Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:43:00 (235)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Þessar umræður gefa tilefni til svara af nokkrum tilefnum, leiðréttinga í öðrum þegar um meinlegan misskilning hefur verið að ræða og að sjálfsögðu væri æskilegt ef þess væri kostur að setja þetta mál í ögn stærra samhengi, þar sem það á heima, heldur en kannski hefur tekist í þessari umræðu.
    Víkjum þá fyrst að svörum að því er varðar efnisatriði. Einn hv. þm., hv. 8. þm. Reykn., skar sig nokkuð úr í þessum umræðum, með þeim hætti að ef taka ætti orð hans bókstaflega þá er varla hægt að taka hann mjög alvarlega í þessum umræðum. Hann eyddi ræðutíma sínum í að segja: Bókun 6 frá 1976 tryggði okkur nefnilega 100% markaðsaðgang, þannig að við eigum hann og ef við ekki fáum hann eða eitthvað minna en það þá er það bara tap og enginn ávinningur. Ég vona að hv. þm. sé einn um þennan skilning. Vegna þess að þetta er kolrangur skilningur. Og fyrir þennan skilning fengi nemandi í Háskóla Íslands í stjórnmálafræðideild heldur bágt, trúi ég. Fríverslunarsamningurinn 1972 var eins og þeir vita, sem lesið hafa rit Evrópustefnunefndar undir ritstjórn hv. form. utanrmn., um fríverslun með iðnaðarvörur. Bókun 6 var sérstakur samningur eða samningsviðauki sem fjallaði um aðgang okkar fyrir sjávarafurðir. Það er mat manna, sem þann samning gerðu á þeim tíma, að hann hefði tryggt okkur u.þ.b. 70% markaðsaðild á þeim tíma þegar samningurinn var gerður. Sú viðmiðun nú samkvæmt bókun 6 væri eitthvað innan við 60%. Þetta er það sem bókun 6 var um og hún var aldrei um neitt meira annað en það eins og fram kom í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, fyrrv. sjútvrh., sem minnti á að samkvæmt skilningi EB hefðu þeir alltaf talið að þeir ættu vanlokið fullnaðarsamningum við Íslendinga á grundvelli bókunar 6 vegna þess að þessar heimildir voru gefnar í trausti þess að gerður yrði í framhaldinu rammasamningur við Íslendinga og á þeim forsendum sameiginlegrar fiskveiðistefnu bandalagsins sem krafði okkur um veiðiheimildir í staðinn fyrir frekari tollaívilnanir. Á það reyndi síðan 1985 þegar eftir því var leitað við inngöngu Spánar og Portúgals að við gengum eftir tollfríðindum að því er varðaði saltfisk og var

því synjað af því að við vildum ekki láta af hendi veiðiheimildir, Norðmenn fengu af því að þeir voru tilbúnir til þess. Þetta er það sem er um bókun 6 að segja.
    Að halda því fram hér í alvarlegri umræðu af hálfu formanns stjórnmálaflokks að við höfum átt samkvæmt bókun 6 100% markaðsaðgang er ekki sæmandi í svona málflutningi. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson, fyrrv. hæstv. sjútvrh., hefur reyndar leiðrétt þetta þannig að ekki þarf frekar við það að bæta. Annað atriði í málflutningi hv. 8. þm. Reykn. var svona af sögulegu hyperbólunni, þ.e. það átti að vera nýtt í Íslandssögunni, það er allt svo nýtt í Íslandssögunni hjá honum, að samkvæmt þessum samningum væri nú útlendingum veittur atvinnuréttur. Og það var alveg nýtt í Íslandssögunni, hafði aldrei gerst fyrr að erlendir aðilar mættu eignast jarðnæði á Íslandi. Hvort tveggja er rangt. Hvort tveggja er bara söguleg hyperbóla. Rangt augljóslega vegna þess að við höfum í mörg ár haft samning um hinn norræna vinnumarkað sem kvað á um það að það voru gagnkvæm atvinnuréttindi á íslenskum og norrænum vinnumarkaði. Með þeim afleiðingum að hér eru starfandi á vinnumarkaðnum eitthvað á annað þúsund norrænir menn allt í allt, á vinnumarkaði á Norðurlöndum eru þúsundir Íslendinga. Fróður maður hefur metið það svo að ef þessi samningur væri ekki í gildi þá væri atvinnuleysi á Íslandi sennilega um 7%.
    Að því er varðar rétt manna til að sitja bújarðir þá er það svo að þess eru nokkur dæmi að erlendir menn, menn af erlendu ríkisfangi og erlendum uppruna sitji bújarðir hér, þannig að ekki er það nú neitt nýnæmi. Það sem hér skiptir máli er eftirfarandi: Er fyrirvarinn sem nú er að því er varðar vinnumarkaðinn jafnhaldgóður og sá sem gilti gagnvart norræna vinnumarkaðnum? Ég segi já. Hann byggir annars vegar á öryggisákvæði og hins vegar á sérstakri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um það við hvaða kringumstæður því skuli beitt. Og það er enginn vafi á því að það er á valdi íslenskra stjórnvalda að beita þessu ákvæði, taka í taumana ef þörf krefur. Það er ekki hægt að áfrýja þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda til dómstóls. Réttur gagnaðilans er um gagnaðgerðir og því má áfrýja til dómstóls.
    Menn geta náttúrlega lengi sagt: Ég tel nú samt sem áður að fyrirvarinn að því er varðar hugsanlegan rétt erlendra ríkisborgara til kaupa á hlunnindajörðum sé ekki nægilega vel tryggður, jafnvel þótt við setjum í íslensk lög nánari skilyrði sem byggja ekki á mismunun, skilyrði sem lúta að forkaupsrétti sveitarfélaga, skilyrði sem lúta að forkaupsrétti ríkis, skilyrði sem lúta að nýtingarkvöð, skilyrði sem lúta að búsetutímabili.
    Og af því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði með vísan til svokallaðs kvótahoppsdóms í málum Breta og Spánverja þá vil ég taka fram eftirfarandi: Ég gerði grein fyrir því hvernig dómar hafa fallið að því er varðar þrjú mál og varða þetta hvort réttur sé ríkisstjórnar í aðildarríkjum EB til þess að hafa þrengingarákvæði varðandi búseturétt og það er alveg ljóst að því er varðar bæði Danmörku, Grikkland og Írland. Að því er varðar þetta tiltekna mál sem hv. þm. vék að þá er hægt að fara lengi út í þá sálma, en ég ætla bara að segja eitt: Sá dómur er þessum samningum óviðkomandi. Af hverju? Það er vegna þess að hann lýtur að skráningu skipa milli landa innan bandalagsins. Sjávarútvegurinn er ekki partur af fjórfrelsinu innan bandalagsins og í annan stað eru algerir og ófrávíkjanlegir og varanlegir fyrirvarar af Íslands hálfu varðandi rétt til fjárfestingar eða stofnunar fyrirtækja í sjávarútvegi, útgerð og frumvinnslu. Þannig að sá dómur hefur ekkert gildi að því er þessa samninga varðar.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði: Er nú tryggt að þessi fyrirvari haldi miðað við frekari opnun fjármagnsmarkaðar, miðað við hlutabréfamarkaði, miðað við eignarhaldsfyrirtæki? Svar við því er þetta: Samkvæmt honum væri ólöglegt að veita veiðiheimildir útgerðarfyrirtæki sem væri að einhverju leyti í eigu erlendra aðila. Er hægt að framfylgja því? Til þess væru ýmsar leiðir. Já. En það er líka hægt að segja: Ja, en það verður leppað, það verður svindlað. Það er hægt að gera það nú þegar og sumir halda því fram að það sé gert nú þegar. En það verður ekkert frekar hægt að gera það við þessi skilyrði heldur en núverandi skilyrði. Og reyndar má segja á móti: Hvaða fjármagnsaðili mundi hætta fé sínu til þess að kaupa hluti í útgerðarfyrirtæki og eiga það á hættu að það verði arðlaust við sviptingu á veiðiheimildum?
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og reyndar fleiri flokksbræður hans reyndu að gera lítið úr þeirri vinningsvon sem í þessum samningum er fólgin og reiknaði í skódum og ráðherrabílaverðum. Það vill nú svo til að enginn hefur fremur en ráðuneytið undir hans stjórn, fjmrn., lagt mat af jafnmikilli bjartsýni eins og fjmrn. samkvæmt þessari skýrslu um Evrópu 1992 og ríkisfjármálin útgefinni í apríl undir verkstjórn hæstv. þáv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Þar segir í fyrsta lagi: ,,Þetta mun leiða til agaðri hagstjórnar.`` --- Munum við ekki ræðu hæstv. fyrrv. fjmrh. um nauðsyn agaðri hagstjórnar?.
    Þar segir í annan stað: ,,Ríkisútgjöld munu lækka. Þegar á heildina er litið gæti aðlögun að evrópska markaðnum dregið úr útgjöldum ríkissjóðs enda þótt kostnaður aukist á ýmsum sviðum. Heildaráhrifin gætu legið á bilinu 1--2 1 / 2 milljarður kr. Þessi áhrif eru þó óviss. Sparnaðurinn kemur einkum fram í auknu aðhaldi að ríkisstyrkjum til atvinnuvega, einkum ívilnunum á sviði skattamála og lánafyrirgreiðslu.
    Aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og meiri hagkvæmni í búrekstri gæti einnig skilað sér í lægra búvöruverði og þannig dregið úr þörf fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði.
    Þá er líklegt að vextir lækki þegar fram í sækir vegna áhrifa innri markaðarins. Opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins mun hafa sömu áhrif.``
    Þá segir í þriðja lagi: ,,Heildaráhrifin eru jákvæð. Margt bendir til þess að aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópska markaðnum muni hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Áhrifin koma fram bæði í auknum tekjum vegna meiri umsvifa í efnahagslífinu og sparnaði í ríkisútgjöldum. Þessi áhrif gætu mælst á bilinu 4--6 milljarðar kr. þegar upp er staðið eða sem svarar 1--1,5% af landsframleiðslu. Áhrifin koma þó ekki að fullu fram fyrr en að nokkrum tíma liðnum.``
    Hvað eru þetta margir skódar? Hvað eru þetta margir hálfir ráðherrabílar? Þeir eru býsna miklu fleiri en hv. þm. vildu vera láta og þó er þetta nú ekki kjarni málsins. Það er búið að taka saman skýrslur af hálfu allra stofnana, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, ráðuneyta og það fer að sjálfsögðu mjög eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Samningurinn liggur heldur ekki fyrir. En kjarninn í þessu mati er náttúrlega ekki fólginn í útreikningum í krónum og aurum og skódum, ráðherrabílum eða öðru slíku. Menn verða einfaldlega að leggja mat á vaxtarhorfur íslensks þjóðfélags, annars vegar í samhengi aðildar að innri markaðnum gegnum Evrópska efnahagssvæðið hins vegar hvaða áhrif það hefur að ná ekki slíkum samningum hefur.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vitnaði til gagnrýninna orða af minni hálfu um Evrópubandalagið. Og það er rétt. Ég hef gagnrýnt Evrópubandalagið og það hafa margir af starfsbræðrum mínum gert, fyrst og fremst vegna þess að látin hafa verið uppi af hálfu pólitískra forustumanna, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, nokkuð afdráttarlausar yfirlýsingar um vilja þeirra til að ganga frá þessum samningum og að þeir munu ekki láta músarholusjónarmið eða kjördæmahagsmuni einstakra ríkja standa þar í veginum. Þegar kemur að samningaborðinu hefur hins vegar verið að mæta mönnum sem telja sig hafa nánast ekki umboð til þess að víkja í einu eða neinu frá samningum eða ganga til raunverulegra samninga. EFTA-ríkjunum hefur verið sýnd sú móðgun að þegar komið hefur á lokastig samningafunda, þá hafa ráðherrar sem með þessi mál hafa farið ekki verið viðstaddir, verið farnir. Þetta hef ég gagnrýnt og gert það opinberlega og stend við þá gagnrýni. En þversögnin er fólgin í því að gagnrýna utanrrh. fyrir þetta mat á Evrópubandalaginu sem stjórnkerfi og samningakerfi og hins vegar því að gagnrýna utanrrh. fyrir að vera svo blindaður af ljóma Evrópubandalagsins að hann vilji ólmur draga þjóðina nauðuga viljuga inn í Evrópubandalagið, það er þversögnin. Það er ekki hægt að halda hvoru tveggja fram vegna þess að það er alveg skýrt, og ég hef sagt það frá upphafi, við kaupum ekki þessa samninga hvaða verði sem er. Við leggjum á þá raunsætt mat. Samningarnir liggja ekki fyrir. Ég er ekki að krefja talsmenn þingflokka um það að taka afstöðu hér afdráttarlaust með samningum fyrr en samningsniðurstaðan liggur fyrir.
    Ég tek eftir því að það er allt annar tónn í umræðu af hálfu málsvara Alþb. heldur en var í fyrri ríkisstjórn. Ég tek eftir því að talsmenn Framsfl. halda opnum dyrum svo sem er hygginna manna háttur við þessi skilyrði. Og ég tek eftir því að það var talsvert annar tónn í umfjöllun um þetta mál af hálfu hv. þm. Kristínar Einarsdóttur en hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er gott að hafa margradda kór.

    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson vék að mjög þýðingarmiklu máli í þessu samhengi sem er spurningin um gagnkvæmar veiðiheimildir og taldi að um það mál hefði verið fjallað --- af minni hálfu væntanlega --- af léttúð. Ekki vil ég við það kannast, en það er hverju orði sannara að þetta er ekkert léttúðarmálefni heldur mikilvægt mál. Ég gekk út frá því sem gefnu að vísu að mönnum væri þetta mál allvel kunnugt því að það var vissulega rætt á sl. sumri, kynnt hagsmunaaðilum. Þeir ályktuðu um málið og okkur er kunnugt um það að þeir lýstu sig ekki andvíga þeirri niðurstöðu. Og hver var hún? Hún var fyrst og fremst þessi: Þetta er árlegur samningur á grundvelli rammasamnings og kæmi fyrst til framkvæmda 1993. Hér er um að ræða gagnkvæm skipti á veiðiheimildum og alls ekki einhliða veiðiheimildir. Hámarkið miðast við jafnvirði 3000 tonna af karfa, samkvæmt EB-útreikningsreglum ígildi 2600 tonna af þorski. Veiðiheimildir Íslendinga yrðu með gagnkvæmum hætti 3000 tonn af karfa úr hlut Grænlendinga í loðnustofni sem er metinn þá á 30 þús. tonn. Í þessum samningsdrögum eru ákvæði um það að náist þær veiðar ekki, þá komi veiðiheimildir í öðrum tegundum.
    Að því er varðar útfærslu, þá er kveðið á um það af okkar hálfu að þessar veiðiheimildir skuli skiptast gróflega að 2 / 3 langhali, 1 / 3 karfi, hámark aukaafla yrði 5%. Veiðarnar færu fram í ákveðnum hólfum sem hafa verið skilgreind. Fjöldi skipa yrði takmarkaður, hann yrði háður leyfum, engir frystitogarar yrðu leyfðir, veiðileyfi yrðu gefin út af íslenskum stjórnvöldum á hvert skip, veiðitími er skilgreindur, veiðarfæri eru skilgreind og íslenskir eftirlitsmenn um borð. Þetta er kjarni þessa máls.
    Nú vil ég að vísu láta þess getið að þetta sem ég hef nú verið að kynna er hið íslenska tilboð. Ég hef ekki aðra vitneskju en þá að af hálfu Evrópubandalagsins hefur þetta tilboð ekki verið gagnrýnt og það hafa ekki verið uppi kröfur um breytingar á því. En þetta mál er ekki í höfn og ég vil taka það alveg skýrt fram. Og ég vil undirstrika það sem ég sagði í ræðu minni í upphafi, ég vara við bjartsýni um það að þetta liggi fyrir eins og við viljum hafa. Togstreitan um lausnina að því er varðar markaðsaðganginn verður erfið og við verðum krafnir fram á seinustu stund um allt það sem viðsemjendum okkar getur komið til hugar til þess að fá í staðinn því að það er ljóst að eftir að þeir gáfust upp á kröfunni um einhliða veiðiheimildir og eftir að þeir, a.m.k. munnlega eins og nú er, féllust á skilyrðislausan, varanlegan fyrirvara að því er varðar fjárfestingarréttindi í sjávarútvegi, þá vilja þeir á móti herða kröfurnar um það að markaðsaðgangurinn verði minni. Það er rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði. Ég færist undan því á þessari stundu að tíunda það í tollflokkum og tegundum hver séu okkar samningsmarkmið. Menn kunnugir sjávarútvegi vita þau gjörla, en það er ekki í samræmi við íslenska hagsmuni að gera það hér og nú og hafa það í þýðingum á borðum samningsaðila okkar á morgun. Það mál er einfaldlega þannig að nú stendur fyrir dyrum lokataflið og það er um það að ná sem hagstæðustum markaðsaðgangi þrátt fyrir það að okkur hefur tekist að brjóta á bak aftur forsendur fiskveiðistjórnunar EB um veiðiheimildir og fjárfestingarrétt og það verður ekki dans á rósum.
    Þá vildi ég gjarnan víkja að nokkrum atriðum í máli frummælanda, hv. þm. Steingríms Hermannssonar. Hann spurði um þjóðaratkvæði. Svar mitt við því er mjög einfalt. Þetta er milliríkjasamningur sem ég tel að eigi að meðhöndla á nákvæmlega sama hátt og sambærilega milliríkjasamninga þar sem í þeim felast engin afsöl á fullveldi, engin afsöl á löggjafarvaldi, ekki afsal á dómsvaldi. Þá er ekkert sérstakt tilefni til þess að bera þetta undir þjóðaratkvæði frekar en aðra samninga sem ríkisstjórnir á liðnum árum hafa afgreitt með sama hætti, þ.e. með því að það er Alþingi sem staðfestir þá eða hafnar þeim.
    Hér var nokkur umræða um norsku stjórnarskrána. Það er kannski ástæða til þess að víkja að því hér, og þá vitna ég í lagaálit frá forstöðumanni Lagastofnunar Háskólans, en þar segir, með leyfi forseta, á þessa leið:
    ,,Á Norðurlöndum hafa farið fram allnokkrar umræður um það hvort samningar um EES kalli á stjórnarskrárbreytingar. Eftir því sem næst verður komist eru þær ekki fyrirhugaðar vegna þess að efni samningsins er ekki talið kalla á slíkar breytingar. Hér er því þó við að bæta að líklegt er að samningurinn verði borinn upp í norska Stórþinginu á grundvelli 93. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um samþykki 3 / 4 hluta þingmanna þegar um aðild Noregs að fjölþjóðasamtökum er að ræða þar sem stofnanir eru að einhverju

leyti yfirþjóðlegar. Ekki eru þó allir norskir fræðimenn á einu máli um að EES-samningurinn heyri undir 93. gr. og telja margir að einfaldur meiri hluti dugi.``
    Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Ekki virðist nauðsyn á að breyta íslensku stjórnarskránni þótt við gerumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ekki sýnist þar gert ráð fyrir framsali íslensks ríkisvalds í hendur yfirþjóðlegum stofnunum í þeim mæli að það skerði sjálfsforræði landsins. Annað gildir um aðild að Evrópubandalaginu. Þar yrði stjórnarskrárbreyting tvímælalaust nauðsynleg.`` ( Gripið fram í: Hver skrifaði þetta?) Þetta er minnisblað um stjórnarskrána og Evrópska efnahagssvæðið og höfundur er Gunnar G. Schram lagaprófessor.
    Virðulegi forseti. Tíminn leyfir ekki að ég fjalli frekar um þetta mál eins og ég gjarnan vildi þó gera að því er varðar víðtækara samhengi þess. Ég vil að lokum aðeins draga saman nokkur meginatriði.
    Það hefur einkennt alla umræðu um þessa miklu samninga við Evrópubandalagið að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir þeim reginmun sem er á samningum af þessu tagi við Evrópubandalagið og umsókn um aðild að Evrópubandalaginu. Það er gegnumgangandi í þessari umræðu að þessu er ruglað saman og þegar ég vék að þessu dreifiriti samtakanna sem nefna sig ,,Samstaða um óháð Ísland`` og benti á að þar er flest á misskilningi byggt, þá er rauði þráðurinn í þeim misskilningi að þar er alltaf verið að rugla saman aðild að Evrópubandalaginu og þessum samningum. Það er tími til kominn í nafni hins upplýsta lýðræðis að menn láti af svona tvískinnungi. Þessu er ekki saman að jafna. Það er alveg sama hvort menn líta á ákvörðunarferlið, á stofnanirnar sjálfar, þá er þarna á reginmunur. Og að því er varðar hið Evrópska efnahagssvæði og samanburðinn við stofnanir EB, þ.e. ráðherraráðið, framkvæmdastjórnina, þingið o.s.frv., þá er það tiltölulega einfalt mál.
    Evrópubandalagið er tollabandalag. Þessir samningar eru ekki um tollabandalag. Evrópubandalagið hefur sameiginlega ytri tolla. Það er ekki á Evrópska efnahagssvæðinu. Evrópubandalagið hefur sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart þriðja aðila. Það er ekki í þessum samningum. Löggjafarvaldið í Evrópubandalaginu er hjá ráðherraráðinu fremur en Evrópuþinginu, þó nú í minni mæli, þingið hefur a.m.k. ákvarðanir um fjárlög en löggjafarvaldið er hjá ráðherraráðinu sem er yfirþjóðleg stofnun. Það er ekkert framsal á löggjafarvaldi frá löggjafarsamkundum EFTA-ríkjanna. Stjórn EES-svæðisins tekur engar ákvarðanir nema með samstöðu. Þar eru engar atkvæðagreiðslur, þar er engin þjóð borin ofurliði í atkvæðagreiðslu.
    Dómstóllinn að því er varðar EES felur ekki í sér framsal á æðsta dómsvaldi í hendur erlendu dómsvaldi. Eftirlitsstofnunin er eins og hver annar dómari að því er varðar leikreglur í alþjóðlegum samningum. Að sjálfsögðu er það ekki innlendur aðili einn sem kveður upp úr um það hvenær verið er að brjóta alþjóðlegan samning. Það er engri þjóð eins nauðsynlegt og smáþjóð í heimi þar sem hnefaréttur hins stóra gildir nú yfirleitt að leysa sín mál með samningum og með því að tryggja að eftirlit með samningum sé öruggt. Að halda því fram að hér sé um að ræða fullveldisafsal er rökleysa. Einstaklingur sem gengur að samningum við annan einstakling þarf að vera sjálfráða og fjárráða. Ríki sem gerir milliríkjasamninga þarf að vera fullvalda. Það ríki sem gerir slíka samninga er ekki að svipta sig fullveldi en það er hins vegar að takmarka af ásettu og yfirlögðu ráði vegna þess að það er eiginhagsmunamat ríkisins að það vill gera svo ef á bak við það er löggjafarvald viðkomandi ríkis og framkvæmdarvald.
    Við eigum aðild að GATT. Það takmarkar rétt ríkisins núna til fjáröflunartolla, en það veitir líka um leið útflutningsgreinum okkar ákveðin réttindi gagnvart tollmúrum annarra. Við göngum í NATO. Það skuldbindur okkur til samstöðu með aðildarríkjunum í öryggismálum, en það veitir okkur á móti öryggi í öryggismálum. Við göngum í Evrópuráðið og Sameinuðu þjóðirnar. Þar tökum við á okkur skuldbindingar, t.d. um varðveislu mannréttinda. Í Evrópuráðssamstarfinu kom það á daginn að grundvallaratriði í stjórnskipan Íslands, sem er aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds, var þar af mannréttindadómstóli talinn ósamrýmanlegur alþjóðasamningi og við umturnuðum okkar dómskerfi á þeirri forsendu. Er það afsal á fullveldi? Nei, það er að standa við kvöð alþjóðlegra skuldbindinga. Þannig mætti lengi telja.

    Það var ágætur jesúíti frá Louvain í Belgíu sem birti hér eina athyglisverðustu greinina, uppýstustu greinina sem birst hefur um EES-umræðuna í íslenskum fjölmiðlum á þessu sumri. Og hann sagði: Það er ekkert algjört fullveldi nema hjá guði almáttugum. Sá einn er engum háður sem öllu ræður. Guð er fullvalda en engir aðrir eru algjörlega fullvalda. Þetta eru pottþétt rök hjá jesúítanum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. Ég held að ( ÓRG: Það er eins gott að Jón Sigurðsson var ekki jesúíti.) Þetta frammíkall er svona framhald af ræðu hv. formanns Alþb. og sýnir þá alvöru sem hann leggur í þetta mál sem öðrum þræði er kallað hið mikilvægasta sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar en öllu gamni fylgir nokkur alvara.
    Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Ég hef lagt vel við hlustir um það sem hér hefur verið sagt og við skulum vona það sameiginlega að okkur takist að halda þannig á málum í þessu endatafli að það geti skapast sem mest og víðtækust samstaða meðal íslensku þjóðarinnar um þessa samninga.