Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:14:00 (182)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Hér hefur farið fram gagnmerk umræða sem er fyrirboði stærri hluta en svo að ástæða sé að stöðva upplýsingastreymi til þingsins alveg strax. Ég vil vekja athygli á því að forseti hefur reynt að hafa hemil á ræðumönnum með stöðugum bjöllusöng. Að mínu viti hefur sá tími sem bjöllusöngurinn hefur hljómað verið tekinn af rétti þeirra, sem í salnum sitja, til þess að mega gera hér athugasemdir. Því ef þeir ræðumenn sem hér hefðu talað og hefðu hlýtt strax hefði verið möguleiki á að fá svör við sumum þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Það er gjörsamlega vonlaust að una því að jafnskýr maður og skarpur til allrar karlmennsku og hv. 17. þm. Reykv. sitji nú límdur við stólinn en svari ekki þeirri einföldu spurningu sem til hans var beint. Var þetta mál tekið fyrir til efnislegrar afgreiðslu í þingflokki Alþfl? (Gripið fram í.) Hér hefur ekki komið fram svar frá formanni Alþfl. Hins vegar setti mann hljóðan við að átta sig á því að forsrh. skyldi fróðari um afgreiðslur Alþfl. en formaður flokksins. Þess vegna óskum við eftir úrskurði hv. 17. þm. Reykv. og hann sýni nú af sér skörungsskap og svari þeirri spurningu: Var þetta mál tekið til efnislegrar afgreiðslu í þingflokki Alþfl.?