Sementsverksmiðja ríkisins

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 13:58:00 (154)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég hefði talið eðlilegra að við hefðum getað átt orðastað við hæstv. iðnrh. en þar sem hann er ekki hér nú, þá hef ég hugsað mér að segja nokkur orð um þetta frv.
    Lagt er til í þessu frv. að Sementsverksmiðja ríkisins verði gerð að hlutafélagi. Ég sé í fljótu bragði ekkert sem mælir gegn því, en þó eru nokkur atriði sem verður að hafa í huga.
    Hæstv. umhvrh. minntist hér á réttindi starfsmanna en ég tel mjög mikilvægt að um leið og slík breyting eins og hér er gert ráð fyrir er gerð, þá verði athugað mjög vel að hagsmunir þeirra verði ekki afgangsstærð í málinu. Vona ég að séð verði til þess, eins og kom raunar fram í máli hæstv. umhvrh.
    Í frv. er gert ráð fyrir að öll hlutabréf fyrirtækisins verði í eigu ríkisins og að sérstaka heimild þurfi til þess frá Alþingi að selja hlutabréfin. Eftir því sem komið hefur fram opinberlega, þá virðist það vera hugmyndin að selja öll hlutabréfin sem ríkið hefur yfir að ráða í þessu fyrirtæki. Mig langaði til að spyrja hæstv. iðnrh.: Hvaða áform eru innan ríkisstjórnarinnar í sambandi við þetta mál? Er meiningin að selja þessi hlutabréf strax eða á að vera einhver frestun á því máli? Það er gert ráð fyrir því hér og ekki var hægt að heyra í máli framsögumanns að það ætti að gera það, a.m.k. ekki um leið og þetta frv.

væri samþykkt, en mig langaði til að vita hvaða áform væru uppi að því er varðar þetta fyrirtæki.
    Það er eitt atriði sem ég á mjög erfitt með að fella mig við í frv. og það er 9. gr. þess. Þar er gert ráð fyrir að fyrirtækið greiði opinber gjöld samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga og hætti að greiða landsútsvar. Hæstv. umhvrh. taldi að þetta skipti í raun engu máli fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en ég held að það geti skipt miklu máli að skerða þannig það fé sem fer í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Mig langar til að vita nánar hvað þetta eru miklar upphæðir. Hæstv. ráðherra sagði: Þetta skiptir ekki máli fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það skiptir auðvitað máli þegar verið er að skerða Jöfnunarsjóðinn ef áform eru uppi um að halda áfram slíkum skerðingum.
    Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga segir um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að landsútsvör greiði: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Áburðarverksmiðja ríkisins, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Sementsverksmiðjan, Sala varnarliðseigna, olíufélögin, Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði, bankar og sparisjóðir. Þarna eru t.d. bankar og sparisjóðir, er það einnig áform ríkisstjórnarinnar að um leið og bankarnir verða gerðir að hlutafélögum, eins og mér skilst að sé á þeirra stefnuskrá, þá muni þeir líka hætta að greiða í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Ég tel því að þarna sé um stórmál að ræða og ekki sé hægt að afgreiða það með því að þetta skipti ekki neinu máli fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eins og kom hér fram í máli hæstv. umhvrh. Það er því akkúrat þetta atriði sem ég hef lagt mikla áherslu á þegar þetta mál hefur komið hér til umræðu, að farið verði sérstaklega ofan í hlut Jöfnunarsjóðsins og hann verði ekki skertur eins og hérna virðist vera gert ráð fyrir og e.t.v. eru áform uppi um í áframhaldinu.
    Ég nefndi það að Ríkisprentsmiðjan Gutenberg væri eitt af þeim fyrirtækjum sem greiddi landsútsvar. Í maí árið 1989 voru samþykkt lög hér á Alþingi um stofnun hlutafélags um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og það eru nákvæmlega eins ákvæði í þessu frv. Það stendur í 6. gr.: ,,Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga um hið nýja félag og greiðir það opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.`` Þannig virtist hafa verið gert ráð fyrir því þann 9. maí að Ríkisprentsmiðjan Gutenberg ætti að greiða samkvæmt þeim lögum. En þann 20. maí, nokkrum dögum síðar, voru samþykkt lög á Alþingi um tekjustofna sveitarfélaga þar sem Ríkisprentsmiðjan Gutenberg er inni sem greiðandi landsútsvars. Mér skilst þá að þau lög eigi að gilda, þau sem eru nýrri. Eftir því á Ríkisprentsmiðjan Gutenberg að greiða landsútsvar þannig að það er ekkert sem mælir gegn því að Sementsverksmiðja ríkisins geri það líka. Þetta finnst mér vera atriði sem skiptir mjög miklu máli og er alls ekki hægt að afgreiða svona með einni setningu, að þetta breyti ekki neinu fyrir Jöfnunarsjóðinn.
    Mér finnst líka skipta verulegu máli þegar verið er með áform um að selja ríkisfyrirtæki, eins og hér er greinilega stefnt að, að þau fyrirtæki hafi ekki einokunaraðstöðu eins og Sementsverksmiðja ríkisins hefur því að í stað þess að vera með einokun ríkisfyrirtækja værum við með einkaeinokun sem er alls ekki neitt betri heldur auðvitað miklu verri. Mér finnst því að þetta mál sé miklu flóknara en svo að hægt sé að segja að þetta sé bara eitthvert smámál sem við getum samþykkt hérna á skömmum tíma. Það þarf að fara mjög vandlega ofan í þetta mál frá ýmsum sjónarhornum.