Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 15:52:00 (218)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Hér hefur talsvert verið rætt eins og gefur að skilja um þennan

samning um Evrópskt efnahagssvæði og ég fæ ekki betur heyrt, og reyndar ekki í fyrsta sinn, en að það vefjist nokkuð fyrir mönnum hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði snúist um fisk eða ekki um fisk, hvort hann snúist jafnvel um eitthvað allt annað. Og það er kannski ekki furða vegna þess málflutnings sem haldið hefur verið uppi af stjórnarliðum um alllangt skeið.
    Fyrir liggur að fiskur var ástæðan sem upp var gefin af stjórnvöldum þegar af stað var farið. Þegar af stað var farið í þessar samningaviðræður þá var það fiskurinn sem upp var gefinn. Þá sögðu ýmsir og þar á meðal kvennalistakonur að það væri hægt að fara einfaldari leið, það væri hægt að fara þá leið að ná tvíhliða samningum við Efnahagsbandalagið um endurbætur á þessari svokölluðu bókun 6, það væri hægt að fara þá leið og þeirrar skoðunar voru fleiri hér í þinginu. Ástæðan fyrir því að við lögðum þetta til var sú að ef maður ætlar sér að kaupa sófa, þá fer maður ekki og leitar að húsi, þá kaupir maður ekki hús. Og það finnst mér einmitt vera það sem stjórnvöld eru að gera núna. Þau eru að kaupa hús þegar þau vantar sófa.
    Þegar þarf að markaðssetja þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði, þá er fiskur aðalatriðið, þá er lögð áhersla á þessa tvo milljarða sem fást í niðurfellingu tolla, á þá vaxtarmöguleika sem skapast fyrir íslenskan fiskiðnað við þennan samning, þ.e. fiskur er aðalatriðið þegar þarf að markaðssetja samninginn. Þetta er sóknaraðferð hæstv. utanrrh. og annarra. En þegar þarf að réttlæta samninginn, þegar þarf að réttlæta að það komi ekki allt það út úr samningnum sem til stóð að fá, þá er fiskurinn ekki aðalatriðið, þá er hann ekki lengur aðalatriðið heldur þetta viðskiptaumhverfi sem samningurinn felur í sér, þá er það aðalatriðið. Með öðrum orðum er það varnaraðferðin sem hæstv. ráðherrar nota.
    Það liggur fyrir og það hafa margir bent á það hér í þessari pontu að Evrópubandalagið er ekki til viðræðu um frjálsan og takmarkalausan aðgang með fisk á markað sinn. Þær hugmyndir sem nú liggja í loftinu hjá Evrópubandalaginu og hafa verið settar fram af framkvæmdanefnd þess er að tollar verði felldir niður, m.a. af saltfiski og skreið og ýmsum slíkum vörum. Þessi tollaniðurfelling mun líklega nema um 1 milljarði ef við miðum við árið 1990 og þetta er um 50% af þeim tollum sem við nú greiðum til Efnahagsbandalagsins sem þeir virðast ætla að fallast á að fella niður miðað við núverandi hugmyndir.
    Vaxtarbroddurinn í íslenskum fiskiðnaði er ekki í saltfisknum. Hann er í útflutningi, m.a. á ferskum flökum og fiskréttum og það verður engin breyting á þeim tollum samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum. Fersk flök bera áfram þann toll sem þau bera í dag. EB ætlar með öðrum orðum ekki að hleypa okkur inn á smásölumarkaðinn þar sem við getum selt fiskinn sem hágæðavöru. Við eigum öðru fremur að vera hráefnaframleiðendur hér eftir sem hingað til.
    Ráðherrar í núv. ríkisstjórn hafa margir hverjir gefið út skýlausar yfirlýsingar um að ekki komi annað til greina en hindrunarlaus og tollfrjáls aðgangur að markaði EB með sjávarafurðir. Þorsteinn Pálsson hefur m.a. nú nýverið látið hafa slíkt eftir sér í útvarpi. Þar sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Kjarni málsins er sá að við höfum ekki hag af þessum samningum fyrir okkur nema við fáum tollfrjálsan aðgang fyrir sjávarafurðir. Annars er ekki jafnvægi í samningnum á milli okkar og Evrópuþjóðanna og jafnvægið hlýtur að vera forsenda fyrir því að við getum átt þarna aðild að.``
    Hæstv. iðnrh. tók í svipaðan streng í útvarpi ekki alls fyrir löngu. Þá sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Fiskurinn er okkar iðnaðarvara. Við verðum að fá hindrunarlausan aðgang að Evrópumarkaði fyrir okkar unnu vörur. Annað kemur ekki til greina.``
    Ég mundi ætla að það þyrfti ekki fleiri orð um þetta mál, þ.e. samningurinn miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir kemur ekki til greina. En ég hef samt efasemdir um að þessi fögru fyrirheit haldi og þær efasemdir fæ ég m.a. úr stefnuræðu hæstv. forsrh., sem því miður er ekki í salnum eins og stendur.
    Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni, með leyfi forseta: ,,Með EES-samningum er verið að samræma umferðarreglur atvinnulífsins innan Vestur-Evrópu. Það er skoðun mín að EES-samningurinn muni ótvírætt veita íslenskum fyrirtækjum aukið svigrúm og skapa þeim fleiri tækifæri jafnframt því sem aukin samkeppni íslenskra fyrirtækja við erlenda

keppinauta mun koma íslenskum neytendum til góða.
    Raunar er mikilvægt að íslensk fyrirtæki búi sig undir aukna samkeppni.`` Og svo segir forsrh.: ,,Niðurfelling tolla á íslenskum sjávarafurðum mundi hafa í för með sér augljósa hagsbót.`` Með öðrum orðum er niðurfellingin orðin eins konar viðbit með öllu hinu. Hún er ekkert aðalatriði lengur. Þess vegna hef ég efasemdir um það að fögur fyrirheit, um frjálsan markaðsaðgang sem algert skilyrði, haldi.
    Það kom líka fram í ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan að það væri ástæða til þess að ætla að þetta haldi ekki. Hann sagði að það væri ekki aðalatriðið að brjóta tollana á bak aftur. Hann sagði: Það er aðalatriði að brjóta á bak aftur tengingu markaðsaðgangs og veiðiheimilda. Það er aðalatriði að brjóta á bak aftur tolla á unnum sjávarafurðum þannig að ekki sé hægt að halda okkur sem hráefnaframleiðendum. Þetta sagði hæstv. utanrrh. áðan og þó að ég hefði gjarnan viljað að hann gengi lengra í sínu máli, þá hlýt ég samt sem áður að taka þessi orð hans þannig að hann muni ekki setja stafina sína undir samning samkvæmt þeim hugmyndum sem framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins hefur lagt fram vegna þess að þar felst engin niðurfelling á tollum á unnum sjávarafurðum. Og ég ætla að leyfa mér að treysta því að orð hæstv. utanrrh. héðan úr pontu muni standa þegar hann kemur á erlenda grund nú eftir helgi.
    Menn hafa talað nokkuð hér um fyrirvara sem settir hafi verið þegar farið var af stað í þessa samninga og þá fyrirvara sem eftir standi núna. Og margir tala nokkuð um að allir fyrirvarar sem Íslendingar gerðu við upphaf samningaviðræðna séu nú dottnir út. Ég er ekki þeirrar skoðunar í sjálfu sér að allir þessir fyrirvarar séu nú dottnir út heldur miklu fremur er ég þeirrar skoðunar að þessir svokölluðu fyrirvarar hafi alla tíð verið mjög óljósir og opnir. Það kann vel að vera að það hafi átt sér stað einhver umræða í ríkisstjórninni þar sem þessir fyrirvarar hafi verið þrengdir, en fæst okkar hafa þá verið vitni að því og það eina sem maður getur haldið sér í er það sem sett var á blað.
    Hér hefur verið vitnað í ræðu Steingríms Hermannssonar, þáv. forsrh., sem hann flutti þegar af stað var farið í þessar viðræður og ég verð að segja að þegar ég les það sem þar stendur, þá finnst mér vera þar á ferðinni óraunsætt mat á eðli Efnahagsbandalagsins og eðli viðræðnanna um Evrópska efnahagssvæðið. Í ræðu þáv. hæstv. forsrh. segir: ,,Með þetta í huga verð ég að leggja áherslu á að af Íslands hálfu á fyllsta mögulega framkvæmd samstarfsins fyrst og fremst við frjálsa verslun með varning. Hins vegar verðum við að hafa fyrirvara hvað varðar frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga. Hið litla og viðkvæma íslenska peningakerfi verður að styrkja og gera virkara en það er nú áður en unnt er að samþykkja fullt frelsi fjármagnshreyfinga.``
    Nú get ég út af fyrir sig tekið undir þessi orð fyrrv. hæstv. forsrh. En ég hef ekki og hef aldrei haft neina trú á því að hægt sé að fara í viðræður við Efnahagsbandalagið á svona grundvelli. Auðvitað er hægt að gera fyrirvara og það á að slá varnagla, en það er ekki hægt að borða bara skrautið af kökunni, því miður. Eðli Efnahagsbandalagsins er slíkt að það hefði aldrei komið til álita, held ég, af þeirra hálfu að gera samning á þessum nótum.
    Fyrirvararnir voru settir líka á blað í hefti sem gefið var út af utanrrn. í október 1990 og þeir eru, með leyfi forseta, þessir:
    Fjárfestingar erlendra aðila tengdar náttúruauðlindum verði takmarkaðar, varnaglaákvæði varðandi frjálsan atvinnurétt og ekki verði slakað á settum kröfum um öryggi, hollustuhætti og umhverfisvernd.
    Í mínum huga eru þessir fyrirvarar hvorki ítarlegir né afmarkaðir og því er skoðun mín sú að samningamenn Íslands hafi í sjálfu sér ekki gengið lengra en við er að búast miðað við gefnar forsendur. Hins vegar, og það blasir við, er að verða æ ljósara æ fleirum hvaða hættur fyrir íslenskt fullveldi og íslenskt efnahagslíf eru á ferðinni í þessum samningi. Menn eru að átta sig á því peningaveldi og því skrifræði sem við er að eiga þegar Efnahagsbandalag Evrópu er annars vegar og ég held að hæstv. utanrrh. sé meira að segja að átta sig á því, það lýsa best tilsvör hans í fjölmiðlum á undanförnum dögum.
    Ólafur Ragnar Grímsson líkti hér áðan sambandi utanrrh. og Efnahagsbandalagsins við ástarsamband og mér finnst hæstv. utanrrh. tala eins og maður sem hefur orðið fyrir vonbrigðum í ástamálum.

    Það sem hins vegar hefur gerst varðandi þessa fyrirvara er að sú tilhneiging er rík að reyna að fara í kringum ýmsa vankanta sem fylgja samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að fara í kringum þessa vankanta eins og köttur í kringum heitan graut, þ.e. festa hlutinn ekki kirfilega niður heldur reyna að komast einhvern veginn fram hjá þeim. Þannig hefur m.a. komið fram að ef við verðum að fella niður fjáröflunartolla vegna þessara samninga, þá munum við bara taka upp vörugjald í staðinn með einhverju ,,smáfiffi``. Ef við þurfum að opna fyrir fjárfestingu útlendinga í fasteignum, þar á meðal í laxveiðiám og bújörðum, eins og hér hefur verið bent á, þá ætla menn bara að setja girðingar í íslensk lög sem kveða á um að menn þurfi að hafa átt búsetu í landinu í tiltekinn árafjölda til þess að geta fjárfest. Það er m.a. eitt af þessum ,,fiffum`` sem verið er að tala um. Menn fullyrða hér að það muni halda og utanrrh. vék m.a. til fordæmis hjá Dönum, Grikkjum og Írum. En hann talaði ekki um mál Breta hér áðan eða það hefur þá a.m.k. farið fram hjá mér.
    Þannig er að það er nýfallinn dómur hjá EB-dómstólnum í máli sem Spánverjar höfðuðu gegn Bretum á þeim forsendum að í breskum lögum væru ýmis ákvæði sem stönguðust á við lög og reglur Efnahagsbandalagsins. Þessi ákvæði eru m.a. þess efnis að menn þurfa að hafa átt fasta búsetu í fimm ár í landinu til þess að eiga hlutabréf í fyrirtækjum sem fjárfesta m.a. í fiskiskipum. EB-dómstóllinn dæmdi Bretum í óhag. Úrskurðurinn var sá að með þessu ákvæði væri íbúum EB mismunað eftir þjóðerni. Það var sem sagt ekki tekið gott og gilt að menn þyrftu að hafa fasta búsetu í landinu vegna þess að í rauninni fælist í því að verið væri að hygla breskum borgurum á kostnað annarra. Að þessu máli vék hæstv. utanrrh. ekki hér áðan og væri athyglisvert fyrir þingmenn að heyra hans mat á því.
    Eitt af því sem upp hefur komið í þessari umræðu um Evrópska efnahagssvæðið eru menntamálin. Ég hef orðið vör við það að margt ungt fólk heldur að það verði sett í átthagafjötra ef ekki semst um Evrópska efnahagssvæðið. Það muni ekki geta sótt sér menntun til Evrópu vegna þess að Ísland verði hálft í hvoru talið utan Evrópu ef það verði ekki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta eru villandi upplýsingar og þetta er hræðsluáróður. Og hann er alvarlegur þessi hræðsluáróður vegna þess að það er verið að reyna að tala ungt fólk inn á málstað með villandi upplýsingum og það finnst mér mjög alvarlegt. Slíkt kom m.a. fram í DV í gær. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Um skólamálin er svipaða sögu að segja og um atvinnumálin. Utan við Evrópskt efnahagssvæði getur orðið erfitt fyrir nemendur í EFTA-ríkjum að fá inni í háskólum ef um biðlistanemendur er að ræða. Innan við svæðið standa þeir jafnfætis um inngöngu en hins vegar liggur jafnrétti í skólagjöldum enn ekki fyrir.``
    Ég hef ástæðu til að ætla það að þær upplýsingar sem þarna koma fram séu fengnar úr utanríkisráðuneytinu og ef svo er, þá lít ég það mjög alvarlegum augum. Málið er það að menntamál og menntastefna er ekki sameiginlegt mál Efnahagsbandalagsins. Það er mál einstakra þjóðríkja, enda eru háskólar meðal styrkustu stoða undir þjóðmenningu einstakra ríkja og þess vegna er þetta mál einstakra ríkja innan Efnahagsbandalagsins. Það breytir hins vegar ekki því að háskólar eru í eðli sínu alþjóðlegir. Orðið sjálft, universitas, bendir til þess að háskólar leggi upp úr því að vera alþjóðlegir, og þeir reyna að hafa sem mest samstarf sín á milli því að það eykur víðsýni og það eykur kraft þessara stofnana. Samstarf háskóla er mikið þeirra á milli og það er oft og tíðum algjörlega án afskipta ríkisvaldsins. Það er á einstaklingsbundnum grunni, nemendur sækja um námsvist, kennarar fara á milli og hafa samband sín á milli, sækja ráðstefnur o.s.frv. Hins vegar er því ekki að neita að alþjóðlegir samningar færast sífellt í aukana á þessu sviði og þessir samningar geta verið um einstök verkefni, þeir geta verið um kennaraskipti og þeir eru í miklum mæli um námsmannaskipti. Þessi námsmannaskipti eru þá í því formi að námsmaður frá einu landi getur sótt hluta menntunar sinnar til annars lands og fengið það metið heima fyrir, þ.e. hann tekur þá kannski missiri eða ár af sínu námi í öðru landi og fær þar ýmsa fyrirgreiðslu þess vegna. Íslendingar eru aðilar að slíkum áætlunum og t.d. hefur verið bent á Comett II og Erasmus-áætlanirnar sem eru áætlanir á vegum Evrópubandalagsins sem EFTA-ríkin hafa þegar gerst aðilar að. Þau hafa þegar gerst aðilar að þessum áætlunum og það verður engin breyting á því með Evrópska efnahagssvæðinu. Og það

sem meira er, það verður eiginlega engin breyting á þessu samstarfi með Evrópska efnahagssvæðinu. Það falla ekki einu sinni niður skólagjöld í Bretlandi með Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir námsmenn hafa átt mjög greiðan aðgang að háskólum bæði vestan hafs og austan og ég held að íslenskir námsmenn hafi gert meira af því en flestir námsmenn t.d. á Norðurlöndunum að sækja til annarra ríkja. Þetta þykir t.d. Dönum mjög merkilegt, hve mikið af Íslendingum sækir menntun sína til annarra ríkja. Ein af ástæðunum fyrir því að þeir hafa gert þetta er að íslenska lánakerfið hefur ,,styrkt`` þá til þess, en að öðru leyti hefur íslenska ríkið ekki haft af þessu nokkurn kostnað. Það hefur ekki haft nokkurn kostnað af menntun þessa fólks. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu.
    Það er engin ástæða til þess að ætla að þessi einstaklingsbundni aðgangur að háskólum verði ekki til staðar áfram. En ef við viljum vera aðilar að formlegu samstarfi og stúdentaskiptum, þá þurfum við auðvitað að kosta einhverju til. Við getum ekki fengið alla hluti fyrir ekki neitt. Mig langar í því sambandi að vísa til rits frá Háskóla Íslands þar sem fjallað er um þessi mál. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Kerfisbundið samstarf háskóla í Evrópu felur í sér aukin tækifæri frá því sem verið hefur. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að leggja í verulegan kostnað eigi þessi tækifæri að nýtast sem skyldi. Það mun því velta fyrst og fremst á okkur sjálfum og því hvernig við skipuleggjum störf okkar hér heima hvað við berum úr býtum við breyttar aðstæður.`` Og þetta er sett á blað óháð umræðu um Evrópskt efnahagssvæði.