Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:30:00 (192)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég bar nokkrar spurningar fram fyrir hæstv. heilbrrh. og mér þykir leitt að hann skuli ekki hafa svarað þeim. Ég verð þess vegna að endurtaka þær. Ég spurði í fyrsta lagi hvort það væri meining hans að ganga því aðeins til breytinga á St. Jósefsspítalanum að samkomulag næðist um það við forráðamenn spítalans eins og það er orðað í grg. fjárlagafrv. Í öðru lagi benti ég á að ef þessum sparnaði á að ná sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. þá er bersýnilegt að taka verður til hendinni strax. Það verður ekki gert fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd. Það þýðir að þessi nýja starfsemi verður ekki allt næsta ár í gangi. Þess vegna verður kostnaður við spítalann á næsta ári hvað sem öðru líður meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Það er augljóst að þar mun verða miklu meiri kostnaður, upp á nokkra tugi milljóna kr. Hvað hyggst heilbrrh. gera í þeim efnum?
    Mér finnst að úr því að við höfum tekið þessa umræðu hér í dag um St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði sé nauðsynlegt að þau atriði komi einnig fram sem ég innti eftir fyrr

í dag. Mér sýndist að heilbrrh. hefði þá tekið eftir spurningum mínum en svo virðist því miður ekki hafa verið og þess vegna neyðist ég til þess að endurtaka þær, virðulegi forseti.