Íþróttakennsla í framhaldsskólum

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 13:39:00 (211)

     Flm. (Hermann Níelsson) :
     Virðulegi forseti. Tillaga sú sem ég mun nú kynna fjallar um málefni sem vissulega varðar okkur öll og ristir að mínu mati dýpra í samfélaginu en mörgum kann að þykja við fyrstu sýn eða við skyndikynni. Tillagan snertir íþróttakennslu í framhaldsskólum, líkamsrækt og heilsuvernd almennings og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ráðherrum heilbrigðis- og menntamála að:
    a. láta kanna að hve miklu leyti íþróttakennsla í framhaldsskólum miðist við að gera nemendur hæfari til að stunda holla hreyfingu (trimm) að eigin frumkvæði og taka þannig ábyrgð á eigin heilsurækt að námi loknu,
    b. láta kanna hvaða áhrif aukin þátttaka hins almenna borgara í líkamsrækt (trimmi) geti haft á sparnað við rekstur heilbrigðisþjónustunnar í landinu.``
    Greinargerðin með tillögunni skýrir, að vísu í stuttu máli, aðdraganda málsins en ég tel þó rétt að nefna í nokkrum orðum hvaða forsendur undirritaður hefur til umfjöllunar um málið.
    Undirritaður starfaði sem íþróttakennari í tvo áratugi og sá m.a. um menntun leiðbeinenda á íþróttabraut framhaldsskóla, tilraunakenndi nýtt námsefni við Menntaskólann á Egilsstöðum sl. vetur sem vitnað er til í greinargerðinni og var í trimmnefnd ÍSÍ 1977--1988, verkefnisstjóri trimmdaga 1986 undir kjörorðunum ,,heilbrigt líf --- hagur allra`` og stundaði framhaldsnám við Íþróttakennaraháskólann í Stokkhólmi með valgrein almenningsíþróttir.
    Virðulegi forseti. Þá ætla ég að leyfa mér að víkja að greinargerðinni.
    Haustið 1990 lagði námsstjóri í íþróttum framhaldsskóla fram nýtt námsefni til bóklegrar kennslu að norskri fyrirmynd. Námsefnið nefnist: Þjálfun, heilsa, vellíðan. Með samræmdri, fræðilegri kennslu í tengslum við íþróttakennsluna er stigið stórt skref í þróun og aðlögun hennar að þörfum nútímans.
    Fram að þessu hefur kennslan miðast við iðkun íþrótta og hollrar hreyfingar. Það hefur hins vegar komið í ljós að fjöldi nemenda öðlast ekki nægjanlegt sjálfstraust og kunnáttu til að halda áfram þeirri iðkun á eigin vegum að námi loknu. Hið nýja námsefni hefur þegar skilað árangri í þessum efnum samkvæmt könnun námsstjóra og lofar því góðu verði það tekið til kennslu í öllum framhaldsskólum landsins.

    Eigi hið nýja námsefni og fyrirkomulag íþróttakennslunnar að ná tilgangi sínum og skila þeim árangri sem til er ætlast verða kennslutímarnir að nema annaðhvort 3 x 40 mínútum á viku eða 2 x 60 mínútum. Bóklega námið fer fram í einum tíma, annar tíminn er nýttur til verkefna úr námsefninu sem nemendur stjórna sjálfir --- að sjálfsögðu undir leiðbeiningu kennara --- og þriðji tíminn til hefðbundinnar íþróttakennslu. Að sjálfsögðu verður skiptingin önnur ef um 2 x 60 mínútur er að ræða.
    Flestir framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa tekið upp þetta nýja fyrirkomulag að einhverju eða öllu leyti. Mikið skortir þó á að svo sé í Reykjavík enn sem komið er. Vinna þarf markvisst að því að allir framhaldsskólar landsins bjóði nemendum sínum umrætt nám.
    Læknavísindin hafa með rannsóknum og könnunum sl. áratugi talið sannað að ef einstaklingur leggur reglulega stund á líkamsrækt og er sér meðvitaður um gildi heilbrigðra lífshátta fyrir heilsufar sitt þurfi hann síður á þjónustu heilbrigðisstofnana að halda.
    Hér á landi hefur almennur áhugi á íþróttum og útivist aukist verulega. Fjölmargir Íslendingar hafa réttan skilning á nauðsyn líkamsþjálfunar í fyrirbyggjandi heilsuvernd. Íþrótta- og ungmennafélögin í landinu hafa mörg hver stuðlað að þátttöku almennings í trimmi þótt þau starfi að stærstum hluta að íþróttauppeldi æskufólks og búi íþróttafólk sitt undir keppni í hinum fjölmörgu íþróttagreinum sem stundaðar eru.
    Fjöldi líkamsræktarstöðva býður fólki góða aðstöðu og leiðbeiningar til iðkunar hollrar hreyfingar og sveitarfélög hafa byggt íþróttamannvirki, t.d. til skokks og skíða- og sundiðkana, sem fólk nýtir sér sannarlega, að ógleymdum íþróttahúsunum og öðrum mannvirkjum. Auðveldara er nú fyrir hinn almenna borgara að stunda líkamsrækt við hæfi ef hann vill hugsa um eigin heilsu.
    Þrátt fyrir jákvæða þróun þessara mála er viðurkennt að fjöldi fólks nýtir sér ekki þá aðstöðu sem býðst af einhverjum ástæðum. Ef til vill vantar fleiri valkosti.
    Í nágrannalöndum okkar hafa hin frjálsu íþróttasamtök innan sinna vébanda sérsambönd sem einbeita sér að útbreiðslu almenningsíþrótta, bæði með eigin starfsemi og með því að fá sérsambönd keppnisíþrótta til samstarfs um þennan þátt. Einnig hafa þau stuðlað að fjölbreyttu íþróttastarfi meðal starfsfólks á vinnustöðum og annarra hópa og samtaka sem hafa aðild að eða önnur tengsl við slíkt sérsamband almenningsíþrótta. Á þennan hátt ná fjöldasamtökin inn á flest heimili með hvatningu sína og tilboð til fólks um holla hreyfingu og heilbrigða lífshætti. Það má geta þess að þetta íþróttastarf meðal starfsfólks á vinnustöðum hefur þróast yfir í það að starfsfólkið hittist eftir vinnutíma í verkefni þar sem það kemur með sínar fjölskyldur.
    Töluverð umræða hefur farið fram innan Íþróttasambands Íslands sl. 10--15 ár um stofnun sérsambands eða samtaka um almenningsíþróttir en því hefur ávallt verið slegið á frest.
    Stjórn ÍSÍ skipaði trimmnefnd árið 1971 sem síðan hefur haldið málefnum almenningsíþrótta á lofti og unnið mikið og þarft starf. Það hefur þó ekki nægt til þess að íþróttahreyfingin tæki skrefið til fulls og leyfði nefndinni að þróast yfir í sérsamband eða samtök með aðildarhópum og beinum tengslum við einstaklinga um allt land.
    Um þessar mundir er vaxandi umræða og áhugi innan Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands og meðal rekstraraðila heilsuræktarstöðva um myndun samtaka til eflingar almenningsíþrótta í landinu. Þarna er um að ræða hreyfingu sem tengst gæti verkefni heilbrigðisráðuneytisins um heilbrigði allra árið 2000 en Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sett ríkjum heims það markmið til að stefna að.
    Alþingi Íslendinga hlýtur að fagna þessari þróun til eflingar heilbrigði þjóðarinnar og ber að stuðla að henni á allan hátt.
    Markhópurinn, sem ég á við með því að flytja þessa tillögu, sem þetta mál snýst um eru allir þeir einstaklingar sem ekki æfa og keppa með íþróttafélögum né sækja líkamsræktarstöðvar reglulega eða sjá sér fyrir hollri hreyfingu á annan hátt. Þetta mál miðast við að í boði verði fjölbreyttari valkostir fyrir fólk á öllum aldri. Um er að ræða málsvara iðkenda sem ekki endilega eru félagar í íþróttafélögum. Um er að ræða samnefnara sem flytur upplifun þeirra sem reynslu hljóta til byrjenda og hugsanlega er verið að skapa starfsemi sem læknar geta e.t.v. ávísað á í stað lyfja, dugi holl hreyfing og félagsskapur í slíkum tilvikum.
    Virðulegi forseti. Í gær fór ég með hv. þm. fjárln. í heimsókn til endurhæfingarstöðvar fyrir unga eiturlyfjaneytendur í Krýsuvík. Starfsfólkið þar vinnur stórkostlegt starf af mikilli hugsjón og ósérhlífni. Heimsóknin var eins konar sjokk fyrir mig, að kynnast hinu ógæfusama unga fólki sem við berum vissulega ábyrgð á. Þarna er um ákveðna endastöð fyrir þetta unga fólk að ræða. Væri okkur ekki nær að efla það fyrirbyggjandi starf, t.d. í íþrótta- og æskulýðsmálum, sem í flestum tilfellum forðar börnum frá böli vímuefna. Starf að almenningsíþróttum beinist einnig að börnum og unglingum, sérstaklega þeim sem ekki eru verndaðir við æfingar og keppni íþróttafélaganna eða við annað hollt félagsstarf.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.