Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:11:00 (181)

     Guðmundur Árni Stefánsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. svör hans við spurningu minni sem var í þá veru hvort ekki mætti treysta því að áfram yrði unnið að þessu máli í þeim anda að St. Jósefsspítali bjóði um ókomna tíð upp á sambærilega þjónustu og þar hefur viðgengist. Ég vil í tilefni orða hv. þingmanna hér, um tilefni þessarar umræðu, varpa því fram við hið háa Alþingi hvort það telji það ekki ástæðu umræðu um mikilvægt mál af þessu tagi þegar á ellefta þúsund kjósendur, umboðsmenn þeirra í þessum sal, hafa lýst yfir vilja sínum og skýlausum skoðunum til tiltekinna mála, að það útheimti ekki hálftíma af mikilvægum tíma þingsins. Það var mín hugsun fyrst og síðast og ég læt liggja milli hluta pólitískan bófahasar hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar og einhvers konar samsæriskenningar á þeim væng.
    Af því að hér var beint spurt vil ég láta það koma skýlaust fram og þarf auðvitað ekki að segja það að vitaskuld var sá sem þetta mælir á móti öllum lausum og föstum hugmyndum um eðlisbreytingar á starfi Jósefsspítala á öllum stigum og stundum. Meira þarf ekki um þau mál að segja. Efni málsins er St. Jósefsspítali og heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði og á því svæði. Og í tilefni að því að menn hafa hér velt upp þeim punkti að Hafnarfjörður sé hluti af höfuðborgarsvæðinu vil ég minna á að hér í Reykjavík starfar samstarfsnefnd um sjúkrahúsin sem Hafnfirðinar eiga enga aðild að. Ég vil líka minna á að Hafnfirðingar hafa byggt upp sína heilbrigðisþjónustu og það umdæmi allt, Garðabæ og Bessastaðahrepp, algerlega sjálfstæðir. Af hverju á að breyta því núna án þess að nokkur gild rök komi fyrir? Ég minni á að það er vandi hér á ferð í Reykjavík, 100 rúm ónotuð eins og hæstv. heilbrrh. kom inn á. Það er líka vandi hvað varðar langlegudeild fyrir aldraða hér í Reykjavík. Þessi vandamál eru ekki í Hafnarfjarðarumdæmi. Hvers vegna að yfirfæra þau þangað þegar menn vilja þar leggja sitt af mörkum með liðstyrk allra fagmanna, með liðstyrk bæjaryfirvalda og annarra sem hlut eiga að máli? Ég segi enn og aftur: Við skulum fara í nákvæma skoðun á heilbrigðiskerfinu og öðrum þjónustuþáttum sem leiða til hagræðis og sparnaðar en við skulum láta það í friði þar sem hagrætt er og sparað.