Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:40:00 (171)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Það hafa orðið miklar breytingar í sjúkrahúsþjónustu sl. 10--20 ár. Meðallegutími hefur á þessum tíma lækkað úr 15 dögum og allt ofan í 8--9 daga. Mikið af aðgerðum hefur færst af legudeildum yfir á göngudeildir og af spítölum í læknastofur úti í bæ. Öll tækniþróun er í þá átt að draga úr þörf fyrir almenn sjúkrarými en auka þörfina í staðinn fyrir vistunarrými aldraðra og endurhæfingarpláss.
    Það er fyrir löngu orðið tímabært að endurskoða skipulag sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og fyrrv. heilbrrh. vann m.a. að því. Ég beiti mér fyrir því nú, m.a. vegna

þess að það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að þjóðfélagið hefur ekki lengur nægt fé til þess að borga fyrir óbreytta starfsemi og ef ekkert verður að gert mun það verða til þess að menn verða í enn ríkara mæli en nú er orðið að draga úr þeirri þjónustu sem sjúkrahúsakerfið veitir. Nú eru á höfuðborgarsvæðinu 100 sjúkrarúm sem ekki eru í notkun árið um kring og ef heldur fram sem horfir mun þeim fara fjölgandi. Það er því eðlilegt af öllum ástæðum að hugað sé að endurskipulagningu á sjúkrahúsaþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu.
    St. Jósefsspítali í Hafnarfirði er einn af spítölunum á þessu svæði. Ég hef óskað eftir því að hafa samstarf við forráðamenn þessarar sjúkrastofnunar, eins og annarra á svæðinu, um endurskipulagningu og óskaði eftir því á fundi með þeim að þeir gerðu sjálfir tillögu um breytingar á skipulagi og starfsháttum spítalans. Á fundi sem ég átti með forráðamönnum St. Jósefsspítala fyrir nokkrum dögum féllust þeir á að gera slíkar tillögur og báðu um 10 daga frest til þess að skila þeim. Sá frestur er um það bil að líða. Ég á von á því að eiga fund með forráðamönnum sjúkrahússins innan örfárra daga. Þar vænti ég þess að fá tillögur forráðamanna sjúkrahússins um breytingar á rekstri sjúkrahússins St. Jósefsspítala í Hafnarfirði með það að markmiði að ná góðum árangri í sjúkrahúsarekstri fyrir það fé sem þjóðin getur varið til þeirra hluta.
    Ég tel ekki eðlilegt, virðulegi forseti, á þessari stundu að tjá mig frekar um þetta mál. Ég vil eiga samstarf við forráðamenn þessa sjúkrahúss eins og ég á nú samstarf við forráðamenn bæði Landakotsspítala og Borgarspítala um sömu hlutina. Ég vil að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði taki fullan þátt í þeirri skipulagsbreytingu sem verið er að gera á höfuðborgarsvæðinu en verði þar ekki einhver afgangsstærð. Til þess að svo geti orðið þurfa stjórnendur spítalans að eiga samvinnu við heilbrrh. Þeir hafa lofast til þess og ég treysti því.