Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 13:51:00 (174)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil svara því strax sem spurt var hér um af síðasta ræðumanni að þessi áform varðandi þennan sérstaka spítala voru kynnt í þingflokkum stjórnarflokka. Ég vil líka nefna það og ítreka að það er áríðandi að menn missi ekki sjónar af þeim áformum um hagræðingu og sparnað í heilbrigðiskerfinu sem okkur er öllum nauðsynlegt að ná fram ef heilbrigðiskerfið á að standast. Hæstv. heilbrrh. hefur þegar beitt sér fyrir aðgerðum varðandi lyfjakostnað. Hann sætti miklum árásum og gagnrýni vegna þeirra aðgerða sinna, meira og minna órökstuddum og úr lagi færðum. Það hefur komið á daginn að heilbrrh. hafði rétt fyrir sér og hefur þegar sparað stórkostlegar fjárhæðir fyrir landsmenn, án þess að tefla hagsmunum sjúklinga í tvísýnu. Nú er komið að því að hagræða á sjúkrahúsum líka og það er nauðsynlegt að líta til sjúkrastofnana hér á svæðinu í heild. Ég hygg að allir sem þekkja til og ræða málið málefnalega átti sig á því að það er óhjákvæmilegt ef ná á fram hagræðingu að horfa til þessara stofnana sem heildar. Ég vek líka athygli á því að hæstv. heilbrrh. lagði sérstaka áherslu á það að hann vildi gera þetta í

góðu samstarfi við hagsmunaaðila hér á svæðinu og ég veit að hann hefur þegar átt viðræður við forráðamenn stóru spítalanna hér og þar eru áform vel á veg komin. En við vitum líka, það þekkja menn, að það er ekkert auðsótt mál eða létt að sameina sjúkrahúsin hér eða ná fram hagræðingu í sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið reynt. Það hefur ekki gengið. En ég vænti þess og hef trú á því að sá maður sem nú gegnir embætti heilbrrh. sýni það að hann nái slíku fram og hann á minn fulla stuðning við það.