Umferð kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:48:00 (243)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka svör utanrrh. við fyrirspurn minni. Ég get hins vegar ekki sagt að ég sé fyllilega sátt við þau svör vegna þess að það kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann sæi ekki ástæðu til að setja bann við siglingu kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu vegna þess að ekki væri vitað til þess að nokkurt slíkt hefði komið inn fyrir 12 mílna lögsöguna á undanförnum árum. Ég er ekki alveg jafnsannfærð og utanrrh. um það, en ég þarf að skoða það mál betur áður en ég fullyrði nokkuð héðan úr þessari pontu.
    En ég vil minna á það að þegar hér stóð yfir umræða á Alþingi um það að koma upp kjarnorkulausu svæði á Norðurlöndum var því m.a. haldið fram að það væri alveg óþarfi og hefði enga pólitíska þýðingu að koma með slíka yfirlýsingu vegna þess að Norðurlöndin væru í raun kjarnorkuvopnalaus. Og því hélt m.a. hæstv. utanrrh. fram. Raunin hefur auðvitað sýnt allt annað. Þegar farið hefur verið ofan í þau mál hefur komið í ljós að tugir og hundruð herskipa með kjarnavopn innan borðs hafa að öllum líkindum komið til norrænna hafna á undanförnum árum. Það hefði þess vegna verulega pólitíska þýðing að lýsa því yfir og ég trúi því að það hefði pólitíska þýðingu að lýsa yfir slíku banni. Það væri þá alveg ljóst hver vilji okkar er.