Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:38:00 (142)

     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ólafur Ragnar Grímsson sagði hér í þessum ræðustól áðan að fjárlagafrv. boðaði brigð á fyrirheitum sjálfstæðismanna um skattalækkun að loknum síðustu kosningum. Þetta er rangt. Ég lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að ekki yrði unnt að lækka skatta á fyrsta eða öðru ári að kosningum loknum. Sambærilegar yfirlýsingar gáfu bæði núv. og fyrrv. formaður flokksins. Hvers vegna var þetta nú

ekki hægt? Hvers vegna skyldum við forustumenn Sjálfstfl. gefa slíkar yfirlýsingar? Það var auðvitað vegna þess að viðskilnaður Ólafs Ragnars Grímssonar og ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var með þeim hætti í ríkisfjármálum að þetta var ekki mögulegt. Ríkisútgjöldin höfðu þanist út, skattar höfðu verið hækkaðir en þrátt fyrir það fór hallareksturinn sívaxandi, hallarekstur sem safnaðist upp og myndaði byrðar fyrir framtíðina. En þetta var ekki nóg. Það var hvarvetna að finna skuldbindingar án fjárframlaga sem safnað hafði verið upp, skuldbindingar sem koma okkur í koll nú, kemur í hlut okkar og framtíðarinnar að standa undir og greiða. Þessar skuldbindingar ásamt hallarekstri Ólafs Ragnars í fjármálaráðherratíð hans voru að ég taldi fyrir kosningar um 53 milljarðar kr. En þetta var ekki nóg. Það var bætt við þetta á síðustu dögum þess þings með heimildum um lántökur, heimildum um skuldbindingar út og suður um fjármálakerfið. Og enn er verið að draga undan teppunum skuldbindingar Ólafs Ragnars Grímssonar í ríkisfjármálum sem við þurfum að standa undir og þess vegna er ekki hægt að lækka skatta nú að sinni. Það eru baggarnir hans Ólafs Ragnars sem þjóðin verður nú að standa undir. Ólafur Ragnar Grímsson kom hér með sakleysislegan ungmeyjarsvip en sannleiksástin hefur ekki breyst.
    Löngu áður en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var mynduð var ljóst hvert stefndi í hinum veigamestu málefnum þjóðfélagsins. Í höndum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar höfðu hrannast upp gífurleg vandamál í ríkisfjármálum og atvinnumálum. Þessi vandamál voru mun hrikalegri heldur en menn vildu þá vera láta og vilja enn kannast við. Hagsmunir atvinnulífsins eru að því leyti nátengdir stöðu ríkisfjármála að með sívaxandi útþenslu ríkiskerfisins, skattahækkunum, en þó háskalegum halla á ríkissjóði, hefur ríkisbúskapurinn dregið til sín æ stærri hluta af ráðstöfunarfé þjóðarinnar, bæði með sköttum og lánsfé. Afleiðingin lýsir sér ekki einungis í því að fjármagnið hefur með sívaxandi skattheimtu verið sogað frá atvinnuvegum og heimilum heldur einnig með því að lánsfjárhungur ríkissjóðs hefur haldið uppi háum vöxtum í landinu og olli þeirri vaxtahækkun sem Steingrímur Hermannsson minntist á hér áðan. Sú vaxtahækkun var afleiðing af því lánsfjárhungri sem ríkissjóður hafði valdið í efnahagskerfinu í lok stjórnartíðar Steingríms Hermanssonar.
    Fráfarandi ríkisstjórn taldi sig leysa vandamál atvinnuveganna með því að taka tæpa 9 milljarða kr. að láni erlendis og dreifa gegnum nýtt sjóðakerfi til fyrirtækjanna. Auðvitað kom þetta sumum fyrirtækjum vel, en því miður allt of mörgum einungis í bili. Þetta sannast m.a. af því að gjaldþrotin héldu áfram alla tíð fyrri ríkisstjórnar þótt lánin væru afborgunarlaus fram á þetta ár. Staðreyndin var að fráfarandi ríkisstjórn vanrækti að koma atvinnuvegunum á rekstrarhæfan grundvöll. Þess í stað gerði hún tilraun til að fela vandann, geyma hann með því að breiða yfir hann ábreiðu sem ofin var úr erlendu lánsfé. Þetta lánsfé þurfti ekki að endurgreiða fyrr en ný ríkisstjórn var tekin við. Það var vitaskuld í fullu samræmi við ýmislegt annað í stjórnarháttum þeirrar ríkisstjórnar, m.a. fjármálastjórninni sem ég vék að hér áðan.
    Þótt afborganir af þeim lánum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni séu ekki nema að litlu leyti fallnar í gjalddaga hafa þegar tapast í gjaldþrotum af þessu fé um 500 millj. kr. Þungi endurgreiðslnanna hefst hins vegar á næsta ári því að þá koma til gjalda nær 2 milljarðar af þessu fé. Þannig er sú arfleifð sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var að taka við í málum atvinnulífsins. Við bætist nú sá mikli vandi sem stafar af því að á næsta ári er spáð samdrætti í verðmæti sjávaraflans um 11% eða nálægt 9 milljörðum kr.
    Í samræmi við það sem fram kom í ræðu forsrh. hér áðan lít ég á það sem höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar að takast á við þau gífurlegu vandamál sem atvinnuvegirnir búa við, en einnig hina hrikalegu stöðu ríkisfjármála. Það er grundvallaratriði að atvinnulífið geti dafnað og skilað vaxandi tekjum í þjóðarbúið. Viðskilnaður vinstri stjórnar og þau

áföll sem spáð er á næsta ári gera kröfur til þess að ríkisstjórnin beiti sér að þessu markmiði frekar en ella. Engar aðgerðir, t.d. í byggðamálum eða öðrum þáttum mála, geta komið í staðinn fyrir þá miklu hagsmuni sem fylgja því að árangur náist á þessu sviði.
    Ný vinnubrögð hafa verið tekin upp við gerð fjárlagafrv. fyrir næsta ár og árangri náð. Skarplega þarf þó enn að taka á til að markmiði okkar sjálfstæðismanna um jöfnuð í fjármálum ríkisins verði náð áður en kjörtímabilið er hálfnað og jafnframt að búa í haginn fyrir minnkandi skattbyrði almennings á síðari hluta þess. Þessi verkefni eru sannarlega krefjandi og ríkisstjórnin þarf víðtækan stuðning til þess að árangur náist. Ég er þess fullviss að að þeim verði unnið af þeirri festu, en þó með þeirri hófsemi sem einkennir ákjósanlega stjórnarhætti. --- Góða nótt.