Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 15:13:00 (216)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Nú fer að líða að því að teknar verði ákvarðanir sem geta verið þær afdrifaríkustu frá því að íslenska lýðveldið var stofnað. Fyrir lok þessa mánaðar, jafnvel á næsta mánudegi, þann 21. október, getur orðið ljóst hvort íslensk stjórnvöld með utanrrh. í broddi fylkingar ætla að ganga að afarkostum Evrópubandalagsins varðandi Evrópskt efnahagssvæði. Það hefur raunar margoft komið fram að Alþfl. telur ekkert því til fyrirstöðu að Ísland verði aðili að Evrópsku efnahagssvæði, nánast án fyrirvara. Það kemur mér þess vegna ekkert á óvart að ríkisstjórnin ætlar nú að ganga að samningum um Evrópskt efnahagssvæði þó allt sé málið langtum herfilegra en þegar upp var lagt fyrir tveimur og hálfu ári. Við skulum samt muna eftir því að samningspakkinn stóri, blaðsíðurnar 11.000, eiga eftir að koma fyrir Alþingi og það gætu orðið þung spor fyrir marga hv. stjórnarliða að lögfesta efni þeirra á einu bretti eins og þeir Viðeyjarfóstrar munu krefjast.
    Segja má að íslensk stjórnvöld hafi þegar með yfirlýsingu í mars 1989 og í síðasta lagi á miðju sumri 1990 ákveðið að fallast á að lögfesta hér á landi reglur Evrópubandalagsins og Rómarsáttmálans á sviði fjórfrelsisins svonefnda. Frá því í nóvember 1990 hefur verið ljóst að Ísland gæti ekki vænst þess að fá neina umtalsverða fyrirvara í EES-samning nema e.t.v. varðandi fjárfestingar í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Í stuttu máli felst í fjórfrelsinu að landamæri verða afnumin milli landanna 19 sem mynda eiga Evrópskt efnahagssvæði að því er varðar fjármagn, þjónustu og vöruviðskipti. Einnig er hluti af því sú regla að fólk á svæðinu, þ.e. í allri Vestur-Evrópu, fær sama rétt til að stofna fyrirtæki og kaupa fasteignir, þar með talið land án tillits til þjóðernis.
    Ef Ísland gengur í EES verðum við hluti af svæði þar sem 360 millj. manna hafa sama rétt og ekki er leyfilegt að mismuna á nokkurn hátt eftir ríkisborgararétti. Það er sem sagt verið að steypa allri Vestur-Evrópu í eina efnahagsheild og Ísland eins og önnur EFTA-ríki afsalar sér mikilvægum þáttum af sjálfsákvörðunarrétti sínum í hendur fjölþjóðlegs valds og yfirþjóðlegra stofnana. Þeir sem ákafastir eru í því að gera þennan samning líkt og þeir Viðeyjarbræður virðast reiðubúnir að ganga enn þá lengra, þ.e. að gera að Ísland að hluta af stórríkinu sem verið er að mynda í Vestur-Evrópu með gömlu nýlenduveldunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi, sem þungamiðju. Því auðvitað stöðva menn sig ekki af í Evrópsku efnahagssvæði heldur ganga alla leið á fáum árum inn í sjálft Evrópubandalagið fái þeir Davíð og Jónarnir ráðið ferðinni. Ráðamenn í öðrum EFTA-ríkjum eru nógu hreinskilnir til að viðurkenna að EES verður í besta falli tjald til einnar nætur og varla ætla menn Íslandi að bera uppi súlurnar tvær og standa eitt síns liðs undir kostnaði við skriffinnskubákn og stofnanir sem á að setja á fót samkvæmt ákvæðum þessa samnings.
    Það er athyglisvert að sjálfstæði Íslands og aldalöng barátta kvenna og karla í þessu landi virðist ekki skipta núverandi valdhafa miklu máli. Iðnrh. fyrrv. og núv. ríkisstjórnar gekk jafnvel svo langt strax í fyrra að nú þyrfti að endurskilgreina hugtakið ,,sjálfstæði`` og það munaði raunar minnstu að hann endurtæki þjóðminjasafnsræðu Gylfa Þ. frá viðreisnarárunum sælu.
    Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að kjarni þessa máls snýst um flest annað en fisk þó að annað mætti ætla af málflutningi stjórnmálamanna og flestra fjölmiðla. Þeir snúa öllu á haus og gera fiskinn og óverulegar tollalækkanir að aðalatriði. Meginatriði EES-samningsins eru, eins og fram hefur komið, lög og reglur sem varða innri markað Evrópubandalagsins. Tollaniðurfellingar á sjávarafurðum geta ekki og mega ekki ráða afstöðu manna til þessa stórmáls. Þær skipta sáralitlu á móti því sem er á hinni vogarskálinni, en það er afsal á ákvörðunarrétti þjóðarinnar og mikilvægustu stjórntækjum í efnahagsmálum Íslendinga. Það er verið að hengja okkur eins og viljalaust verkfæri aftan í vagn sem stjórnað er af kommissörum í Brussel.
    Við skulum líta á örfá dæmi sem varða afleiðingarnar af því að lögfesta hér fjórfrelsið svokallaða. Vinnumarkaðurinn á Íslandi verður galopinn fyrir öllum þegnum Vestur-Evrópu. Þeir mega leita hér starfa nema í vissum störfum í opinberri þjónustu alveg til jafns á við Íslendinga. Verkalýðsfélög fá engan umsagnarrétt um það hvort ráða má útlendinga til starfa eins og nú er réttur þeirra. Ég gef ákaflega lítið fyrir þær fullyrðingar sem hæstv. utanrrh. var með hér áðan um að Íslendingar gætu sjálfir ákveðið alla fyrirvara að því er þetta varðar. Hingað til hefur verið talað um að þarna megi einungis grípa inn í ef um verulega röskun væri að ræða á íslenskum vinnumarkaði og það eru þá alveg nýjar fréttir ef einhver breyting hefur orðið þar á. Það er a.m.k. ekki neitt um það í þeim samningsdrögum sem liggja fyrir frá Brussel að því er séð verður. Þarna verð ég að fá nánari skýringar á því hvenær megi grípa inn í því að það kemur mér mjög á óvart að Íslendingar hafi þarna allan rétt. Og mér kemur raunverulega mjög á óvart hversu andvaralaus verkalýðshreyfingin er í þessu máli hér á landi því ég tel að þarna geti verið mjög mikið í húfi, ekki bara varðandi samningsstöðu verkalýðsfélaganna gagnvart atvinnurekendum, heldur einnig um félagslega stöðu samtaka launafólks í heild.
    En þá er það frelsi fjármagnsins. Fjármagnseigendur í Vestur-Evrópu fá hér óskoraðan rétt til jafns við okkur til að setja á fót og kaupa fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífsins nema hvað reyna á að halda fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða utan seilingar. Útlendingar fá þannig að gerðum þessum samningi enn rýmri rétt en lögfestur var af fyrri ríkisstjórn sl. vetur til að kaupa sig inn í íslenskt atvinnulíf hvort sem um er að ræða ferðaþjónustu, iðnfyrirtæki og fullvinnslu sjávarafla svo eitthvað sé nefnt. Mér kemur raunar á óvart að fyrrv. forsrh. skuli ekki gera sér grein fyrir því að löggjöfin, sem lögfest var hér á síðasta þingi, fellur auðvitað meira og minna um sjálfa sig ef af þessum samningum verður.
    Það er jafnframt viðurkennt af þeim sem gerst þekkja til að skýr undanþága í sjálfum texta EES-samningsins að því er varðar fiskveiðar mun ekki duga til að halda útlendingum frá þessari undirstöðu íslensks efnahagslífs. Útlendingar fá einnig óskoraðan og hömlulausan rétt til að stofna hér banka og kaupa hlut í bönkum og setja á fót önnur fjármálafyrirtæki. Þetta er auðvitað sjálfsagður hlutur í fjórfrelsinu. Hvers kyns þjónusta og þjónustuviðskipti verða einnig jafnaðgengileg útlendingum eins og okkur sjálfum og auðvitað fá Íslendingar, sem yfir fjármagni ráða, að leika sér um víðan völl EES allt frá Gíbraltar og Eyjahafi norður að Nordkapp. Aðrar auðlindir landsmanna en þær, sem er að finna í hafinu, eru á þessu veisluborði fjármagnsins þótt talað sé um að skerma þær af með löggjöf. Þetta getur átt við um landið sjálft, hlunnindi af ýmsum toga og jafnvel orkulindirnar, þetta gæti fallið áður en langt um líður undir fjórfrelsið. Við skulum minnast þess að fjölþjóðlegur EES-dómstóll skipaður EB-dómurum að meiri hluta á að skera úr um ágreiningsefni og hann getur og á raunar að þurrka út íslenskan lagabókstaf ef litið er svo á að hann stangist á við lögmálið sjálft, þ.e. fjórfrelsið. Það nægir að minna hér á dóma EB-dómstólsins í fiskveiðimálum á sl. sumri og nú síðast þann 4. október þar sem breskri löggjöf, sem átti að vernda þjóðlega hagsmuni breskra sjómanna, var blásið út í hafsauga af dómurum í Lúxemborg.
    Hæstv. utanrrh. hélt því fram hér áðan að það væri nægilegt að setja inn í íslenska löggjöf ýmislegt sem mundi tryggja rétt Íslendinga. Ég vil minna hann á þessa dóma og túlkun á því að það muni vera mjög erfitt að setja lög sem hugsanlega gætu stangast á við hið margumtalaða fjórfrelsi og rétt allra þeirra 360 milljóna sem búa á þessu svæði. En þeir sem eru þeirrar trúar að Íslendingar eigi ekki að vera að burðast við að stjórna sér sjálfir standa auðvitað að þessum samningi, en ég á bágt með að trúa því að meiri hluti Íslendinga vilji slást í þá för.
    En er þetta þá ekki allt saman réttlætanlegt út á svokallaða fríverslun með fisk sem var stóra baráttumálið og raunar pólitískur aðgöngumiði að EES í byrjun? Með því að samþykkja fríverslun hefðu allir tollar verið felldir niður auk þess sem þjóðirnar hefðu ekki lengur getað styrkt sinn sjávarútveg eins og nú er gert. EB féllst auðvitað ekki á þessa kröfu, enda mundi hún kollvarpa öllu styrkjakerfi bandalagsins á sjávarútvegssviðinu.
    Þá var gerð krafa um tollfrjálsan aðgang að mörkuðum EB fyrir sjávarafurðir og mér heyrðist áðan að hæstv. utanrrh. teldi að þessi krafa væri enn af hálfu Íslands á borðinu. En þetta vill EB heldur ekki fallast á og hefur margoft komið fram. Það eina sem þeir vilja fallast á á þessu sviði eru einhverjar tollaívilnanir á óunnum eða lítt unnum fiski sem er auðvitað algerlega óviðunandi. Ég skildi ekki þann kafla ræðu hæstv. utanrrh. þegar hann talaði um að það væri lífsspursmál fyrir okkur að fá þennan samning vegna þess að þá mundum við geta aukið fullvinnslu á sjávarafurðum okkar þegar það liggur ljóst fyrir að EB mun ekki vilja samþykkja fullt tollfrelsi. Þetta fannst mér einkennilegt að bera hér á borð fyrir okkur þegar hitt er alveg ljóst að EB mun ekki fallast á tollfrjálsan aðgang okkar vara, því miður.
    Ég vil einnig minna á það að hæstv. sjútvrh. sagði hér í sumar að ekki kæmi til greina að semja við EES nema fullt tollfrelsi fengist.
    En það er ekki svo að EB vilji veita smá tollaívilnanir fyrir ekki neitt. Þeir vilja í staðinn fá veiðiheimildir innan íslenskrar landhelgi. Undanfarin ár hefur það verið krafa EB að fá veiðiheimildir innan landhelginnar og það hefur mikið verið rætt hér, bæði í þessum ræðustól og annars staðar, og það hefur verið fullyrt að Íslendingar muni aldrei fallast á að fyrir aðgang að mörkuðum komi aðgangur að auðlindum. Síðan hefur verið reynt að breyta þessu þannig að nú sé talað um gagnkvæmar veiðiheimildir. Það eru bara blekkingar því þá er auðvitað verið að veita aðgang að auðlindinni fyrir aðgang að mörkuðum og ekkert annað og það er hvergi hægt að sjá það erlendis í neinum plöggum að þarna sé verið að tala um neitt annað en að Íslendingar hafi nú loksins gefið sig og hleypt skipum EB inn í landhelgina.
    Í umræðunum um EES hefur því þráfaldlega verið haldið fram að við hefðum ekki um annað að velja en gerast aðilar að EES, annars mundum við einangrast frá Evrópu. Þetta er auðvitað eins og hver önnur firra. Það er miklu meiri hætta á einangrun ef við erum innan tollamúra EB heldur en fyrir utan. Við höfum mikla möguleika sem sjálfstæð og fullvalda þjóð ef rétt er á málum haldið. Við eigum mjög verðmætar auðlindir og við höfum mikla möguleika á því að selja okkar vörur, bæði á Evrópumarkaðnum og ekki síður á öðrum mörkuðum, bæði Bandaríkjamarkaði og mörkuðum í Asíu, t.d. í Japan. Þeir geta orðið okkur mikilvægir og eins markaðir í Austur-Evrópu.
    Það er erfitt að skilja þann málflutning sem heyrist víða að ekki muni okkur takast að selja eina einustu bröndu upp úr sjó ef ekki verður af EES-samningi.
    Það var eitt atriði sem mig langaði til að spyrja hæstv utanrrh. að. Nú sé ég að

hann hefur vikið sér frá. Ég verð að láta það bíða örlítið en mig langaði til að gera hér að umtalsefni það sem hann vék að í lok ræðu sinnar að hér væri verið með einkennilegan málflutning, það væri áróður í fjölmiðlum og það væri verið að bera á borð fyrir fólk rangar upplýsingar. Mig langaði til að benda honum og öðrum á að það er ekki rétt sem mikið hefur verið rætt um, að Norðmenn séu nánast allir fylgjandi aðild. Það var haldinn blaðamannafundur í Ósló í gær þar sem voru, eftir því sem mér telst til, milli 50--60 forsetar bæjarstjórna eða sveitarstjórna á vesturströnd Noregs. Þeir sendu undirskriftalista þar sem þeir skrifuðu undir og kröfðust þess að norska ríkisstjórnin féllist ekki á það að yfirráð Norðmanna yfir auðlindinni yrðu minnkuð. Þeir vildu ekki fallast á það að útlendingum yrði veitt heimild til fjárfestingar í norskum sjávarútvegi og fleiri atriði m.a. um norsk lög sem þeir töldu að nauðsynlegt væri að setja varðandi ýmis atriði sem þeir lögðu áherslu á, t.d. varðandi fiskveiðar. Það er því langt í frá að það séu einungis nokkrar hræður á Íslandi sem setja sig gegn þessum samningum. Ég vil benda alþingismönnum á úr því að hæstv. utanrrh. sér sér ekki fært að vera hérna í salnum á það að fólk um allt land hefur mjög miklar áhyggjur af því að nú séu stjórnvöld að glutra niður sjálfstæði þjóðarinnar. Er engin leið að hæstv. utanrrh. geti verið í salnum? Ég veit að ég hef mjög takmarkmaðan tíma og þess vegna finnst mér erfitt að þurfa að nota tíma minn í að tala hér án hans. ( Forseti: Hæstv. ráðherra mun hafa verið kallaður fram í síma, en ég hef gert ráðstafanir til að láta ná í hann.)
    Ég vildi benda hæstv. utanrrh. á jafnframt sem ég vildi benda öllum hv. alþm. á það að fólk um allt land hefur verulegar áhyggjur af því að stjórnvöld séu að glutra niður sjálfstæði þjóðarinnar og leggja það í rúst sem fyrri kynslóðir hafa barist fyrir. Fjöldi fólks um allt land er að safna undirskriftum þar sem skorað er á ríkisstjórnina að hætta við þessa samninga en ef undir samninga verður skrifað, þá er jafnframt skorað á ríkisstjórnina að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að fólkið geti sagt álit sitt á þeim samningi. Þessar undirskriftir hafa gengið sérstaklega vel og vil ég nefna sem dæmi að í Rauðasandshreppi skrifuðu nær allir sem eru á kjörskrá í hreppnum undir áskorunina og á Patreksfirði hafa um 200 manns hafa skrifað undir og á Tjörnesi, í Aðaldalshreppi og í Ljósavatnshreppi hafa yfir 70% þeirra sem eru á kjörskrá hafa skrifað undir. Það sama er að segja um Landeyjahrepp, Breiðdalshrepp og fleiri og fleiri þannig að það er greinilegt að fólk í landinu er að átta sig á því að ekki er allt sem sýnist.
    Það sem mig langar til að gera líka að umtalsefni er þetta plagg sem hæstv. utanrrh. virðist sem betur fer vera búinn að lesa eitthvað í, þetta gula plagg sem er frá Samstöðu um óháð Ísland, þar sem hann sagði ef ég tók rétt eftir að þar væri í hverjum einasta punkti misskilningur, útúrsnúningur og ég held að hann hafi notað líka rangfærslur. Og til þess að gefa ykkur hugmynd um hvað þarna stendur --- ég ætla að vísu að sjá til þess að alþingismenn fái þetta í sín hólf þannig að þeir geti sjálfir lesið þetta, en mig langaði til að lesa hérna eitt, með leyfi forseta, einn af þessum punktum sem er misskilningur, útúrsnúningur eða rangfærsla, eitthvað af því.
    ,,Íslendingar hafa alla möguleika á að laga sig að breytingum í Evrópu sem annars staðar eftir því sem nauðsynlegt er talið. Við getum tekið upp fjölmargt jákvætt úr löggjöf og stefnu annarra landa, t.d. á sviði efnahagslífs, umhverfisverndar og neytendamála, án þess að afsala fullveldi okkar.`` --- Það væri fróðlegt að vita hvað er rangt við þetta. Síðan kemur næsta og hann er kannski mjög á móti því:
    ,,Við ráðum yfir gjöfulum sjávarauðlindum og framleiðum eftirsóttar vörur sem geta verið undirstaða góðra lífskjara. Við eigum að leita hagstæðra viðskipta við sem flesta en binda okkur ekki við eitt markaðssvæði.`` Ég get líka tekið einn punkt í viðbót:
    ,,Í EES-aðild fælist stórfelld skerðing á sjalfsákvörðunarrétti þjóðarinnar og Íslendingar mundu afsala sér mikilvægum stjórntækjum í atvinnu- og efnahagsmálum. Því er það sjálfsögð krafa að þjóðin sé spurð um afstöðu til aðildar að EES í almennri atkvæðagreiðslu.`` --- Menn geta sjálfsagt haft skoðun á því hvort þarna felist stórfelld skerðing á sjalfsákvörðunarrétti. Þeir sem þetta skrifa eru þeirrar skoðunar. Og síðan kemur einn punkturinn í viðbót:
    ,,Að margra mati mun EES-dómstóll geta dæmt ómerka fyrirvara og lög þjóðríkja ef þau fela í sér ákvæði sem stríða gegn grundvallarhugmyndinni um að allir þegnar svæðisins hafi sama rétt til atvinnu, fjárfestingar og stofnunar fyrirtækja.`` --- Þetta gæti t.d. átt við um rétt til fjárfestingar til kaupa á landi og varðandi nýtingu náttúruauðlinda.
    Það er ekkert rangt í þessu. Þetta er mat margra og þó að mat utanrrh. sé eitthvað annað, þá er þetta ekki nein vitleysa. Það eru mjög margir sem telja þetta. Af þessu tilefni langar mig til að benda á það að hæstv. utanrrh. hefur margoft haldið því fram, t.d. við skólafólk, að til þess að Íslendingar geti átt rétt á að ganga í skóla í Evrópu, þá þurfi þeir að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Allir háskólar í Evrópu muni annars lokast. Og ef allt sem sagt er varðandi aðra þætti þessa máls eru eins miklar rangfærslur og varðandi skólamálin, þá er illa komið.
    Það er aðeins eitt í viðbót vegna þess að hæstv. utanrrh. sagði að það væri mjög auðvelt fyrir alþingismenn og almenning að fá upplýsingar um þessi mál, þá vil ég benda á það að maður nokkur hringdi upp í utanrrn. og spurði hvar hann gæti náð í upplýsingar. Honum var vísað á að það væri hægt að fara niður í Alþingi og fá upplýsingar þar, það væri búið að gefa út bók sem hægt væri að fá upplýsingar um, þannig að það er þá fyrst og fremst frá Alþingi sem hægt er að fá upplýsingar en ekki frá utanrrn.