Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:35:00 (168)

     Jón Helgason (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Eins og okkur hv. alþm. er kunnugt voru á sl. vori gerðar miklar breytingar á þingsköpum Alþingis sem við sáum fyrir að hefðu breytingar í för með sér á starfsháttum hér. Að vísu hefur það síðan gerst að sumt í framkvæmd þeirra hefur komið okkur stjórnarandstæðingum nokkuð á óvart. Nú gerist það að einn hv. stjórnarþm. kveður sér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða við ráðherra sinn. Það er málefni sem við hingað til höfum talið að ætti að ræðast inni á þingflokksfundum. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort við megum reikna með því að í vetur verði þingflokksfundir stjórnarliðsins færðir inn í þingsalinn.