Verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 14:32:00 (165)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Örstutt um þetta frv. Ég hef að vísu ýmislegt við að athuga en ætla að leyfa mér að gera aðeins tvær athugasemdir hér þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um málið. Þær athugasemdir sem ég vil gera á þessu stigi varða h-lið 1. gr. sem verður 52. gr. en hann hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Ábyrgðin á því að ákvæðin í lögum þessum og reglugerð á grundvelli þeirra séu haldin hvílir á auglýsanda, semjanda auglýsingar eða auglýsingastofu og útgefanda, eiganda fjölmiðils eða birtingaraðila.``
    Framsögumaður tjáði okkur að hér væri um nýmæli að ræða þar sem tekið væri skýrt á því hver beri ábyrgð. Ég tel þvert á móti að hér komi alls ekki skýrt fram hver ber ábyrgð. Hér er einn allsherjar hrærigrautur þar sem segja má að allir sem koma nálægt auglýsingunni beri ábyrgð.
    Í mínum huga á aðeins einn aðili að bera ábyrgð og það hlýtur að vera birtingaraðilinn. Að öðrum kosti gengur dæmið ekki upp. Það er birtingaraðilinn einn sem tekur um það lokaákvörðun hvort viðkomandi auglýsing er birt eða ekki og þar með á hann náttúrlega að bera ábyrgðina.
    Hin athugasemdin sem ég vildi að kæmi fram og var einnig fylgt úr hlaði sem nýmæli er k-liður 1. gr. sem verður 55. gr. og hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Telji formaður auglýsinganefndar eða starfandi formaður hennar að auglýsing sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara getur hann bannað hana til bráðabirgða. Skal bannið gilda þar til auglýsinganefnd kann að hnekkja því en fellur þó niður eftir viku hafi nefndin ekki tekið afstöðu.``
    Ég tel alveg útilokað að einn maður geti farið með slík völd. Það tjón sem maður með slík völd getur valdið er ómetanlegt og ómælanlegt. Við þekkjum það vel að auglýsingar geta verið settar fram með tilteknum tímatakmörkunum. Það getur verið að verið sé að auglýsa viðkvæma vöru sem aðeins hefur til að mynda viku líftíma eða annað slíkt og ef einn maður á að hafa slík völd að geta stöðvað það þá er það óbætanlegt. Ég tel því að þetta sé óviðunandi og þessu verði að breyta í meðförum nefndarinnar.

    Þetta eru þær athugasemdir, hæstv. forseti, sem ég vildi koma á framfæri á þessu stigi málsins. En eins og ég sagði hér í upphafi þá hef ég ýmislegt við þetta frv. að athuga og er ekki tilbúinn að leggja blessun mína yfir það eins og það er hér lagt fram.