Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 16:23:00 (220)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Aðeins út af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan þá er ég honum sammála í þeim efnum að það á ekki að breyta um samningatækni. En það er að sjálfsögðu ekki sama um hvað samið er og það er heldur ekki sama hvernig er haldið á þessum málum.
    Ég tel að þeir samningar sem nú standa yfir eigi að sjálfsögðu að hafa það að markmiði að styrkja efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Það er ekkert lítið mál, þótt sumir hafi viljað gera lítið úr því hér í þessum umræðum, að við eigum tollfrjálsan aðgang inn á okkar mikilvægustu markaði og það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir efnahagslegt sjálfstæði okkar. En það er því miður svo að frá því að við skildum við þetta mál á sl. vori hefur margt gengið aftur á bak. Okkur sem í stjórnarandstöðunni störfum finnst oft og tíðum að ráðherrar í núv. ríkisstjórn tali af nokkurri léttúð um þetta alvarlega mál. Mér fannst t.d. hæstv. utanrrh. gera heldur lítið úr því sem um var talað í sambandi við gagnkvæmar veiðiheimildir við Efnahagsbandalagið eins og það væri sáralítið mál. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. eða hæstv. sjútvrh.: Hvað hefur verið unnið á þessu sumri í því máli? Hvernig á að útfæra það mál og þau skipti? Hvernig á að tryggja það að ekki verði þar veitt annað en til stendur? Vegna þess að þar er verið að tala um fisktegund sem við því miður vitum allt of lítið um hvernig eigi að veiða eða um útbreiðslu hennar. Auðvitað geta menn sagt sem svo að þar hafi ekki verið stundaðar nægilegar rannsóknir og það er rétt, en það er erfitt að semja um slíka hluti nema vita nánar um þá. Það er líka staðreynd að það hefur ekki verið hægt að veiða loðnu á svæði utan íslenskrar lögsögu sem við eigum að fá í staðinn og það er mikilvægt að fá upplýsingar um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á þessu máli, sem hæstv. utanrrh. vildi gera heldur lítið úr á sl. vori. Hér er um viðkæmt mál að ræða sem menn verða að fjalla um af fullri alvöru.
    Hæstv. utanrrh. hefur á þessu sumri líka talað heldur óljóst um ýmislegt varðandi landbúnaðarmál. Þá hefur jafnframt komið fram í þeim umræðum sem verið hafa að gætt hefur óhóflegrar bjartsýni hjá hæstv. ráðherrum. Nú geta menn sagt sem svo að þeir hafi verið alveg eins ráðherrarnir í Noregi, eins og kom hér fram hjá hv. 3. þm. Reykv., og þar af leiðandi sé það ekkert óeðlilegt þó að það sé eins hér á Íslandi. Ég hef orðið var við það að allmikill samgangur hefur verið á milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs í þessum efnum. En ég hef nokkrar efasemdir um að það sé mikilvægast fyrir Íslendinga að halla sér upp að Norðmönnum í þessu máli vegna þess að Norðmenn hafa ávallt reynt að hengja sig aftan í Íslendinga að því er varðar sjávarútvegsmálin og viljað fara í kjölfar þeirra. Okkur hefur líka þótt það nokkuð merkilegt hjá hæstv. utanrrh. að hann hefur látið í það skína nú að undanförnu að hann væri orðinn heldur leiður á þessu máli og það hefur komið fram nokkurt áhugaleysi.

    Það er e.t.v. þess vegna sem þjóðin hefur minni og minni trú á þessum samningum. Mönnum hefur með þessum hætti tekist að draga athyglina allmikið frá alvöru málsins sem er vissulega mjög stór. Ég tek undir að það er erfitt að fjalla um þetta mál hér á Alþingi á þessu stigi en það er alveg ljóst að þessir samningar eru okkur því aðeins hagstæðir að samningarnir um gagnkvæmar veiðiheimildir séu ljósir og þeir séu öruggir fyrir hönd okkar Íslendinga. Það skiptir afar miklu máli og við höfum litlar upplýsingar um það hvað gert hefur verið í þeim efnum í sumar. Það skiptir líka öllu máli að okkar markaðsaðgangur sé ótvíræður og við fáum möguleika til að þróa íslenskar sjávarafurðir. Þá hafa ekkert að segja einhverjir útreikningar um það hvernig þetta hefur verið í fortíðinni heldur þarf að fara fram mat á því hvað slíkur samningur mundi gefa okkur í framtíðinni þegar slíkur markaðsaðgangur væri fenginn. Það skiptir meginmáli. Ég vildi því spyrja: Hefur verið unnið að einhverju slíku mati?
    Ég vil ekki eingöngu gera það að umræðuefni hér sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðherrum heldur vildi ég jafnframt segja það að þessir samningar sem nú verður gengið til eru ekki til komnir vegna þess að við Íslendingar höfum sérstaklega beðið um það heldur vegna þeirrar staðreyndar að það hefur verið ákveðið að stofna þennan innri markað Evrópubandalagsins og þar af leiðandi varð að grípa til einhverra ráðstafana í framhaldi af bókun 6. Ég er ekki sammála hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um það að bókun 6 gefi okkur þennan rétt. Það er því miður ekki svo því að fríverslunarsamningurinn fjallar um tollfrelsi á iðnaðarvörum. Bókun 6 fjallar sérstaklega um sjávarafurðirnar og Evrópubandalagið hefur í reynd aldrei viljað viðurkenna það formlega að samtölum um bókun 6 væri lokið. Þar af leiðandi hef ég ekki trú á því, því miður, að hægt sé að reka þetta mál eingöngu með því að krefjast þess að bókun 6 gangi í gildi, það er margoft búið að reyna, og því verður að gera það með öðrum hætti.
    Hitt er svo annað mál að við verðum að sjálfsögðu að vera undir það búin að þessir samningar sigli í strand. Ég ætlast ekki til þess að núv. ríkisstjórn svari því nú hvað þá skuli gera. En núv. ríkisstjórn verður að vita þann hug Alþingis, m.a. þeirra sem í stjórnarandstöðu starfa, að við munum að sjálfsögðu ekki samþykkja hvað sem er. Til dæmis eru þær hugmyndir, sem nú eru uppi á borðinu að því er varðar markaðsaðgang, svo fráleitar að Íslendingar geta aldrei að því gengið. Þetta verður mótaðilum okkar að vera fullkomlega ljóst.
    Ég tel að sú umræða, sem orðið hefur á þessu sumri, hafi á margan hátt verið óheppileg og ónákvæm en mér finnst það ósæmilegt af hæstv. utanrrh. að kenna þar fyrst og fremst öðrum um. Ég tel að þar sé fyrst og fremst um að kenna núv. ríkisstjórn sem hefur fjallað þannig um málið að það hefur ekki vakið traust meðal þjóðarinnar. Það hefur heldur ekki vakið traust margra okkar sem störfum í stjórnarandstöðu en viljum þó af heilum hug standa að baki okkar samningsmönnum sem eru að reyna að ná fram því besta í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vona að það takist, en mér finnst að svona margvíslegt óraunsæi sem hefur komið fram í ummælum íslenskra og norskra ráðherra hafi að sumu leyti skaðað okkar málstað. Að öðru leyti vil ég óska utanrrh. góðs gengis í þessum erfiðu samningum og vona að honum takist að halda þannig á málstað Íslendinga að við getum staðið að því þegar við sjáum þá pappíra líta dagsins ljós.