Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 16:53:00 (224)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Norsku stjórnarskránni var breytt fyrir fáeinum árum þar sem fullveldisákvæði voru skýrð til samræmis við almenna túlkun í þjóðarétti á síðari áratugum. Það hefur ekki fengist fram slík breyting á íslensku stjórnarskránni vegna þess að hún hefur lítið breyst í meginatriðum eins og menn þekkja. Þess vegna er norska stjórnarskráin að því er varðar skilgreiningu á fullveldi að þjóðarétti nútímalegri en sú íslenska. Þar af leiðandi er það svo að ef skoðuð eru grunngögn norsku stjórnarskrárbreytingarinnar og álitsgerðir lögfræðinga um umræðuna nú þá er augljóst að þar telja menn að um sé að ræða skerðingu á fullveldi sem við mættum gjarnan fara yfir og er á sama hátt þrenging á fullveldi okkar vegna þess að samþykkjum við lagabálka hins Evrópska efnahagssvæðis, þá erum við að þrengja okkar lagasetningargetu, vil ég segja í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi er það rangt hjá umhvrh. að ekki sé hægt að gera fjölda tvíhliða samninga við erlenda háskóla hvað sem líður aðildinni að Evrópsku efnahagssvæði. Háskóli Íslands hefur þegar gert tugi slíkra samninga og háskólarektor fyrrverandi hefur látið það koma fram, m.a. við skólaslit Háskólans sl. vor, að það sé í rauninni fjarstæða að reyna að nota aðild og aðgang að háskólum sem rök fyrir því að Íslendingar neyðist til að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði.