Umferð kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:42:00 (240)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan, þá eru höfin gífurlega kjarnorkuvædd og þau eru eins og einskis manns land þar sem kjarnorkuveldin fara nákvæmlega sínu fram og lúta aðeins eigin reglum. Þau hafa í raun slegið eign sinni á úthöfin sem eru þó sameign allra jarðarbúa. Þess vegna m.a. hafa kjarnorkuveldin aldrei verið tilbúin til að ljá máls á samningum um afvopnun á höfunum. Á þessum málum þarf að taka á alþjóðavettvangi og fsp. mín hér á undan tekur nokkuð mið af því.
    En við getum líka gert sitthvað hér heima fyrir og við getum með einhliða aðgerðum haft mikil áhrif á nánasta umhverfi okkar og reynt að vernda það eins og kostur er. Mikilvægt skref í þá veru var stigið á árinu 1985 þegar þáv. hæstv. utanrrh., Geir Hallgrímsson, lýsti því yfir úr þessum stól að bann við staðsetningu kjarnorkuvopna tæki einnig til herskipa sem kæmu til íslenskra hafna eða sigldu um íslenska lögsögu. Þetta sama ár stóð utanrmn. sameiginlega að flutningi þáltill. um stefnu í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi. Þar var m.a. lýst yfir vilja til að kanna möguleika á kjarnorkuvopnalausu svæði í Norður-Evrópu, eins og stendur í ályktuninni, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því.
    Bæði yfirlýsing Geirs Hallgrímssonar sem og þál. voru mikilvægar á sínum tíma og eftir þeim var tekið á alþjóðavettvangi. En frá því að þær voru gerðar hefur mikið vatn runnið til sjávar og menn áttað sig æ betur á að það eru ekki aðeins vopnin sem ógna okkur heldur notkun kjarnorku á höfum úti. Skoðun mín er sú að Alþingi þurfi að endurskoða þessa ályktun frá 1985 vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum og afvopnunarmálum. Við þurfum að skerpa hana sérstaklega með tillliti til afvopnunar á höfunum og við þurfum að láta hana taka almennt til notkunar kjarnorku um borð í herskipum sem hingað koma í íslenska lögsögu. Ég mun beita mér fyrir því að slík endurskoðun fari fram í utanrmn. og reynt verði að ná samstöðu núna rétt eins og árið 1985 því að slík samstaða hjá Alþingi eins og þar náðist er mjög mikilvæg.
    Ég tel engu að síður ástæðu til að spyrja um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og þess vegna hef ég lagt fram fsp. til hæstv. utanrrh. á þskj. 8, en hún er svohljóðandi:
    ,,Hefur ríkisstjórnin einhver áform um að banna umferð kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu?``