Sveitarstjórnarlög

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 15:19:00 (200)


     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Það kemur glögglega í ljós að flm. hafa eins og margir áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur á landsbyggðinni undanfarin ár og um alllangan tíma. Þeirra tillaga til þess að sporna við fæti að einhverju leyti er sú að færa sveitarfélögin saman með tilteknum hætti. Eins og hæstv. félmrh. vék hér að áðan eru komnar fram tillögur frá nefnd sem í raun og veru hefur komist að sömu niðurstöðu en telur aðra tillögu betri sem er sú að í stað þess að færa sveitarfélögin saman í gegnum landshlutasamtök verði það gert með beinni sameiningu sveitarfélaga. Báðar þessar leiðir sýnast mér stefna að sama marki, vinna að því að gera þessar félagslegu heildir stærri og kraftmeiri. Ég bendi hins vegar á að það er niðurstaða og álit þeirrar nefndar sem samdi nýútkomna skýrslu fyrir hæstv. ráðherra að hún telur ekki þá leið færa að fækka sveitarfélögum niður í 20--30 á einu bretti. Ég hygg því, og ég deili ekki við nefndarmenn um það eftir að þeir eru búnir að fara um allt land, að það verði of erfitt verkefni að ætla sér að knýja það fram með fortölum og löggjöf.
    Ég hygg að við getum samt nálgast þessa æskilegustu niðurstöðu nefndarinnar í gegnum þriðju leiðina, ef svo má orða það. Það væri þá í gegnum héraðsnefndirnar sem eru í dag um 20 talsins. Það eru núna um það bil fimm ár síðan Alþingi breytti lögum þannig að stofnun héraðsnefnda var lögboðin. Þó svo að þær séu raunverulega ekki lögformlegur samstarfsvettvangur sveitarfélaga hefur það samt gerst á þessum fimm árum að þróunin hefur verið sú að sveitarfélögin hafa verið að færa sig saman og taka upp samstarf í gegnum héraðsnefndir. Þetta er þróun sem að mínu viti hefur tekið of langan tíma, en hvað um það. Hún er þrátt fyrir allt komin það langt á veg að hér eru að verða nokkuð burðugar stjórnsýslueiningar.
    Ég nefni sem dæmi að á Vestfjörðum eru í raun og veru þrjár héraðsnefndir sem eru nokkuð misjafnlega langt komnar í sínu samstarfi, en mér heyrist að sýnu lengst sé komin héraðsnefnd Vestur-Barðstrendinga og þar eru áform um miklu nánara samstarf. M.a. hef ég heyrt af því að þeir áformi að taka upp samstarf um það að halda innan síns svæðis þeim kvóta sem þar er og jafnvel samstarf líka um að reyna að kaupa inn á svæðið fiskveiðiheimildir.
    Ég held að það sem við gerum núna eigum við að byggja á því sem komið er þannig að við fáum sem eðlilegasta þróun í framhaldi af þeim farvegi sem málin eru í í dag. Ég held að við gætum og ættum að skoða það vandlega í athugun á þessu frv. hvort ekki væri farsælt að lögbinda héraðsnefndirnar sem samstarfsvettvang sveitarfélaga og byggja þá framtíð upp í gegnum þær nefndir fremur en landshlutasamtökin sjálf. Ég held að við náum frekar þeim markmiðum sem við stefnum að og þeim markmiðum sem svo ágætlega er lýst í frv. þeirra þingmanna Framsfl.
    Þetta vildi ég láta koma fram á þessu stigi en að öðru leyti vísa ég til ræðu hv. 4. þm. Austurl. sem gerði ágætlega skil og grein fyrir okkar afstöðu í því máli.