Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:37:00 (170)

     Guðmundur Árni Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna málefna St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og þeirrar afdráttarlausu viljayfirlýsingar Hafnfirðinga, Garðbæinga og íbúa Bessastaðahrepps sem nú liggur fyrir í þeim efnum. Staðfest eru sjónarmið 10.322 íbúa þessara sveitarfélaga, 18 ára og eldri. Með undirskriftum þeirra er lögð áhersla á að tryggður verði áfram deildaskiptur rekstur sjúkrahússins og þannig að þjónusta verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Þessi undirskriftasöfnun fór fram sl. laugardag og sunnudag að tilhlutan 50--60 félagasamtaka í Hafnarfirði og nærsveitum. Af þessum ríflega 10.000 undirskriftum eru alls 8.168 úr Hafnarfirði. Það þýðir að um 8 af hverjum 10 íbúum Hafnarfjarðar hafa undirritað þessa áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar.
    Ég tel nauðsynlegt að undirstrika alvöru þessa máls hér og nú í þingsölum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er gerð tillaga um helmingsniðurskurð á rekstrarfé til St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Nái þær tillögur fram að ganga hefur rekstrargrundvelli sjúkrahússins verið kippt undan því. Hér er með öðrum orðum ekki um að ræða tillögur til sparnaðar eða hagræðingar, heldur áform sem virðast miða að eðlisbreytingu á starfsemi þessarar stofnunar þannig að henni verði breytt í hjúkrunardeild fyrir aldraða langlegusjúklinga. Þeim hugmyndum hefur verið mótmælt af öllum hlutaðeigandi aðilum, bæði fagfólki sem og leikmönnum. Nú síðast með þessum undirskriftum með svo afdráttarlausum og skýlausum hætti.
    Sannleikurinn er sá að heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði hefur verið byggð upp markvisst og skipulega á löngum tíma með fagleg sem og fjárhagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Þar hefur tekist gott samstarf milli aðila og stofnana í heilbrigðisþjónustu, m.a. milli Sólvangs, sem gegnir mikilvægu hlutverki á sviði öldrunarþjónustu, Hrafnistu, heilsugæslustöðvarinnar, heimahjúkrunar, heimilishjálpar, verndaðra þjónustuíbúða fyrir aldraða og síðast en ekki síst Jósefsspítala sem að mörgu leyti gegnir lykilhlutverki í þessu þéttriðna neti.
    Til St. Jósefsspítala hefur löngum verið litið sem fyrirmyndarsjúkrahúss í faglegu sem fjárhagslegu tilliti. Forsvarsmenn St. Jósefsspítala, bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, sem skipa meiri hluta stjórnar sjúkrahússins, sem og Hafnfirðingar almennt eru vissulega reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum til aukins sparnaðar og hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu. Í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld í þessu landi er vafalaust hægt að ná landi hvað varðar rekstur St. Jósefsspítala eins og aðrar þjónustustofnanir. Öðru máli gegnir um eðlisbreytingar á starfsemi sjúkrahússins eins og óhjákvæmilegar eru miðað við óbreytt fjárlagafrv. Ekki verður unað við slík og þvílík áform.
    Ég spyr því hæstv. heilbrrh. hvort ekki megi treysta því að áfram verði unnið að lausn þessa máls í þeim anda sem ég hef hér áður lýst og sem svo skýlaust kemur fram í þeim undirskriftum sem fyrir liggja og voru afhentar hæstv. forseta þingsins og hæstv. heilbrrh. fyrir nokkrum mínútum.
    Menn eiga nefnilega að hreinsa arfann og annað illgresi í garðinum sínum en láta ósnertar eða í besta falli hlúa að rósunum rauðu í fullum blóma.