Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:44:00 (172)

     Árni M. Mathiesen :
     Virðulegi forseti. Það hlýtur öllum að vera ljóst að við stöndum frammi fyrir miklum útgjaldavanda í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. Þennan vanda þarf að leysa ef heilbrigðiskerfið á að geta þróast á eðlilegan hátt og veitt þegnunum það öryggi sem við öll kjósum. Þessi vandi verður hins vegar ekki leystur með sífellt meiri samþjöppun stofnana og miðstýringu þannig að í landinu verði aðeins tveir spítalar sem rísi undir nafni og þeir verði ríkisspítalar staðsettir í Reykjavík eins og fram hefur komið í tillögum hæstv. heilbrrh. Sú hagræðing og sá sparnaður sem nauðsynlegur er mun aðeins eiga sér stað með samstarfi sjálfstæðra stofnana sem veita hver annarri aðhald með samanburði og samkeppni.
    Mál St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði er um margt sérstætt. Afstaða ráðuneytisins er furðuleg en ráðuneytið lét eins og um ríkisspítala væri að ræða sem það gæti skipað fyrir. En eins og þingheimur veit er spítalinn sameign Hafnfirðinga og ríkisins. Það er því afar undarlegt, svo að jafnvel vekur tortryggni, að ekkert samráð virðist hafa verið haft við bæjarstjórn eða bæjarstjóra fyrr en tilskipun um niðurskurð barst til stjórnenda spítalans. Það er þó ánægjuefni að hæstv. heilbrrh. virðist nú hafa ákveðið að endurskoða fyrri áætlanir og hefur óskað eftir samráði við stjórnendur spítalans. Það ber vott um að barátta stjórnenda spítalans og yfir 10 þúsund Hafnfirðinga, Garðbæinga og íbúa Bessastaðahrepps er að skila árangri.
    Það er enda í hæsta máta óeðlilegt að á tímum þegar hagræðing og sparnaður eru hvað nauðsynlegust sé spítalinn sem hvað hagkvæmast er rekinn og einna lengst hefur náð í hagræðingu skorinn niður við trog. Á meðan fá aðrir spítalar 10--15% hækkun á framlögum á milli ára. Það læðist að manni sá grunur að þessari hugmynd hafi skotið upp kollinum á síðustu stundu þegar 120 millj. vantaði upp á að settu marki um niðurskurð væri náð. Að þetta hafi verið eins konar afgangsstærð í bókhaldi ráðuneytisins. En ég ætla að láta hæstv. heilbrrh. vita það hér og nú að Hafnfirðingar, Garðbæingar og íbúar Bessastaðahrepps eru ekki og verða aldrei einhver afgangsstærð og þeirra málstað verður haldið fram við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi.