Flóttamenn á Íslandi

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:00:00 (249)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Herra forseti. Í framhaldi af fyrri fsp. minni um málefni flóttamanna leyfi ég mér á þskj. 13 að spyrja hæstv. dómsrh. eftirfarandi spurninga:
,,1. Hversu margt fólk, sem fellur undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á flóttamönnum, hefur beðið um hæli hér á landi undanfarin fimm ár?
    2. Hversu margir flóttamenn hafa fengið hæli hér á landi sl. fimm ár?
    3. Hafi útlendingum verið synjað um landvist sl. fimm ár, af hvaða ástæðum hefur það verið gert og frá hvaða löndum hafa þeir komið?
    4. Hversu mörgum útlendingum hefur verið vísað frá Íslandi ,,á landamærum``, þ.e. í flughöfninni í Keflavík og höfnum landsins?
    5. Hafa stjórnvöld vitneskju um flóttamenn sem dveljast hér á landi ólöglega?``
    Með þessum spurningum vonast ég til að fá upplýsingar um það hvort flóttamannastraumur hingað til lands hafi aukist, hvernig tekið hefur verið við fólki sem hér leitar landvistar. Og þá langar mig að vita hvort hér hefur komið upp vandamál sem er vel þekkt í Evrópu og t.d. Kanada, en það er fólk sem kemst ólöglega inn í landið eða dvelst ólöglega í landinu og er þar af leiðandi oft notað sem ódýrt vinnuafl og býr við mikið óöryggi.