Sementsverksmiðja ríkisins

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 13:48:00 (153)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Í fjarveru hæstv. iðnrh. vil ég mæla hér fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins, en þetta frv. er að finna á þskj. 14. Frv. hefur tvívegis áður verið lagt fram á Alþingi í þessari eða mjög svipaðri mynd. Á 112. löggjafarþingi var það raunar afgreitt frá efri deild en dagaði þá uppi í neðri deild. Á síðasta þingi var frv. flutt að nýju í efri deild en hlaut ekki afgreiðslu enda var þá þinghald venju fremur stutt.
    Tilgangurinn með þessu lagafrv. er eins og fram kemur í heiti þess að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Byggt er að stofni til á frv. sem samið var í iðnrrn. árið 1987 en á því hafa síðan verið gerðar nokkrar breytingar. Meginefni frv. má í stuttu máli lýsa í sex liðum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ríkisstjórninni sé heimilt að leggja Sementsverksmiðju ríkisins og allt hennar fylgifé til sérstaks hlutafélags sem stofnað verði og að sérstök matsnefnd skuli meta eignir og verði matið haft til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár í væntanlegu félagi.
    Í öðru lagi að hlutverk hins nýja félags verði víðtækara en hlutverk Sementsverksmiðjunnar er nú og því heimilað að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum. Heimili félagsins og varnarþing verður á Akranesi.
    Í þriðja lagi er lagt til að öll hlutabréf félagsins verði við stofnun þess eign ríkissjóðs og að samþykki Alþingis þurfi til að bjóða hlutabréfin til sölu.
    Í fjórða lagi er lagt til að við verksmiðjuna starfi sérstök samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar og lögbundið samráð verði haft við Akraneskaupstað um málefni félagsins.
    Í fimmta lagi er lagt til að skipuð verði sérstök undirbúningsnefnd til þess að undirbúa stofnun félagsins og að stofnfundur verði haldinn eigi síðar en 1. júlí 1992.
    Í sjötta lagi er lagt til að nýja hlutafélagið yfirtaki reksturinn í ársbyrjun 1993.
    Það var með lögum nr. 35/1948 að Alþingi veitti ríkisstjórninni heimild til að reisa hér á landi verksmiðju til að framleiða sement. Á grundvelli þessara laga var síðan reist Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi og hefur verið rekin sem sérstakt ríkisfyrirtæki, en um hana gilda raunar ekki önnur lagaákvæði en lögin um byggingu sementsverksmiðju. Sementsverksmiðjan tók til starfa árið 1958 og hefur starfað óslitið síðan og er fjárhagur hennar traustur eins og fram kemur í grg. með frv. Raunar má geta þess hér til viðbótar að sementsframleiðsla á þessu ári hefur verið heldur meiri en áætlað var, einkanlega var sementssala á fyrri hluta ársins meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir þannig að aukningin á sementssölu fram til þessa er um 2% miðað við gerðar áætlanir. Miðað við 8 mánaða uppgjör á þessu ári gæti stefnt í það að þetta fyrirtæki skilaði 30--40 millj. kr. rekstrarhagnaði á þessu ári ef svo heldur sem horfir.
    Alþingi kýs nú fimm menn í stjórn Sementsverksmiðjunnar til fjögurra ára í senn og skipar iðnaðarráðherra einn úr hópi stjórnarmanna formann.
    Í þessu frv. er lagt til að lögbundið verði samráð starfsmanna og stjórnenda í þessu væntanlega hlutafélagi og jafnframt að tryggt verði til frambúðar samráð félagsstjórnar og bæjaryfirvalda á Akranesi. Er þetta lagt til ekki síst með tilliti til þess að tryggja stöðu starfsmanna og bæjaryfirvalda, tryggja stöðu þeirra að stjórn félagsins en þessir aðilar hafa jafnan átt gott samstarf við hina þingkjörnu stjórn fyrirtækisins.
    Til þess nú að tryggja sem best að mat á eignum verksmiðjunnar endurspegli réttilega þau verðmæti sem þarna er um að ræða, þá er í frv. lagt til að þriggja manna matsnefnd hæfra og óvilhallra manna leggi mat á verðmæti verksmiðjunnar og skal a.m.k. einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Nefndin skal dómkvödd af bæjarfógetanum á Akranesi. Inn í slíkt mat kemur að sjálfsögðu jafnt verðmæti fasteigna, véla og búnaðar sem og þróunarkostnaður, viðskiptavild o.fl. Síðan er lagt til að ráðherra skipi aðra nefnd sem hafi það hlutverk að stofna hlutafélagið og koma því á laggirnar en lagt er til að það taki við verksmiðjurekstrinum 1. jan. 1993.
    Ef frv. þetta verður að lögum þá mun stjórn hlutafélagsins kjörin á aðalfundi til eins árs í senn og mun iðnaðarráðherra fara með eignarhluta ríkisins í félaginu. Um stjórn félagsins, framkvæmdastjórn, ársreikninga o.s.frv. mun fara eftir ákvæðum hlutafélagalaga og samþykktum félagsins, en gæta verður í því sambandi sérákvæða sem lagt er til að lögfest verði, svo sem um hlutverk, heimili, endurráðningu starfsmanna, samstarfsnefnd og samráðsfundi.
    Það er gengið út frá því að þetta fyrirtæki greiði skyldur og skatta eins og hvert annað hlutafélag. Verksmiðjan greiðir nú landsútsvar í stað aðstöðugjalds og fær Akraneskaupstaður fjórðung landsútsvarsins auk hlutdeildar í tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt reglum þar að lútandi. Reikna má með því að tekjur kaupstaðarins af aðstöðugjaldi verði nokkru hærri en hluti kaupstaðarins í landsútsvari. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun tapa samsvarandi fjárhæð í tekjum sínum sem þó skiptir sjóðinn tiltölulega litlu máli. Við þessa breytingu verða aðstöðugjaldstekjur bæjarfélagsins á hvern íbúa sambærilegar og hjá velflestum öðrum sveitarfélögum.
    Þegar breyta á ríkisfyrirtæki í hlutafélag þarf að huga m.a. að lífeyrisréttindum starfsmanna. Í dag eru um 20 starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hefur þeim ekki fjölgað á síðustu árum. Aðrir starfsmenn eru hins vegar í hinu almenna lífeyrissjóðakerfi. Þótt ekki sé beint að því vikið í texta frv. er í greinargerð gert ráð fyrir að lífeyrisréttindi þessara starfsmanna breytist ekki og það verður að gera ráð fyrir því að sá kostnaður sem því er samfara komi inn í matið á verðmæti fyrirtækisins. Hitt er svo það að þegar verið er að breyta mörgum ríkisfyrirtækjum í hlutafélög, þá hlýtur þetta mál líka að koma upp á þeim vettvangi.
    Virðulegi forseti. Aðalspurningin sem upp kemur í hugann varðandi þetta frv. er: Af hverju er lagt til að Sementsverksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag? Svarið við því er einfalt: Með því að fyrirtækið væri rekið sem hlutafélag yrðu rekstarskilyrði þess samræmd því sem almennt gildir um stærri fyrirtæki í landinu. Með því móti yrði ábyrgð ríkissjóðs á fyrirtækinu takmörkuð við hlutafjáreign ríkisins. Um alla starfsmenn giltu sömu reglur og á almennum vinnumarkaði og skattareglur fyrirtækisins yrðu þær sömu og almennt gilda.
    Sementsverksmiðjan hefur auðvitað í raun haft einokunaraðstöðu á íslenskum markaði og hlýtur því að vera undir smásjá hvað varðar verðlagningu á framleiðslu fyrirtækisins. Skylt er þó að geta þess í þessu sambandi að innflutningur á sementi er frjáls. Það hefur hins vegar enginn séð sér hag í því að flytja inn sement vegna þess að innflytjendur hafa ekki getað keppt við það verð sem Sementsverksmiðja ríkisins býður.
    En meðan ríkissjóður á öll hlutabréf í þessu fyrirtæki verður ekki breyting á ábyrgð stjórnvalda á verðlagningu sements, en í raun hafa það verið verðlagsyfirvöld en ekki eigendur fulltrúa fyrirtækisins sem á undanförnum árum hafa haft síðasta orðið um verðlagningu á sementi. Ef hlutabréf í félaginu yrðu hugsanlega seld síðar mundu koma upp spurningar um yfirburðaaðstöðu félagsins á markaði og auðvitað þá stóraukið eftirlit opinberra aðila. Fyrirtækið yrði þá áfram undir smásjá verðlagsyfirvalda samkvæmt núgildandi lögum, en það fellur undir skilgreininguna ,,markaðsráðandi fyrirtæki á sínu framleiðslu- og sölusviði``.
    Við eigum væntanlega eftir á næstunni að sjá breytingar á þeirri löggjöf sem mælir fyrir um frjálsa samkeppni fyrirtækja á íslenskum markaði og munum þá e.t.v. taka nýjum tökum ýmis vandamál í verðmyndun hér á landi sem stafa af einokunaraðstöðu fyrirtækja, hvort sem þau eru í opinberri eigu eða í eigu einstaklinga.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.