Verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 14:16:02 (163)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Í fjarveru hæstv. viðskrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þetta mál er að finna á þskj. 21.
    Frv. þetta á rætur að rekja til þáltill. um auglýsingalöggjöf frá 18. mars 1987. 1. flm. þeirrar tillögu var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Frv. var lagt fram seint á 112. löggjafarþingi vorið 1990 en varð ekki útrætt. Sama sumar var það sent til umsagnar ýmissa aðila og bárust m.a. umsagnir frá Neytendasamtökunum, Barnaverndarráði og Verslunarráði Íslands. Eftir athugun á þeim athugasemdum sem þá komu fram þótti ekki ástæða til að gera breytingar á frv. og var það lagt fram efnislega óbreytt á 113. löggjafarþingi haustið 1990, en varð enn ekki útrætt. Frv. er nú lagt fram enn á ný efnislega óbreytt nema hvað gildistökugrein hefur af eðlilegum ástæðum verið breytt.
    Þetta frv. samdi nefnd sem viðskrh. skipaði 15. mars 1988. Í því eru ákvæði sem byggja á hinni almennu grein verðlagslaganna um villandi auglýsingar en þó gengur þetta frv. lengra og felur í sér ýmis nýmæli. Það tekur reyndar á ýmsum öðrum grundvallaratriðum, t.d. nauðsyn varúðar í auglýsingum sem höfða til barna og nauðsyn þess að auglýsingar séu ekki aðeins á lýtalausri íslensku í sjónvarpi og hljóðvarpi heldur hvar sem þær birtast. Þá þótti rétt að hafa fá ákvæði í hinum almennu auglýsingalögum en setja ítarlegri útfærslu lagaákvæðanna í reglugerð sem auðvelt væri að breyta eftir kröfum tímans hverju sinni. Í reglugerðinni skyldi m.a. byggt, eins og fram kemur í greinargerð, á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi, en þær reglur eru mjög ítarlegar.
    Þá er í frv. gerð tillaga um kerfi til þess að taka á ýmsum úrlausnaratriðum um auglýsingar. Kerfið byggist á virku starfi og valdi auglýsinganefndar sem nýtur aðstoðar Verðlagsstofnunar, þeirrar opinberu stofnunar sem einna helst er ætlað að sinna neytendavernd hér á landi. Það má ætla að þetta kerfi verði bæði virkara og liprara en núverandi kerfi og eru vonir bundnar við að þessi auglýsinganefnd geti gert mikið gagn til að bæta auglýsingar og til að búa til farveg fyrir neytendur til að koma athugasemdum sínum á framfæri.
    Markmiðið með hinum nýju ákvæðum í lögum og reglugerð er að stuðla enn frekar en nú er gert að heilbrigðri samkeppni á auglýsingamarkaði og vernda betur hagsmuni neytenda, fyrst og fremst barna, eins og fram kemur í frv. Það er ekki vanþörf á því að gefa hagsmunum barna sérstakan gaum nú á tímum þegar áhrif fjölmiðlanna eru jafnrík og raun ber vitni. Auglýsingaákvæði annarra íslenskra laga eða reglna byggjast ekki endilega á sömu sjónarmiðum.
    Sú athugasemd Verslunarráðs Íslands að í frv. séu engin veigamikil ný ákvæði um auglýsingar sem þegar sé ekki lagarammi um sýnist mér ekki fá staðist. Hér skal þó undirstrikað að með þessu frv. er lagður grundvöllur að því að unnt sé að setja ítarlegri reglur um auglýsingar sem snerta börn með hliðsjón af siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins og hugsanlega ýmsum öðrum heimildum. Án skýrrar lagastoðar væri ekki unnt að setja ítarlegar reglur um þetta efni í reglugerð.
    Þá er einnig með frv. lagður grundvöllur að setningu reglna um auglýsingar almennt með tilvísun í siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins aðrar erlendar heimildir en engin slík tilvísun er nú í gildandi lögum. Að þessu leyti getur ný almenn auglýsingalöggjöf horft mjög til framfara.
    Ég vil þá víkja, virðulegi forseti, að nokkrum þáttum frv., einkum nokkrum nýmælum sem í því er að finna.
    Í a-lið 1. gr. felst það nýmæli að ákvæði laga og reglugerða verði ítarlegri en áður, m.a. um auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi, þar sem ýmsar reglur hafa þó verið settar eins og þingheimi sjálfsagt er kunnugt. Þá verður meira samræmi milli krafna um auglýsingar hvort sem þær birtast í sjónvarpi eða hljóðvarpi annars vegar eða öðrum fjölmiðlum hins vegar. Þar hefur nokkur mismunur verið á og reyndar hafa kröfur til auglýsinga sem birtar hafa verið í hljóðvarpi og sjónvarpi verið mjög mun strangari. Það hafa verið gerðar strangari kröfur til þeirra en annarra auglýsinga og það er sjálfsagt að samræma þessa kröfugerð.
    Með b-lið 1. gr. eru tekin upp í íslensk lög hefðbundin ákvæði reglugerðar um auglýsingar í sjónvarpi, en samkvæmt þeim skulu auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi vera á lýtalausri íslensku en erlendur söngtexti má þó vera hluti auglýsingar. Samkvæmt gildandi reglum má erlent tal ekki vera hluti auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi. Ekki var talið fært að gera vægari kröfur í þessu frv. en gerðar hafa verið hér á landi að undanförnu til þessarar greinar auglýsinga.
    Það nýmæli felst einnig í b-lið 1. gr. að þar er sett fram sem aðalregla að aðrar auglýsingar en auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi skuli einnig vera á lýtalausri íslensku. Þegar sérstaklega stendur á má þó auglýsingatexti vera á erlendu máli, t.d. þegar auglýsingum er aðallega beint til erlendra manna.
    Í c-lið 1. gr. er byggt á gildandi ákvæðum verðlagslaganna um rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar.
    Ákvæði í d-lið 1. gr. eru þess efnis að auglýsingar skuli vera þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingu sé að ræða og þær skuli skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Þessar reglur eru efnislega samhljóða ákvæðum reglugerðar um auglýsingar í útvarpi og er þarna annað dæmi um að setja sem almenna reglu það sem nú gildir fyrir eina grein fjölmiðlunar, þ.e. auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi, þar sem þróast hafa allítarlegar og skýrar reglur.
    Í d-lið 1. gr. er einnig lögfest það ákvæði reglugerðar að auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi skuli fluttar í sérstökum auglýsingatímum. Í 3. gr. þeirrar reglugerðar segir að auglýsingatímum skuli jafnan hagað þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni eða

verulegrar röskunar á samfelldum flutningi efnis. Því virðist ekki útilokað samkvæmt gildandi reglum að auglýsingar geti tengst dagskrá að einhverju leyti. Ekki þykir rétt að taka til greina tillögur stjórnar Neytendasamtakanna um að bæta við d-lið 1. gr. setningu sem, með leyfi forseta, mundi hljóða á þessa leið: ,,Ekki má rjúfa útsendingu kvikmynda eða einstakra þátta í sjónvarpi til flutnings auglýsinga. Þetta á þó ekki við um beinar útsendingar þegar eðlileg rof verða á útsendingu.`` Eðlilegra þykir að útfærsla á þessari lagagrein verði í reglugerð sem auðvelt sé að breyta með tilliti til tíðarandans.
    Í e-lið 1. gr., sem yrði 49. gr. verðlagslaga, felst það mikilvæga nýmæli að lögfest er að ákvæði varðandi auglýsingar sem höfða til barna verði fest sérstaklega í lögum. Það ákvæði að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og sérstakrar varúðar skuli gætt þegar þær höfða til þeirra á sér fyrirmynd í reglugerð um auglýsingar í útvarpi en nær því ekki einungis til þeirra heldur auglýsinga almennt og jafnvel ekki aðeins í fjölmiðlum. Þá telst til bóta að útfæra má þetta ákvæði í reglugerð eftir því sem þurfa þykir og m.a. byggja á ákvæðum siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi. Þar er að finna ýmis ákvæði er varða börn og auglýsingar, m.a. um það að auglýsingar skuli ekki innihalda neitt sem hvatt geti til ofbeldisverka eða stutt slíkt athæfi. Svipaðar athugasemdir eiga við um það ákvæði í e-lið að þess skuli gætt þegar börn koma fram í auglýsingum að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er. Hér er um að ræða lögfestingu á ákvæðum er ná til fleiri tegunda auglýsinga en verið hefur.
    Þá þótti rétt að hafa í f-lið 1. gr. ákvæði um uppsetningu auglýsinga á mannvirkjum og er það nýmæli í íslenskum lögum.
    Í g-lið 1. gr. er mælt fyrir um það að ráðherra setji nánari ákvæði um framkvæmd auglýsingaákvæða í reglugerð sem byggist m.a. á þessum oftnefndu siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins. Ákvæði siðareglnanna sjálfra eru svo birt í II. viðauka með þessu frv. Jafnframt er dreift sérstaklega með frv., í takmörkuðu upplagi, erlendum reglum sem greint er frá í yfirliti yfir viðauka aftast í þessu frv.
    Hv. þm. Svavar Gestsson vék aðeins að þessum viðauka sem lagður var inn í frv. og raunar var það einnig gert á þingfundi hér í seinustu viku. Þá greindi ég frá því að ég mundi beita mér fyrir að fá þetta þýtt. Ég bíð hins vegar enn upplýsinga um hvort búið sé að þýða þetta í þeim regluskógi sem verið er að þýða eða hvort leggja á sérstaklega í kostnað við að þýða þessar reglur, sem eru raunar ekki partur af þingskjalinu og var ekki dreift hér sem þingskjali. En ég get raunar alveg tekið undir með þeim hv. þm. sem þetta hafa gagnrýnt, að þetta hefði betur verið á íslenskri tungu. Ég vek hins vegar athygli á því að þegar frv. var dreift á sínum tíma og lagt fram á Alþingi á árinu 1988, ætli við hv. þm. Svavar Gestsson höfum ekki verið saman í stjórn á því ári, voru þessar reglur á enskri tungu prentaðar sem fskj. með frv. Ekki er ég að mæla því bót, síður en svo, og held raunar að það hefði verið betri og æskilegri kostur að reyna að dreifa þessu sem lausu en ég tek aftur undir það að auðvitað hefði verið betra að hafa þetta á íslensku.
    Í h-lið 1. gr. segir að ábyrgðin á því að ákvæði í lögum og reglugerð séu haldin hvíli á auglýsanda, höfundi auglýsingar eða auglýsingastofu eða útgefanda, eiganda fjölmiðils eða öðrum birtingaraðila. Þetta ákvæði er líka nýmæli, a.m.k. að forminu til. Það þykir nauðsynlegt að taka af tvímæli um það hver beri ábyrgð á auglýsingagerðinni.
    Í i-lið er gert ráð fyrir því að viðskrh. skipi til fjögurra ára í senn fimm menn og jafnmarga til vara í auglýsinganefnd er gegni lykilhlutverki að því er varðar að framfylgja þessum ákvæðum verðlagslaga er varða auglýsingar og reglugerð á þeirra grundvelli. Auglýsinganefndin taki á sviði auglýsinga, eins og frv. gerir ráð fyrir, við hlutverki Verðlagsráðs sem er skipað níu mönnum. Reyndar er nefndinni ætlað að gegna verulega víðtækara hlutverki varðandi auglýsingar en Verðlagsráði þar eð byggt er á fleiri ákvæðum í lögum og ítarlegri reglugerð. Nýju ákvæðin munu auka skilvirkni í meðferð auglýsingamála og gera einstaklingum auðveldara að sækja rétt sinn.
    Veigamesta athugasemd Verslunarráðs Íslands varðandi frv. á sínum tíma byggðist raunar á þeim misskilningi að Verðlagsráð og auglýsinganefnd ættu að starfa samhliða að þessum málum samkvæmt frv. Svo er að sjálfsögðu ekki því að auglýsinganefndin mun leysa Verðlagsráð af hólmi að því er auglýsingar varðar ef þetta frv. verður að lögum.

    Samkvæmt j-lið er Verðlagsstofnun ætlað að sinna þjónustuhlutverki við auglýsinganefndina.
    Úrræði auglýsinganefndar skv. k-lið í 1. gr. eru svipuð að eðli og umfangi og úrræði Verðlagsráðs í gildandi lögum, m.a. bann, jafnvel að viðlögðu févíti, krafa um útsendingu leiðréttingar eða viðbótarskýringar og sátt. Það nýmæli felst í ákvæðinu að formaður auglýsinganefndar, sem er lögfræðingur, eða starfandi formaður geta bannað auglýsingu til bráðabirgða ef hún er ekki talin vera í samræmi við ákvæði laga eða reglugerðar. Þetta er hægt að gera með vissum skilyrðum og þá um stuttan tíma. Sé vafi á ferðum mundi formaður eða starfandi formaður kalla nefndina saman í stað þess að grípa til bráðabirgðabanns. Ekkert mundi banna nefndinni eða formanni hennar að birta skriflegt rökstutt bann opinberlega. Reynslan hefur sýnt að birtingin ein gæti reynst áhrifarík.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hæstv. efh.- og viðskn. Vænti ég þess að þar komi fram við athugun frv. hugsanlegar athugasemdir um einstök atriði, t.d. um vald formanns nefndarinnar, sem menn geta auðvitað haft ýmsar skoðanir á, en að þessi vinna gangi þó þannig að unnt verði að taka skýra afstöðu til málsins á þessu þingi. Ákvæði frv. hafa fyrst og fremst þann tilgang að vernda betur hagsmuni neytenda, einkum barna, og stuðla enn frekar en nú er gert að heilbrigðri samkeppni á auglýsingamarkaði.