Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:28:00 (234)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir þau ummæli sem hér hafa komið fram, m.a. hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að þessi umræða hefur verið mjög gagnleg og réttlætir það að við höfum rætt þetta mál á þeirri stundu að úrslit eru að nálgast. Ég vil hins vegar segja það í fullri vinsemd við hæstv. umhvrh. og hv. þm. Össur Skarphéðinsson að mér fundust þær flokkspólitísku keilur sem þeir voru að reyna að slá hér í umræðunum vera lítt í stíl við það sem flestir þingmenn virtust telja nauðsynlegt að væri kjarninn í þessum umræðum.
    Hæstv. umhvrh. hafði það sem meginstef í sinni ræðu að ég, og væntanlega einnig aðrir forustumenn Alþb., værum með einhverja allt aðra afstöðu núna í þessu máli en við hefðum haft þegar við vorum í ríkisstjórn og þetta stafaði af því að við værum svo sárir yfir því að vera ekki í ríkisstjórn. Mér finnst þetta satt að segja afar barnalegur málflutningur.
    Afstaða okkar í þessu máli er nákvæmlega sú sama nú og hún var meðan við fjölluðum um þetta mál í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Hún er nákvæmlega hin sama. Það er ekkert í þessu máli eða málflutningi okkar sem hefur tekið breytingum við það að við sitjum utan ríkisstjórnar. Ég skal einmitt sanna þetta með því að svara þeirri spurningu sem hæstv. umhvrh. beindi til mín og sneri að fyrirvaranum um norræna vinnumarkaðinn. Hæstv. umhvrh. sagði hér: Í síðustu ríkisstjórn var samstaða um þennan fyrirvara. Hvað hefur breyst nú? --- það er einmitt kjarni málsins. Það var samstaða í síðustu ríkisstjórn um að þetta yrði afstaða Íslendinga. Vandinn er bara sá að Evrópubandalagið hafnaði þessum fyrirvara. Það er vandamálið. Það er það sem hefur breyst, hæstv. umhvrh., að Evrópubandalagið hafnaði þessum sérstaka fyrirvara um vinnumarkaðinn og vildi láta setja í staðinn, og EFTA-ríkin féllust m.a. á það, hið almenna öryggisákvæði. Nú er þess vegna enginn fyrirvari um vinnumarkaðinn í samningsdrögunum. Við vildum hins vegar, og fráfarandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, gerði um það sérstaka samþykkt, að fyrirvarinn sem kenndur hefur verið við norræna vinnumarkaðinn ætti einnig að gilda gagnvart evrópska efnahagsbandalaginu. Þess vegna er það alveg ljóst, virðulegi umhvrh., að það er það sem hefur breyst efnislega. Svo geta menn rætt það hvort öryggisákvæði dugi eða dugi ekki, sé betra eða verra. En það er alveg ljóst að sá fyrirvari sem hér hefur gilt gagnvart Norðurlöndum er úr sögunni.
    Eins tel ég að varðandi yfirráðin yfir landi, hér hefur verið hallað mjög máli á fráfarandi landbrh., hefur auðvitað það gerst að við vildum margir að í samningnum yrði sambærilegur fyrirvari um sérstaka eign Íslendinga á landinu eins og er gagnvart fiskimiðunum. Að við skildum ekki á milli í samningnum, auðlinda hafsins og auðlinda landsins. En frá því var síðan horfið og eingöngu hafður sérstakur fyrirvari varðandi auðlindir hafsins. Það hefur þess vegna breyst, virðulegi umhvrh.

    Ég vil nú minna á að það var sérstaklega talið nauðsynlegt að fyrsta verk núv. ríkisstjórnar, mig minnir tveimur eða þremur dögum eftir að hún var mynduð, væri að halda fund í Ráðherrabústaðnum á sunnudegi til að veita hæstv. utanrrh. ótakmarkað umboð í samningunum sem hann taldi sig ekki hafa haft í síðustu ríkisstjórn. Og hæstv. utanrrh. kom út af þeim fundi í Ráðherrabústaðnum og sagði við fjölmiðla: ,,Nú hef ég ótakmarkað umboð.`` Það var m.a. ein meginréttlætingin í málflutningi hans fyrir að fara í núv. ríkisstjórn að Sjálfstfl. hefði afhent honum ótakmarkað umboð.
    Svo við þurfum auðvitað ekki að ræða þetta í þeim stíl sem hæstv. umhvrh. gerði hér. Ég tek undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt um ræðu hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar, það var margt í henni sem betur hefði mátt vera ósagt og betur væri að ekki yrði þýtt á næstu sólarhringum og sent til Brussel. Sú ræða yrði það sem almennt er kallað í alþjóðasamskiptum ,,none paper``.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði: Hvað verður um litla Ísland ef ekki verður úr samningnum um Evrópskt efnahagssvæði? Ég get svarað því hér og svar mitt er hið sama og svar Morgunblaðsins sl. sunnudag. Morgunblaðið sagði í leiðara sínum sl. sunnudag orðrétt: ,,Þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu ræður engum úrslitum um afkomu okkar Íslendinga, við komumst af án þess.`` Þetta er afstaða Morgunblaðsins, þetta er afstaða mín. Hún ræður engum úrslitum og við komumst vel af án þess. En það er greinilegt að talsmenn Alþfl. í þessum umræðum telja að þetta sé slíkt úrslitaatriði að þeir þurfi að ræða hér í umræðunum örlög Íslands ef ekki verður af þessu.
    Ég vil segja í fullri vinsemd við hæstv. utanrrh. að við vitum öll hér í salnum að hann og hans flokkur hafa fjárfest mikið pólitískt í Evrópska efnahagssvæðinu. Ég ætla ekkert að lýsa því hér hvernig það hefur verið gert á sl. tveimur árum, fundarferðir ráðherrans, yfirlýsingar Alþfl., kosningabaráttan o.fl. Það er þess vegna eðlilegt að hæstv. utanrrh., eða flokkur hans, hafi nokkra tilhneigingu til þess að vilja teygja sig og teygja sig og teygja sig í þessum samningum til þess að öll þessi pólitíska fjárfesting sé réttlætanleg. Ég vona að virðulegur utanrrh. hugleiði alvarlega, eftir þessar umræður hér, að hann hefur greinilega fengið þann boðskap að það eru alvarleg takmörk fyrir því hvað hægt er að teygja sig langt á næstu sólarhringum. Og ég vona að hann sýni þann þroska að meta meira hagsmuni Íslands en flokkspólitíska fjárfestingu Alþfl. Þar til annað kemur í ljós ætla ég að ganga út frá því að þessi von mín sé rétt. Ég ætla líka að vona að ráðherrar Sjálfstfl., sem ekki hafa talað í þessum umræðum, meti meira hagsmuni Íslands en greiðasemi og góðvild gagnvart samstarfsaðila sem huganlega vill réttlæta pólitíska fjárfestingu Alþfl. í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur að allmiklu leyti svarað þeirri fullyrðingu hv. þm. Björns Bjarnasonar um það að fyrir stjórnarskiptin hafi í reynd verið samið um allt sem máli skipti þannig að ég vona að hv. þm. íhugi í fullri velvild að sú söguskoðun sem hann hefur flutt hér í dag og flutt áður er ekki rétt. Og það gætum við ráðherrar í þeirri ríkisstjórn rökstutt mjög ítarlegu máli.
    Það hefur verið sagt í þessum umræðum að fyrirvarinn gagnvart fjárfestingum í sjávarútvegi sé skýr og klár og frá honum verði ekki vikið og það er gott. Hins vegar hefur ekkert verið rætt í þessum umræðum hvernig við ætlum að tryggja að sá fyrirvari haldi þegar íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru komin á almennan hlutabréfamarkað hér á Íslandi sem rennur þá saman við hlutabréfamarkað Evrópubandalagsins. Vegna þess að það er eitt af grundvallaratriðum Evrópska efnahagssvæðisins að hlutabréfamarkaðurinn er sameiginlegur á svæðinu öllu. Ég hef ekki enn heyrt svarið við því hvernig eigi að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti á hlutabréfamarkaði keypt sér hlutabréf í þeim íslensku sjávarútvegsfyrirtækjum sem almennt bjóða hlutabréf sín og það gera þau æ fleiri í æ ríkari mæli á almennum hlutabréfamarkaði. Ég hef ekki heldur séð svörin við því hvað kemur í veg fyrir að erlendir aðilar stofni eignarhaldsfélög og noti þau síðan sem tæki sitt til að fara inn í fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi. Ég held að það væri mjög gagnlegt að það væri rætt áður en menn fullyrða það og reyna að sannfæra sjálfa sig um það að varðandi eignarhald á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum felist engin hætta í þessum samningum.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson vakti athygli á því hér, líkt og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, að þær hugmyndir sem Evrópubandalagið hefur sett fram um

tollabreytingar væri fráleitt að vera aðgengilegar fyrir Ísland. Við vitum það sem höfum starfað með þessum mönnum hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og Steingrími Hermannsyni að í þessum efnum taka þeir yfirleitt varlega til orða. Þessar yfirlýsingar þeirra hér í þingsalnum eru því mjög alvarleg viðvörun varðandi þær hugmyndir sem við höfum séð í utanrmn. að Evrópubandalagið hefur sett á blað eða reifað, þó að það skjal frá utanrmn. hafi ekki verið rætt hér í umræðunum.
    Ég vil svo lýsa því hér að lokum að ég hef haft þann skilning á bókun 6 sem kemur fram í þeirri bók, sem Evrópustefnunefnd Alþingis gaf út og rakin er rækilega á bls. 116--130, að bókun 6 hafi tengst þeim fríverslunarsamningum sem Ísland hefur gert við Evrópubandalagið, að þeir fengju að flytja inn iðnaðarvörur til okkar og við fengjum að flytja út sjávarútvegsvörur til þeirra vegna þess að sjávarútvegsvörurnar væru okkar dýrmætustu iðnaðarvörur. Það er hins vegar alveg rétt að við eigum ekki sjálfkrafa tryggingu fyrir því að Evrópubandalagið viðurkenni það, það er samningsatriði. En við veittum þeim aðgang með sínar iðnaðarvörur í trausti þess að við fengjum aðgang með okkar sjávarútvegsvörur. Ef niðurstaðan af samningunum um Evrópskt efnahagssvæði verður sú að við fáum þær tollalækkanir að hluta til, sem beðið hefur verið um, og Evrópubandalagið fær í staðinn aðgang með sitt fjármagn, með sín þjónustufyrirtæki, fjórfrelsið, sem ekki var veitt í fríverslunarsamningunum, þá tel ég að við Íslendingar höfum verið að kaupa tvisvar það jafnrétti sem átti að ríkja í hinum upphaflegu samningum sem tengjast bókun 6, þeir flytja inn iðnaðarvörur við flytjum sjávarútvegsvörur til þeirra.
    Virðulegur forseti. Það væri freistandi að ljúka þessari ræðu hér með nokkrum vel völdum tilvitnunum í hæstv. utanrrh. um Evrópubandalagið, þá furðuskeppnu og það skrímsli, þá eiginhagsmunaveru, þá þröngsýni, þá tillitssemi, þau músarholusjónarmið, svo ég noti nú nokkur orð sem fram hafa komið í lýsingu utanrrh. á Evrópubandalaginu. Ég ætla bara að lokum að láta í ljósi þá von að hann hafi sín eigin orð ríkulega í huga þegar hann á úrslitastundum næstu sólarhringa á að meta hvað þjónar hagsmunum Íslands.