Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 19:11:00 (236)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hafði nú lofað að tala ekki mikið a.m.k. núna í lokin og skal reyna að standa við það. En síðasti ræðumaður vék orðum að mér og harma ég það ekki, síður en svo, og við fengum hér mjög skemmtilega kennslustund í Evrópufræðum og mörgu fleiru sem líka var mjög nauðsynlegt að rifja upp, ýmislegt merkilegt og mismuninn á EB og EES og hvaðeina. Auðvitað er þar mismunur á en ég held nú að það sé varlegra að hlaupa ekki inn í þetta nýja bandalag án þess að hafa einhverja hugmynd um hvað efnislega muni felast í því sem á að fara jafnvel að skrifa undir í næstu viku. Ég vil árétta það sem ég sagði hér áðan að það verður ekki skrifað undir neitt í næstu viku. Alþingi verður að fjalla um þetta áður en um það er samið. Ég gat um það sérstaklega að lögum samkvæmt verður að bera slík stórmál undir utanrmn. og ef það á að byrja að tala saman á mánudag þá get ég varla ímyndað mér að það verði skrifað undir eitthvað í næstu viku. Ég held að það væri brot á öllum lögum og venjum. Þannig höfum við sem betur fer enn þá nokkurt svigrúm áður en þessi ósköp ganga yfir okkur, ef það eru ósköp. Við skulum segja að þeir víki frá öllu sem þeir eru að krefja og þá gætum við svo sem gert okkar kröfur og sagt: Við ætlum að hafa þetta svona. Þið samþykkið það, alveg eins og þeir segja alltaf við okkur: Við ætlum að hafa þetta svona, þið samþykkið það. Við samþykkjum ekkert óséð. Ekki ég. Það er alveg á hreinu.
    En það eru ýmiss konar fyrirvarar í þessari bók sem var nefnd og ég vona að allir hv. þm., líka þeir sem nýkomnir eru, hafi náð sér í. Hún er til hér í nokkru upplagi, en þar er þess getið t.d. að 7. nóv. 1976 hafi Gundelach, sá frægi samningamaður, sagt að það væri alveg . . . (Forseti hringir.) Ég get líklega ekki fengið að lesa þetta allt saman, en þar eru gerðir fyrirvarar í bak og fyrir. Allar íslenskar ríkisstjórnir hafa bent á þann reginmun sem væri á þessum reglum öllum gagnvart okkur og öðrum þegar við veitum full tollfríðindi á öllum innflutningi á iðnaðarvarningi frá bandalaginu, en síðan er samið við Spánverja og Portúgali t.d. og þá auðvitað ruglast allar þessar reglur. Og eins og ég er alltaf að segja þá á eitthvað að koma á móti einhverju, það á eitthvað að koma á móti einhverju, ekki að það eigi (Forseti hringir.) að koma sérstakir viðskiptasamningar --- ég verð líklegast að hætta, en ég býst við að allir menn geri sér grein fyrir því að þegar allur grunnurinn undir viðskiptunum í heild sinni ruglast út af magni og verðmæti, þá á auðvitað hjá siðuðum mönnum að taka þetta upp og það eru margir fyrirvarar í bak og fyrir frá öllum ríkisstjórnum um þetta.