varar forsrh. við þeirri tilhneigingu að leysa öll vandamál með lagaákvæðum og reglugerðarfyrirmælum eins og hann orðar það. Það fara ekki saman orð og æði. Þegar listi hæstv. forsrh. er skoðaður með hliðsjón af þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá ráðherrum á undanförnum vikum, þá má ljóst vera að þær forsendur sem þorri almennings byggir tilveru sína á eru brostnar eina ferðina enn. Nýju stjórnarherrarnir ætla að henda rusli fyrirrennara sinna og innrétta upp á nýtt. Þeir ætla að fullnægja eigin metnaði og almenningur á að laga tilveru sína að því. En hvaða leyfi hafa menn til að segja þjóðinni fyrir verkum með þessum hætti? Hvaða leyfi hafa þeir til að bjóða okkur upp á eitt kerfi í dag og annað á morgun? Hvaða leyfi hafa nýir ráðamenn til að yfirtaka Stjórnarráðið á fjögurra ára fresti og haga sér þar eins og fílar í glervörubúð?
    Íslenskt þjóðfélag er sameign okkar allra. Vilji menn gera á því grundvallarbreytingar þá verða slíkar breytingar að byggja á víðtækri samstöðu og samráði. Allar breytingar ríkisstjórnarinnar stefna í eina átt.
    Þær stefna að því að flytja kostnað frá ríkinu yfir á breiðu bökin í þjóðfélaginu. Bök barnafólks og ellilífeyrisþega. Önnur bök til að bera byrðar fundu kratar og sjálfstæðismenn ekki ef frá eru talin bök íslenskra hrossa. En vegna andstöðu sjálfstæðismanna var að sjálfsögðu horfið frá því óráði. Menn geta kallað nýjar álögur á fjölskyldurnar í landinu skatt eða þjónustugjöld. Slíkur orðhengilsháttur má einu gilda. En álögur eru það. Aukin hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu leggst á foreldra ungra barna og gamalt fólk vegna þess að það notar heilbrigðisþjónustuna öðrum fremur. Það er barnafólk sem þarf að taka á sig þyngri skattbyrði þegar barnabæturnar verða tekjutengdar án þess að nokkurt tillit sé tekið til þess kostnaðar sem fólk hefur af því að sækja sér tekjur. Það er barnafólkið sem er nýbúið að koma yfir sig húsnæði sem þarf að bera þá okurvexti sem hér eru á húsnæðislánum. Það er barnafólkið sem nú þegar hefur ómældan kostnað af menntun barna sinna sem þarf að greiða þau skólagjöld sem fyrirhuguð eru. Í ljósi þess þarf engan að undra þó ekki sé minnst einu orði á fjölskylduna í stefnuræðu forsrh., enda væru vinsamleg orð í hennar garð ekki annað en hræsnin einber.
    Að óreyndu hefði ég haldið að hægt væri að finna breiðari bök í íslensku þjóðfélagi. Á það má benda að þar er nokkuð stór hópur karlmanna sem ekki verður séð að leggi meira til þjóðarbúsins en aðrir þegnar landsins en samt bera þeir mun meira úr býtum. Þessir karlmenn hafa hálfa milljón, milljón og jafnvel eina og hálfa milljón í mánaðartekjur. Þeir eiga hlutabréfin sem hækkuðu svo mikið í verði á síðasta ári. Þeir eiga drjúgan hlut í því sparifé sem við hin þurfum að taka að láni á okurvöxtum og þeir eiga lúxusbílana sem fluttir hafa verið inn unnvörpum að undanförnu. En þessir menn þurfa að vera léttir á sér eins og flugan og geta því engar byrðar borið. Þess sjást heldur engin merki í stefnuræðu forsrh. né fjárlagafrv. að það eigi að venja þá við að bera sinn skerf. Engar tekjur af fjármagnsskatti eru sjáanlegar, hvað sem líður orðum hæstv. utanrrh. hér áðan. Ekkert hátekjuskattsþrep, ekki hærri virðisaukaskattur á lúxusvörur, ekkert sem orða mætti við réttlæti. Milli þessara manna og hinna tekjulægstu er staðfest regindjúp og af hálfu ríkisstjórnarinnar er engin brúarsmíð fyrirhuguð. Í fyrri hópnum eru menn í slíkum vandræðum með aurana sína að þeir taka jafnvel upp á því að setja koparslegin þök á hús sín. Í hinum er mörgum farið eins og konunni sem hringdi til fjmrh. í útvarpsþætti um daginn og spurði hvers vegna ekki væri hægt að kaupa spariskírteini í áskrift fyrir þúsund krónur á mánuði. Hún vildi svo gjarnan spara en fimm þúsund krónur voru henni um megn.
    Á undanförnum vikum hafa menn úr tekjuháa hópnum lokið upp einum munni um að ekki sé nokkurt svigrúm til að hækka laun og bæta kaupmátt. ,,Minna en ekki neitt til skiptanna``, segir fjmrh. ,,Menn skipta ekki mínusi og fá plús``, segir framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins. Og menn biðja um svigrúm til að hagræða, auka framleiðni og hagvöxt. Svo muni röðin koma að því að bæta kjörin. Í tvígang á skömmum tíma hafa stjórnvöld og atvinnurekendur fengið svigrúm til að lagfæra það sem aflaga hefur farið og í bæði skiptin hafa þessir aðilar klúðrað því. Hvaða ástæða er til að ætla að þeir geri það ekki eina ferðina enn? Þeir fengu þetta svigrúm á árunum 1983--1986 og þeir fengu þetta svigrúm með þjóðarsáttinni. Nú hefur hún staðið í tvö ár og enn virðast menn hafa ekki misst, eins og forsrh. orðaði það, heldur klúðrað tækifæri sem verkalýðshreyfingin gaf þeim. Enn er beðið um gott veður og vísað til langvarandi aflasamdráttar. En það veiða ekki allir fisk og fjölmörg fyrirtæki skiluðu verulegum hagnaði á síðasta ári. Engu að síður er reynt að fá verkalýðshreyfinguna til að semja um kjaraskerðingu núna gegn vilyrði um eitthvað annað seinna. En það hefur í besta falli bókmenntalegt gildi að vísa til þess sem gerist seinna. Þetta seinna kemur aldrei. Verði taxtar verkalýðshreyfingarinnar látnir drabbast mikið lengur getur það ekki endað nema á einn veg: Í virðingarleysi gagnvart vinnu og verðmætasköpun og megnri óánægju sem mun gegnsýra allt okkar þjóðfélag.
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Ráðherrarnir tala hver í kapp við annan um að það þurfi að auka kostnaðarvitund almennings. Í ræðu sinni hér áðan sagði forsrh. að

það ætti að virkja kostnaðarvitund opinberra starfsmanna til að hafa hemil á útgjöldum og beina þeim í forgangsverkefni. Með þessu fína hugtaki, kostnaðarvitund, er verið að boða að fjármunir eigi að stjórna gerðum okkar í ríkari mæli en þeir gera í dag. Menn hafa ekki minnst á ábyrgðartilfinningu, sómatilfinningu, samkennd, metnað eða aðrar álíka óáreiðanlegar kenndir.
    En hvað stjórnar gerðum þeirra opinberu starfsmanna sem sitja í ráðherrastólunum? Var það kostnaðarvitundin sem sagði forsrh. og fjmrh. að nauðsynlegt væri að ráðuneyti þeirra eignuðust nýja 3 millj. kr. bíla um leið og þeir settust í ráðherrastólana? Var það sómatilfinningin og samkenndin með þeim sem hafa fengið tilskipun um að spara sem réði því að heilbrrh. keypti sér glæsibíl sem skattgreiðendur hafa að fullu greitt þegar ráðherrann stendur upp úr stólnum? Nei, það var lögmálið og valdið sem réði gerðum þeirra. Þeir höfðu vald til að gera þetta og þeir notuðu það. Reglurnar heimiluðu þetta og því þótti sjálfsagt að notfæra sér þær.
     Menn sem eru eins fastir í viðjum valds og reglna og þessar stjórnarathafnir bera vott um eru ekki líklegir til að geta notfært sér þær kjöraðstæður sem nú eru til að finna og fá stuðning við nýjar lausnir á aðsteðjandi vanda. Þeir eru ekki líklegir til að leggja grunn að stjórnarháttum þar sem lausnir fá eðlilega framrás en eru ekki þvingaðar fram. Þar sem lagður er grunnur að þjóðfélagi ,,sem þróast á grundvelli sjálfsprottinna reglna og samskipta fólks á milli``, eins og forsrh. orðaði það, en ekki á grundvelli boða og banna. Þeir verða að horfast í augu við þá sorglegu staðreynd að þeir stóðust ekki fyrsta prófið. Og svo að vitnað sé í orð eistneska skáldsins Jaan Kaplinski, þá geta tilraunir til að sniðganga hið sorglega í lífinu ekki átt sér annað en sorglegan endi.