Notkun kjarnakljúfa á höfum úti

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:39:00 (239)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau greinargóðu svör sem hér voru gefin, þ.e. að því leytinu til sem mér tókst að nema þau, bæði vegna þess að hæstv. utanrrh. talaði fremur lágt úr pontunni og auk þess er nokkur ókyrrð í salnum svo að það er svolítið erfitt að heyra það sem hér fer fram. En mér heyrðust svörin vera á þá lund að þau væru mjög ásættanleg, þ.e. þetta væri áhersluatriði hjá núv. utanrrh. og núv. ríkisstjórn og það er auðvitað gott.
    Utanrrh. kom aðeins inn á að það yrði fækkun í flota kjarnorkubúinna herskipa á næstu árum, m.a. fyrir tilstilli úreldingar. Það er auðvitað vandamál sem snertir okkur líka, þ.e. úrelding þessara skipa. Það er spurning hvernig menn ætla að koma þessum úrgangi fyrir sem þeir úrelda. Og það má benda á það að þetta er varanlegur arfur sem menn eru að koma sér upp þegar slík skip eru byggð því að í lok ársins 1989 voru úr sér gengnir kjarnakljúfar tilheyrandi flotum kjarnorkuveldanna 24. Árið 1995 verða þeir orðnir 180 og 400 í viðbót árið 2020 með sama áframhaldi. Og því miður virðast kjarnorkuflotarnir hafa mjög litlar áætlanir uppi um örugga meðferð þessara kjarnakljúfa sem þeir úrelda.
    Það má benda á það að í þeirri umræðu sem verið hefur um einhliða afvopnun á höfunum hafa ekki verið uppi áætlanir hjá þessum kjarnorkuveldum um að draga úr byggingu kjarnorkuknúinna kafbáta. Bretar munu t.d. ætla að halda áfram að byggja Trident-kafbáta sína sem þeir voru með plön um áður.
    En ég þakka fyrir svörin og ég vænti þess að það verði gert eins og utanrrh. boðaði að þessi mál verði tekin upp, m.a. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.