Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:02:00 (178)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Mér finnst þetta nokkuð undarleg málsupptekt. Eins og hér hefur verið bent á þá er þetta málefni sem átti að sjálfsögðu að útkljást í þingflokkum stjórnarliðsins og mér finnst það bera vott um nokkurn Pílatusarþvott hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að taka málið upp með þessum hætti sem hann gerir hér við flokksbróður sinn. Hann er einn helsti áhrifamaður Alþfl., vonarstjarna og væntanlegur formaður þess flokks, og ætti sannarlega að hafa aðstöðu til þess innan Alþfl. að hafa áhrif á stefnuna og koma vitinu fyrir hæstv. heilbrrh., flokksbróður sinn.
    Þetta mál kemur til umræðu og kemur hér til kasta Alþingis við afgreiðslu fjárlaga. Við þá afgreiðslu getur þingheimur tryggt áframhaldandi rekstur þessa vel rekna spítala í Hafnarfirði og það er sjálfsagt að gera þá kröfu til þeirra aðila sem hafa þekkingu og skilning á málinu í stjórnarliðinu að þeir taki saman höndum við okkur stjórnarandstæðinga sem höfum þekkingu og skilning á málinu til þess að tryggja áframhaldandi rekstur hins vel rekna sjúkrahúss þarna í Hafnarfirði.