Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:25:00 (191)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Mér sýnist í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað vera til athugunar að endurskipulagning í heilbrigðismálum nái inn á fleiri stofnanir en bara sjúkrahúsin. Sú ástæða, virðulegi forseti, sem er fyrir því að verið er að skoða endurskipulagningu á sjúkrahúsarekstri á Íslandi, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða faglega ástæðu. Sú faglega ástæða er að mikil breyting hefur orðið í sjúkrahúsþjónustu sl. 15--20 ár. Það er full ástæða til að skoða skipulag sjúkrahúsþjónustu á Íslandi í ljósi þess. Síðari ástæðan er fjárhagsleg. Hún er sú að í þeirri efnahagskreppu sem við nú lifum höfum við ekki lengur fjármuni til þess að auka við þjónustu eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum og til þess að geta varðveitt það þjónustustig sem við höfum í dag verðum við að gera skipulagsbreytingar. Ef við gerum það ekki þá eru ekki nema tveir kostir í boði. Annar er sá að við greiðum verulegan hluta af kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins með erlendum lántökum. Það held ég að menn telji ekki vera rétt. Hinn kosturinn er sá að neyðast til að halda áfram í auknum mæli á þeirri braut sem við höfum verið á, með öðrum orðum að loka stöðugt fleiri sjúkrarúmum. Þau sjúkrarúm sem lokuð eru á Íslandi eru engum til gagns.
    Virðulegi forseti. Hæstv. fyrrv. heilbrrh. gerði ítrekaðar tilraunir í þessum efnum m.a. með því að leggja til svokallaðan flatan niðurskurð til sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þá risu menn upp til harkalegrar gagnrýni, stjórnendur sjúkrahúsa, og sögðu við hæstv. fyrrv. heilbrrh. að slíkar tillögur væru ástæðulausar, slíkar tillögur væri ekki hægt að framkvæma, menn yrðu að manna sig upp í það og hafa kjark til að benda á tiltekin viðfangsefni sem yrði að breyta. Það erum við að gera nú. Umræddar tillögur í fjárlagafrv. eru að sjálfsögðu tillögur ríkisstjórnar og stjórnarflokka til hv. Alþingis. Það er síðan Alþingi sem þarf að afgreiða málið og þann tíma sem eftir lifir þangað til sú afgreiðsla fer fram verðum við að nýta vel til þess að reyna að ná samkomulagi við stjórnendur sjúkrahúsa um óhjákvæmilegar aðgerðir og ég ítreka, þessar aðgerðir eru óhjákvæmilegar. Við flýjum ekki undan þeirri staðreynd. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ég á nú mjög gott samstarf við forsvarsmenn sjúkrahúsanna í Reykjavík um skipulagsbreytingar og óska eftir því að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði verði aðili að þeim skipulagsbreytingum. Ég treysti því að forráðamenn spítalans muni innan fárra daga hittast á fundi í heilbrrn. þar sem við munum ræða þeirra eigin tillögu um lausn málsins.