Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 16:09:00 (219)

     Björn Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Við erum í töluverðum vanda í þessum umræðum. Það liggur í loftinu að til úrslita dragi í samningaviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði nk. mánudag. Á þessu viðkvæma viðræðustigi er ákaflega erfitt fyrir þá sem að samningunum standa fyrir Íslands hönd að ræða um hin óleystu atriði. Áætlanir hafa verið uppi um það að í dag leggi framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins drög að þessum samningi fyrir fastafulltrúa eða sendiherra aðildarríkja bandalagsins í Brussel. Þeirra hlutverk er síðan að kynna drögin fyrir ríkisstjórnum sínum með því fororði að ráðherrar verði tilbúnir til að taka afstöðu til málsins á mánudag.
    Fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar þess efnis að ekki séu kröfur á hendur okkur um frekari gagnkvæmar veiðiheimildir en rætt var um í sumar eða um að við föllum frá banninu við fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Ef tekið er mið af málatilbúnaði okkar Íslendinga til þessa veltur það þá á því hverjar lyktir verða varðandi kröfuna um tollfrelsi á sjávarafurðum hvort þessi samningur verður gerður af okkar hálfu.
    Þegar fundum Alþingis var frestað hinn 31. maí sl. lá í loftinu að stjórnarandstaðan mundi krefjast aukaþings í sumar ef henni þætti ástæða til vegna samningaviðræðnanna um Evrópska efnahagssvæðið. Að því er ég best veit var ósk um það aldrei sett fram. Þótt Alþingi hafi ekki verið kallað til aukafundar vegna þessa máls í sumar hefur tíminn frá því í lok maí síður en svo verið viðburðalaus.
    Undir lok júní ríkti mikil bjartsýni hér og í Noregi vegna niðurstöðunnar á sameiginlegum ráðherrafundi aðildarríkja EFTA og Evrópubandalagsins í Lúxemborg. Þennan fund sátu utanrrh. og sjútvrh. fyrir Íslands hönd og minnumst við líklega öll yfirlýsinganna sem gefnar voru eftir hann um að lausn á deilunni um verslun með fisk á hinum sameiginlega markaði Evrópuríkjanna væri á næsta leiti auk þess sem unnt yrði að semja við Evrópubandalagið um hóflegar gagnkvæmar veiðiheimildir. Ótrúleg tíðindi virtust hafa gerst. Þau reyndust þó of góð til að vera sönn. Skömmu eftir fundinn í Lúxemborg kom í ljós að þrjár aðildarþjóðir Evrópubandalagsins, Bretar, Frakkar og Írar, höfðu ekki samþykkt niðurstöðuna. Hafði þó fyrrv. ríkisstjórn Íslands með sjálfan forsætisráðherrann í fararbroddi hvað eftir annað vakið máls á því opinberlega að íslenskur málstaður í sjávarútvegsmálum nyti sérstaks skilnings meðal ráðamanna Bretlandi og Frakklandi. Sjálfur forseti Frakklands hafði og gengið fram fyrir skjöldu í málinu þegar hann heimsótti Ísland. Nú sýnast Frakkar hins vegar standa gegn tollfrelsi á fiski vegna umhyggju sinnar fyrir landbúnaðarstefnu bandalagsins.

    Eftirleikurinn eftir fundinn í Lúxemborg sannaði tvennt. Í fyrsta lagi eru ákvarðanir um sjávarútvegmál ótrúlega viðkvæmar á vettvangi Evrópubandalagsins. Þess vegna getur allt gerst í þeim efnum fram til fundarins nk. mánudag. Í öðru lagi eru hugmyndir manna um að innan bandalagsins geti framkvæmdastjórn þess gefið ríkisstjórnunum fyrirmæli byggðar á sandi. Þetta yfirríkjabandalag hreyfir sig ekki hraðar en ríkisstjórnir einstakra aðildarlanda þess ákveða. Úrslitavaldið er þrátt fyrir allt í höndum ríkisstjórna einstakra landa og það kom skýrt fram eftir fundinn í Lúxemborg. Yfirlýsingar utanríkisráðherra Lúxemborgar, sem stjórnaði fundinum fyrir hönd Evrópubandalagsins, um pólitíska samstöðu um lausn á ágreiningi um sjávarútvegsmál í samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið, áttu einfaldlega ekki við rök að styðjast.
    Í sumar birtust í Morgunblaðinu ítarlegar frásagnir af umræðum á aukafundi norska Stórþingsins um Evrópska efnahagssvæðið. Af þeim greinargóðu frásögnum má ráða að norskir ráðamenn voru eins og íslenskir ráðherrar í góðri trú þegar þeir fögnuðu niðurstöðum Lúxemborgarfundarins.
    Þess misskilnings virðist gæta í umræðum um Evrópska efnahagssvæðið hér á landi að það sé Evrópubandalaginu sérstakt kappsmál að gera þennan samning. Ef gengið er til samninga á röngum forsendum er meiri hætta á því en ella að niðurstaðan verði röng. Samningur um Evrópskt efnahagsvæðið er mun meira virði fyrir EFTA-ríkin en Evrópubandalagið.
    Sögu Evrópska efnahagssvæðisins má rekja aftur til 1984. Þá gerðist það á fundi í Lúxemborg að ráðherrar frá ríkjum EFTA og Evrópubandalagsins komu sér saman um að koma á Evrópsku efnahagssvæði með óformlegum hætti, þ.e. með því að stíga skref fyrir skref við úrlausn einstakra mála. Þá varð einnig að samkomulagi að Evrópubandalagið hætti að ræða við hvert EFTA-ríki um sig á tvíhliða grunni en talaði við þau sameiginlega.
    Árið 1985 gaf bandalagið út hvíta bók um sameiginlegan innri markað sinn og setti sér að markmiði að hann kæmi til sögunnar 1. jan. 1993. Þá var ljóst að það þyrfti að skipulagsbinda samstarfið við EFTA ef það ætti að skila árangri. Í ársbyrjun 1989 bauð Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, EFTA-ríkjunum upp á viðræður um hvernig staðið skyldi að framkvæmd mála. Samþykktu leiðtogar EFTA-ríkjanna að ganga til slíkra viðræðna á fundi sínum í Ósló í mars 1989 en í þeim hópi voru hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, og hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson. Um haustið 1989 fékk utanrrh. síðan umboð til að ganga til samningaviðræðnanna. Sjálfstfl. vildi að Alþingi samþykkti þetta umboð en því var hafnað í snörpum umræðum og einnig hinu að huga að tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið með þeim orðum að það væri ekki við hæfi á meðan staðið væri í viðræðum með EFTA-þjóðunum.
    Þessum fjölþjóðlegu viðræðum, sem hófust 1989, er ekki lokið enn þá. Kjarni þeirra er að EFTA-löndin eru að laga sig að sameiginlegum innri markaði Evrópubandalagsins. Í því felst að tekin verða upp frjáls viðskipti með vörur, þjónustu, fjármagn og vinnuafl. Þetta markaðskerfi kemst ekki á nema stofnað sé eftirlits- og réttarkerfi til að tryggja hin frjálsu viðskipti. Þannig má segja að um leið og einstakar þjóðir auka viðskiptafrelsi innan landamæra sinna sætti þær sig við samþjóðleg afskipti af því að þær standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessu felst ekki síst trygging fyrir smáríkin sem eiga aðild að samstarfinu. Þau eiga ætíð að geta skotið ágreiningsmálum til úrskurðar hjá hlutlausum aðila.
    Það er fátt sem bendir til að Evrópubandalaginu sé mikið í mun að gera samning um Evrópskt efnahagssvæði, þvert á móti er auðveldara að færa fyrir því rök að stærstu ríkin innan Evrópubandalagsins sýni málinu ekki nægilegan áhuga og það sé ein helsta ástæða þess hve langan tíma tekur að fá botn í það. Fréttir herma að fyrir embættismenn bandalagsins sé erfitt að koma samningaviðræðunum á dagskrá ráðherrafunda Evrópubandalagsins og takist þeim það sé málið svo aftarlega á dagskránni að allir helstu ráðherrar séu farnir af fundi þegar það kemur til umræðu.
    Þótt þeirri kröfu hafi verið hafnað á sínum tíma af Alþb., Alþfl. og Framsfl. að Alþingi samþykkti umboð fyrir utanrrh. í þessum mikilvægu og langvinnu samningaviðræðum hefur þingið fylgst náið með gangi þeirra. Utanrrh. hefur gefið þinginu skýrslur og málið hefur verið ítarlega rætt endranær svo sem á þingi sl. vor. Þá hefur utanrmn. Alþingis fylgst með hverju skrefi í málinu.
    Í lok júlí ákvað framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að fresta samningaviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði fram á haustið. Töldu margir að í þeirri frestun fælist í raun dauðadómur yfir hugmyndinni um þetta samstarf. Voru gefnar stóryrtar yfirlýsingar um það. Í Morgunbalaðinu 31. júlí sagði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að viðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið væri lokið hvað Ísland snerti. Mér heyrist annað upp á teningnum nú. Nú er bókun 6 allt í einu orðin kjarni þessa máls að mati hv. þingmanns. Á þessum tíma var mín afstaða sú að fyrir Ísland skipti mestu hvað EFTA-ríkin ætluðu að gera, hvort þau vildu rjúfa samstöðuna sem myndast hafði 1984 eða halda áfram að reyna sameiginlega að leita eftir samningum.
    EFTA-ríkin ákváðu að gera a.m.k. eina tilraun enn til að ná samkomulagi. Norðurlönd eru fjögur af sjö aðildarríkjum EFTA og á fundi forsætisráðherra landanna í Reykjavík 12. ágúst var lögð áhersla á að víðtækur samningur um Evrópskt efnahagssvæði væri forgangsatriði allra ríkisstjórna á Norðurlöndunum. Í samræmi við þetta hefur verið unnið áfram að samningagerðinni um Evrópskt efnahagssvæði og nú hefur ný dagsetning fyrir lokatilraun verið ákveðin mánudaginn 21. okt. næstkomandi.
    Samkvæmt heimildum, sem ég treysti vel til að meta gildi slíkra yfirlýsinga um lokafrest í samningum Evrópuþjóða, er ljóst að náist ekki samningur á mánudaginn kemur virðist borin von að það gerist með þeim hætti að Evrópskt efnahagssvæði komi til sögunnar 1. jan. 1993.
    Innan Evrópubandalagsins er hugur manna bundinn við annað en þessa samninga. Þar er rætt um mál sem eru miklu stærri að mati aðildarþjóðanna, svo sem framtíð Júgóslavíu, samskiptin við þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu og samstarf sjálfra aðildarþjóða bandalagsins. Forustumönnum bandalagsins er auk þess ljóst að stærstu EFTA-ríkin eru hvort sem er á leið inn í Evrópubandalagið og þau vilja ekki láta samningaþras um Evrópskt efnahagssvæði tefja fyrir viðræðum um aðildarumsóknir þeirra.
    Undir forustu utanrrh. hefur réttilega verið haldið þannig á málstað Íslands í þessum samningum að allt veltur á því hvort samkomulag tekst um viðskipti með sjávarafurðir án þess að við látum í té veiðiheimildir fyrir aðgang að mörkuðum. Um þessa samningatækni var samstaða í síðustu ríkisstjórn og einnig þeirri sem nú situr. Það er fráleitt að söðla nú um og taka upp aðrar aðferðir þegar málið er á lokastigi.
    Við stjórnarskiptin í vor hafði í raun verið samið um allt sem máli skiptir fyrir okkur annað en sjávarútvegsmálin. Í höfuðdráttum var gengið frá samningum um eftirlitsstofnun og dómstól Evrópska efnahagssvæðisins hinn 19. des. 1990. Í tíð síðustu ríkisstjórnar lá einnig fyrir hvaða ákvæði yrðu í samningunum um rétt manna til kaupa á fasteignum og um flutning á vinnuafli til landsins. Því miður lét landbrh. þeirrar stjórnar undir höfuð leggjast að sinna hagsmunagæslu vegna ákvæða um landakaup en að henni er nú unnið undir forustu hæstv. landbrh. Halldórs Blöndals.
    Töluverðar umræður hafa orðið um Evrópska efnahagssvæðið í sumar. Þar hafa margir dregið upp ákaflega dökka mynd af því hvað samningur um efnahagssvæðið hefði í för með sér. T.d. er því haldið á loft að samningurinn mundi spilla fyrir því að við gætum átt viðskipti við Bandaríkin og Japan, svo tvö mikilvæg viðskiptalönd séu nefnd. Þetta er mikill misskilningur. Við útilokum alls engin viðskipti við þessar þjóðir með samningi við Evrópuríkin. Við afsölum okkur ekki heldur neinum þeim rétti sem tryggir okkur forræði yfir fiskveiðilögsögunni og íslensku landi eða auðlindum. Dómstóll og eftirlitskerfi sem fylgja Evrópska efnahagssvæðinu skerða ekki fullveldisrétt þjóðarinnar. Við getum áfram haft stjórn á flutningi fólks til landsins.
    Talsmenn samtakanna undir furðulega nafninu ,,Samstaða um óháð Ísland`` leggja sig fram um að rugla fólk í ríminu með því að gera engan greinarmun á Evrópska efnahagssvæðinu annars vegar og Evrópubandalaginu hins vegar. Að setja mál sitt fram með jafnóljósum og oft röngum hætti og samtökin hafa gert er ekki til marks um mikla trú á eigin málstað. Það hefur aldrei dugað til lengdar í umræðum um íslensk utanríkismál að treysta alfarið á hræðsluáróður.
    Að mínu mati sýna neikvæðar umræður um Evrópska efnahagssvæðið að einangrunarhyggja á enn hljómgrunn hér á landi. Verði hún ofan á, ef samningurinn um svæðið kemst af borði stjórnarerindrekanna til ákvörðunar hér á Alþingi, mundum við Íslendingar skapa okkur mikla sérstöðu ekki aðeins í Evrópu heldur almennt í samfélagi þjóðanna. Við lifum á byltingartímum þar sem þjóðir árétta í senn sjálfsákvörðunarrétt sinn og vilja til að vinna að brýnum úrlausnarefnum í nánu samstarfi við nágranna sína.
    Að baki Evrópusamstarfinu er hugsjónin um að náið viðskiptasamstarf sé besta leiðin til að tryggja frið og velferð á varanlegum grunni. Þessi hugsun hefur sannað gildi sitt og í henni felst sterkasta stjórnmálaaflið í öllum Evrópuríkjum nú á tímum, afl sem gengur þvert á stjórnmálaflokka og veldur einnig ágreiningi innan þeirra.
    Það er brýnt að samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið ljúki. Þrástaða hefur í raun verið í viðræðunum frá því fyrir þingkosningarnar hér á landi í apríl þegar hæstv. utanrrh. sagði að samið hefði verið um 98% þess sem um væri fjallað í viðræðunum. Afstaða ríkisstjórnar Íslands er skýr og hún byggist á grunni sem lagður var í tíð fyrrv. stjórnar. Þess vegna ætti hún að njóta víðtækari stuðnings en ella.
    Tilraunir stjórnarandstæðinga annarra en þingmanna Kvennalistans til að gera þessa stefnu tortryggilega nú ræðst ekki af málefnum heldur þeirri staðreynd að þeir sitja ekki lengur í ríkisstjórn. Það sæmir ekki að stjórnast af slíku í jafnmikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar og hér er um að ræða.