Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:27:00 (233)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Þetta andsvar var að mínu mati afskaplega rýrt í roðinu vegna þess að þó að til hæstv. umhvrh. hafi leitað íslenskir námsmenn, af því að þeir fengu ekki aðgang að einhverjum skólum í Danmörku, t.d. verslunarskólum, þarf það ekki að vera vegna þess að einhverjir EB-nemendur séu sjálfkrafa teknir fram fyrir. Þannig er í Danmörku eins og orðið er hér á Íslandi og er að verða í æ ríkara mæli að það komast ekki allir í háskólanám sem það vilja. Fólk kemst ekki ótakmarkað í greinar eins og arkitektúr, í dýralækningar, í læknisfræði o.s.frv. Það eru fjöldatakmarkanir. Og danskir námsmenn mega sjálfir sæta því að komast ekki inn í sína háskóla þegar þeir vilja fara þangað. Þeir mega sæta því að þurfa að vera úti á vinnumarkaði tiltekinn tíma til að vinna sig upp, inn í háskólann. Þetta er því ekki nokkurt einasta svar og engin rök komu hér fram.